23.01.1952
Efri deild: 69. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1382 í B-deild Alþingistíðinda. (2310)

109. mál, skipun prestakalla

Frsm. minni hl. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Ég gat ekki orðið samferða meðnefndarmönnum mínum í menntmn., og ber ég því fram minnihlutaálit, sem ég stend einn að, en þar legg ég til, að allar þær brtt., sem fram höfðu komið, er n. lauk störfum sínum, verði felldar. Um þær brtt., sem fram hafa komið síðan, var mér eðlilega ekki kunnugt þá.

Þegar þetta mál kom aftur frá hv. Nd., var sú breyting á það komin, að tala presta í landinu var orðin 118, þ. e. a. s., prestaköll voru 117, en umferðarprestur einn. En eins og málið kom frá milliþn. þá var tala prestsembætta 116, prestaköll 114, en umferðarprestar tveir.

Þegar maður lítur á þetta mál í heild, þá virðist, að þeir, sem er annt um, að þetta mál nái fram að ganga á þessu þingi, geti sætt sig við þá úrlausn, er það fékk í hv. Nd. En svo hefur því miður ekki. reynzt.

Meiri hl. menntmn. leggur til, að prestsembættum sé fækkað um fjögur, og þar að auki er svo brtt. á þskj. 750 um að leggja niður eitt í viðbót, en þá eru þau orðin fimm. Við það bætist svo tillaga frá hv. þm. Barð. um að fella niður 7. gr. frv., sem er um aðstoðarprestana. Ég verð að segja það um hv. þm. Barð., að mér kemur þessi till. hans mjög á óvart, eins og baráttu hans í þessu máli hefur verið háttað. Hann hefur allra manna mest hér á hv. Alþ. sýnt þessu máli áhuga og barizt mjög drengilega gegn því, að prestum yrði fækkað, sérstaklega í sveitum landsins. En nú leggur þessi hv. þm. til, að þessi eini aðstoðarprestur verði felldur niður úr frv. Með þessu háttalagi sínu stefnir þessi hv. þm. málinu í voða hér á Alþ., og er það, eins og ég áður tók fram, í algerri andstöðu við baráttu hans fyrir þessu máli hér áður.

Ég ætla ekki að ræða nánar um þetta nú, en legg til, að allar brtt. frá meiri hl. menntmn. á þskj. 741 verði felldar. — Hæstv. kirkjumrh. (HermJ) hefur lagt til, að a- og b-liður á þessu þskj. verði samþykktir, en þar er m. a. gert ráð fyrir, að Selfoss sé felldur niður sem sérstakt prestakall. Ég hef áður við þessar umr. lýst mig andvígan þeim tilfæringum, sem gert er ráð fyrir að fram fari í Árnesprófastsdæmi, þar sem á að leggja niður prestakall í blómlegri sveit, en fá í þess stað annað á Selfoss. Ég vil gjarnan fá prest á Selfoss, en ég vil ekki vinna það til, að Stóri-Núpur sé í staðinn lagður niður. Það er nú lagt til af meiri hluta hv. menntmn. á þskj. 741, að Selfoss verði skilinn út úr, og mun ég ekki ræða það nánar nú.

Þá eru það brtt. á þskj. 750 frá hv. 1. þm. N-M., sem ég legg til að verði allar felldar. Ég vil aðeins minnast á, að samkv. till. þessa hv. þm. er gert ráð fyrir því, að í stað nafnsins „Stóri-Núpur“ komi: Skarð. Þessi breyting kom inn í frv. í Nd. vegna áskorana frá fólkinu, sem þarna á heima. Því stendur ekki á sama um, að nafnið „Stóra-Núpsprestakall“ falli niður. Það má vel vera, að þetta sé tilfinningamál, en mér finnst alger óþarfi að breyta þarna um nafn, enda þótt presturinn sitji nú sem stendur á Skarði. Mér finnst það ákaflega einkennileg röksemdafærsla, sem hv. 1. þm. N-M. beitir í þessu máli, og legg því eindregið til, að þessi brtt. sé felld. Enda þótt presturinn sitji nú um stundarsakir á Skarði getur vel svo farið, að hann flytjist brátt aftur að Stóra-Núpi. Enda þótt sú regla, sem milliþn. tók upp um nafngiftir á prestaköllum, geti sums staðar átt við, álít ég, að hún sé í sumum tilfellum fjarstæðukennd, og á ég þar einmitt við Stóra-Núp. Annars er þessi eltingarleikur þessa hv. 1. þm. N-M. við þetta prestakallamál óskiljanlegur öllum þeim, sem þekkja ekki til og vita ekki, að það, sem fyrir þessum hv. þm. vakir, er aðeins það, að málið dagi uppi.

Um aðrar till., sem hér hafa komið fram, get ég sagt það, að ef breytingar verða gerðar á frv., eins og það kom frá hv. Nd., þá mun ég geta fylgt till. á þskj. 753 um kennslupresta og einnig till. á þskj. 748 frá hv. 2. þm. S-M. (VH). Ég mun ef til vill einnig geta fylgt till. á þskj. 755, þ. e. a. s. fyrri lið. — Annars vil ég segja um þetta mál, að það hefði verið langæskilegast að fella allar brtt. við þetta frv. hér í hv. Ed. og samþ. það eins og það kom frá Nd. En ef eitthvað af brtt. verður samþ. við frv. hér nú, mun ég aðeins fylgja þeim, sem ég er sannfærður um, að setji málið ekki í neina hættu.