23.01.1952
Efri deild: 69. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1390 í B-deild Alþingistíðinda. (2316)

109. mál, skipun prestakalla

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Það hafa komið fram margir einkennilegir hlutir í þessu máli hér á hv. Alþ., enda bjóst ég við, að svo mundi verða, þegar málið var lagt fram.

Ég vildi aðeins segja örfá orð um röksemdafærslu hv. 1. þm. N-M. um að fella Staðarhraun niður sem kennsluprestakall. Rökin eru notuð á víxl í þessu máli, eftir því sem mönnum hentar. Hv. þm. segir, að það veiti ekki af prestinum, en upplýsir um leið, að í prestakallinu séu 126 sálir og presturinn muni messa 5–6 sinnum á ári. Og þó má ekki nota hann fyrir kennsluprest. Sannleikurinn er sá, að ef hann verður ekki kennsluprestur, þá kennir hann í skólanum þrátt fyrir það.

Það er rétt, sem hv. 1. þm. N-M. sagði, að erfitt er að byggja yfir prestana í sveitum landsins, og er því fremur ástæða til, að þessi prestur verði kennsluprestur og búi í skólanum. Sveitin er ein snjólausasta sveit í landinu, og það eiga að vera einhver ósköp fyrir prestinn að skreppa þarna niður eftir. Eftir þeim rökum, sem áður voru notuð, var ekkert á móti þessu, enda kirkja ekki sótt, nema þegar greiðfært er. Þá er því haldið fram, að presturinn geti ekki húsvitjað, en það ætti að vera hægt að gera það hjá þessum 126 sálum á öðrum tímum en hann kennir.

Ég veit ekki, hvort hv. þm. hefur athugað það, að þau rök, sem hann hefur komið með, eru rök gegn öllum kennsluprestum. Hann sagði, að Mýrasýsla væri þarna til fyrirmyndar, en ef þetta er til fyrirmyndar í þessari sýslu, þá er það einnig til fyrirmyndar annars staðar á landinu. Eigi að fella niður kennsluskyldu þar, er því eðlilegast að gera það alls staðar.

Það sjá vitanlega allir, að þar sem fólk vill hafa prest og eru ekki nema 126 sálir, er ekki hægt fyrir þjóðfélagið að hafa prest, nema kennsluskylda sé jafnhliða prestsþjónustunni.

Svo var það út af því, sem hv. 11. landsk. þm. sagði. Það var vitanlega vísdómslegt, eins og vænta mátti. Hann var að gefa mér pillur og sagði, að forusta mín í þessu máli væri nú að bila. Frv. er samið af n., sem m. a. áttu sæti í biskupsritari, skrifstofustjóri í stjórnarráðinn og landnámsstjóri. Í fyrra, þegar ósk kom fram um það, að málinu yrði frestað, bjóst ég ekki við að koma því í gegn, nema færustu menn væru fengnir til þess að kryfja það til mergjar. Ég bjóst við því, að það yrði um þetta mál eins og vegalögin, þar sem í báðum tilfellum er um hagsmunamál kjördæmanna að ræða, enda hefur raunin orðið sú, og augljóst er, að málið verður ekki afgr., nema reynt sé að ná samkomulagi. Betri skipun þessara mála er nauðsynleg, því að það er óþolandi, að margar beztu jarðir landsins liggi í vanhirðu, vegna þess að ekki er hægt að leigja þær nema eitt ár í senn, og enginn vill því gera þeim neitt til góða. Ég gæti talið fjölda slíkra jarða. (PZ: Og þó nokkrar, sem prestar sitja á.) Það er dómur þessa hv. þm., og skal ég ekki dæma um það.

Ég hef alltaf verið fylgjandi því að samþ. frv. eins og það kom frá mþn., — þó að ég teldi það talsverða ofrausn, — af því að n. sýndi nokkra sanngirni. Verði hins vegar samkomulag um það, að Mjóifjörður og Selfoss falli niður og að fjölgunin nemi því ekki nema tveimur prestum, sem jafnhliða prestsþjónustunni gegna kennarastörfum, hygg ég, að ekki verði komizt nær því, sem maður hefði óskað í þessu máli. Ég vil benda hv. þm. Barð. og öllum þm. á það, að það er engin lausn á málinu að fresta því nú. Þó að því verði frestað til 1955 eða 1960, verða um það sömu deilur og í dag.

Ég álít því, að við komumst ekki nær samkomulagi en þetta, og er ég sammála hv. 11. landsk. þm. um það. Ég hefði kosið, að þrjú prestaköll hefðu verið felld burt, en sætti mig við, úr því sem komið er, að þau verði gerð að kennsluprestaköllum.