23.01.1952
Efri deild: 69. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1384 í B-deild Alþingistíðinda. (2312)

109. mál, skipun prestakalla

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Eins og nál. meiri hl. menntmn. ber með sér, þá hefur hann fylgt fordæmi okkar ágæta kirkjumrh. (HermJ). Mér hefur yfirleitt fundizt hann vilja spara sem mest og fækka embættum eins og hægt væri, og í þessari sparnaðarviðleitni hans höfum við í meiri hl. fylgt honum eftir föngum. En satt að segja finnst mér forusta hans nú vera að bila, er hann vill taka Mjóafjörð upp á ný, en hæstv. kirkjumrh. hefur tjáð sig fylgjandi því. Mér skilst, að hann hafi upphaflega fylgt Mjóafirði og vilji nú ekki falla frá þeirri skoðun sinni, og er það ekki nema mannlegt að vilja fylgja sannfæringu sinni.

Út af því, að farið er að tala um sparnað í sambandi við þetta mál, þá vil ég lýsa þeirri skoðun minni, að ég vil ekki fjölga prestum umfram það, sem nauðsynlegt er, til þess að guðs kristni biði ekki tjón. En eins og málið lá fyrir í gærkvöld, virðist vera óhjákvæmilegt að byggja 2 eða 3 ný prestssetur í prestaköllum, sem við hér í þessari d. vorum búnir að fella út. Til þess að þetta hafi sem minnstan kostnað í för með sér, hefur verið lagt til, að þessum nýju prestum verði gert að skyldu að annast einnig kennslustörf. Án þess að leggja hv. 1. þm. N-M. það nokkuð til lasts, þá held ég, að hann hafi haft slæmar draumfarir í nótt, þegar hann álítur það nú ógerning fyrir prestinn á Staðarhrauni að annast kennslu á Varmalandi. Hæstv. kirkjumrh. tók hér áðan sem dæmi prestinn á Prestsbakka, sem kenndi mörg ár við Reykjaskóla. Ég skal taka annað dæmi enn nærtækara. Annar presturinn í Mýraprófastsdæmi hefur undanfarna einn eða tvo vetur stundað kennslu við unglingaskólann á Akranesi. (Dómsmrh.: Hann fékk annan til þess að gegna embættinu fyrir sig.) Svo er það hinn presturinn í þessu prófastsdæmi. Hann hefur fengið leyfi til utanfarar, og mér er ekki kunnugt, að neinn hafi verið settur í staðinn fyrir hann. Ég get því ekki annað séð en presturinn á Staðarhrauni geti vel annazt þessa kennslu, þegar ágætur bílvegur er nú kominn þarna á milli. Hann getur húsvitjað í jólafríinu og messað á sunnudögum. Mér finnst hv. 1. þm. N-M. oft hafa verið rökvísari í sínum málflutningi en nú, þegar hann heldur því fram, að þetta sé ómögulegt.

Viðvíkjandi því, að búið er að ákveða með þessu frv., eins og það nú liggur fyrir, að þessir kennsluprestar afli sér einnig kennaramenntunar, þá vildi ég segja það, að mín skoðun er sú sama og áður, að ég vil alls ekki ganga miklu lengra í því en milliþn. gerði. Ég tel illa nauðsyn að þurfa að falla frá þeim breytingum, sem við vorum búnir að gera á frv. hér í þessari d., og hef ég ekki enn tekið fullnaðarákvörðun um, hvernig ég haga atkvæði mínu um þær brtt., sem fram hafa komið. Ég vil geta þess, að mér líkar að mörgu leyti vel till. hv. þm. Barð. um Þingvallaprest og betur en áður um val hans, en ég vil beina athygli manna að einu, sem varla hefur átt sér stað annars staðar, að þarna er flokkur manna sviptur kosningarrétti, sóknarmenn í tveimur sóknum á landinu, sem verða víst þeir einu á Íslandi, sem hafa ekki rétt til að velja sér prest sjálfir. Þetta er til íhugunar, og það hefði verið dálítið leiðinlegt að þurfa að gera þetta þannig, að þeir væru ekki að spurðir, sérstaklega gagnvart Úlfljótsvatnssóknarmönnum, sem hafa ekki einu sinni útsvarið hans, því að það hefur mikið að segja um það að sleppa prestinum, að hann hefur goldið útsvar í þeirri sókn, þar sem hann situr sjálfur. — En ég vildi gera grein fyrir þessu, að við höfum leitazt við að fá samkomulag um þetta, til þess að hægt sé að leysa málið á viðunandi hátt, en það hefur alls ekki fengizt, enda vil ég segja það, að ef hér kæmi fram till. nú svipuð því, sem hv. þm. Barð. bar fram hér í d., þegar málið var til fyrri umr., að senda það aftur frá sér, þá mundi ég fylgja henni. Hér var að núa okkur því um nasir einn hv. dm., að við vildum ekki geyma þetta mál vegna kosninga. En það þýðir ekki að geyma þetta frv. eins og það nú er orðið, það er engum til ánægju. Þetta hefur verið heldur vansmiðabarn, þó að margir væru um það í byrjun, og því hefur ekki farið fram við uppeldið, sem það hefur fengið hér á hæstv. Alþ.