23.01.1952
Efri deild: 69. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1388 í B-deild Alþingistíðinda. (2315)

109. mál, skipun prestakalla

Frsm. meiri hl. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Það er aðeins til að gera grein fyrir tveimur skriflegum brtt.Till. hv. 2. þm. S-M. hefur þá afleiðingu, ef hún er samþ., að ákveðið verður að láta prest í Mjóafjörð. Eins og ég hef áður tekið fram, þá er þar enginn staður til, sem ríkið hefur ráð á til að byggja hús á, og enginn staður nú til að hafa heimili, en ef Alþ. byggir, þá er ekkert við því að segja, en verði þessi till. samþ., þá er enginn vafi, að þarna verður kennsluprestur, eins og mþn. lagði til. Þess vegna er mín skriflega brtt. ekki í öðru fólgin en að bæta inn í 6. gr., að Mjóafjarðarprestur skuli vera kennsluprestur, og ef svo fer, að sú till. verður felld að taka upp prest í Mjóafirði, þá tek ég mína till. aftur, en ef sú till. er samþ., þá vænti ég þess, að hv. d. láti prestinn í Mjóafirði vera kennsluprest, því að það er þó lítill vegur, að hann hafi dálítið að gera með því, en enginn með hinu.

Hin brtt. mín er í því fólgin að taka burt úr till. ráðherranna Staðarhraun. Ég benti á það áðan, að ég teldi það koma úr hörðustu átt, ef Alþingi Íslendinga ætti með l. að fara að rifta því samkomulagi, sem nú er í Mýrasýslu um að byggja heimavistarbarnaskóla fyrir alla sýsluna, sem ég tel til fyrirmyndar fyrir allt landið. Það er fyrsti stóri, góði barnaskólinn, sem byggður er þannig; annars hefur hver hreppur otað fram sinum skóla, sem hefur gert þá margfalt dýrari, síðan sitja kannske í skóla, sem kostar fleiri hundruð þúsund krónur að byggja, 12 krakkar. Þegar Mýrasýslumenn hafa sýnt það framtak að sameinast um þetta og gera gott og mikið átak og byggja upp þennan skóla við heita laug, þá á Alþ. ekki að koma og freista eins hrepps, svo að hann geti ekki staðist það, því að það skilur og veit, hvernig málið horfir við, þar sem hrepparnir taka þátt sameiginlega í kostnaði við þennan skóla. Og nú er komin till. um það að setja prest á Staðarhraun, sem sé kennsluprestur, og hæstv. kirkjumrh. telur, að hann geti vel setið uppi á Varmalandi; hann ætlar honum að sitja lengra frá sókn sinni en nokkrum presti í landinu er ætlað að fara á sína annexíu. Það sér hver maður, að ef hann á að rækja prestsstarfið og söfnuðinn, þá getur hann ekki setið þarna; ef hins vegar er viðurkennt, að það sé engin þörf á honum, þá er sama, hvar hann situr. Ef hann getur þjónað Staðarhraunsprestakalli á Varmalandi, þá má fækka prestum í landinu um helming upp á það, að þá hafa þeir ekki lengra á annexíu að fara. Svo er ekki þar með búið. Í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að þeir prestar, sem eru kennsluprestar, hafi einum launaflokki hærri laun en aðrir prestar. Nú er það svo, að hrepparnir borga hluta af launum barnakennara; í þessu tilfelli verður sá hluti miklum mun lægri en annars staðar. Nú eiga þeir í Hraunhreppi að velja um það að rifta þeirri samþykkt, sem þeir eru búnir að gera, að sameina sýsluna um að stofna skóla og greiða árlega til skólans, eða hafa kennsluprest á Staðarhrauni og komast af með sama sem ekkert skólagjald handa sínum börnum. Ég þekki marga þessa menn, en ég þekki þá ekki svo vel, að ég viti, hvort þeir standast freistinguna að spara nokkrar þúsundir með því að taka kennsluprestinn, þegar búið er að setja þá í þessa aðstöðu, og svíkja samkomulagið, sem búið er að gera um skólastofnunina. Ég trúi því ekki, að hæstv. ráðherrar vilji setja þá í þessa aðstöðu. Ég skal viðurkenna, að þegar þessu var slegið fram í gærkvöld, þá var ég ekki búinn að átta mig á þessu, en þetta er sannleikurinn í málinu. Það er verið, með því að gera þetta, að mynda beina tilraun til þess að láta Hraunhrepp skerast úr samkomulaginn, sem búið er að gera um stofnun skólans og ég tel að öllu leyti þarft og gott og til eftirbreytni. Þess vegna er ég með þá brtt. við brtt. ráðherranna, að ef það fer svo, að till. okkar fjórmenninganna í n. á þskj. 741, um það að taka Staðarhraun út, verður felld, svoleiðis að Staðarhraun standi áfram sem prestssetur, þá er mín till. um það, að á Staðarhrauni verði prestur og prestssetur, en það á ekki að verða þess valdandi, að það sé hætta á, að þessi hreppur fari að klofna úr samkomulaginu, sem hrepparnir í sýslunni hafa gert um skólann, og ég skal lýsa því yfir, að ef meiri hl. hér í d. verður með því að láta prestinn sitja áfram á Staðarhrauni, þá skal ég sætta mig betur við það, að hann sitji þar, og sitji eins og presturinn hefur gert, messi 5–6 sinnum á ári, heldur en hann fari að sitja uppi í Stafholtstungum og ætla honum að þjóna úti á Staðarhrauni. — Það var verið að nefna dæmi um prest í Stafholtstungum, sem kenndi á Akranesi. Það er ekki til fyrirmyndar, þegar verið er að nefna dæmi um presta, sem eru prestar þarna og þarna og sitja annars staðar. Eitt af því, sem sýnir okkur, hvað fækka má prestum, er það, þegar t. d. prestarnir á Fljótsdalshéraði allir nema einn eru í Reykjavík tvo vetur í röð, og enginn virðist hafa út á það að setja. Þetta sýnir, hver áhugi er fyrir prestakallinu og hvað mikið má fækka prestum. Þegar prestur tekur að sér að kenna langt frá sínu prestsembætti og kemur einstaka sinnum í sóknina, þá vil ég ekki hafa slíkan prest. Ég er á móti þessari stefnu og víti hana. Ég vil hafa prestinn til að vera prest, og ég vil að hann hafi svo mikið að gera, að hann geti ekki bætt við sig kennslu, en ég vil ekki láta Alþ. ganga á undan og styðja að því, að rofið verði það samkomulag, sem er um barnaskólabygginguna á Varmalandi. Þess vegna vil ég heldur prest að Staðarhrauni, þó að hann geri ekkert nema að sjá um eðlilegan þroska 126 eða 130 sálna, en að setja hann í Stafholtstungur til að kenna þar krökkum.