24.01.1952
Neðri deild: 70. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1396 í B-deild Alþingistíðinda. (2324)

109. mál, skipun prestakalla

Andrés Eyjólfsson:

Herra forseti. Ég er nú svo lánsamur, að hæstv. kirkjumrh. er búinn að svara ræðu minni fyrir fram og þá sjálfsagt líka búinn að rífa hana niður, áður en ég flyt hana. — Þrátt fyrir það, að búið er að rífa ræðu mína niður fyrir fram, er það ein breyting, sem gerð var á frv. í hv. Ed., sem ég vildi minnast á. Það er sú breyting, að Staðarhraun hefur verið gert að kennsluprestakalli. Ég vil þegar geta þess, að ég er einn af þeim mörgu, sem vilja, að málið nái fram að ganga á þessu þingi. Hefði ég látið við svo búið sitja sem frv. kom frá Ed., ef ekki hefði staðið alveg sérstaklega á í minni sýslu. Eins og hæstv. kirkjumrh. gat um, þá er búið að ákveða skólabyggingu handa sýslunni. Eru það sjö hreppar, sem að þessari skólabyggingu standa, og þar á meðal Staðarhraunssókn. Er hægt að segja, að með þessu sé verið að gefa einum eða jafnvel tveimur hreppum ástæðu til að kljúfa þessa einingu. Það er þessi hætta, sem fyrir mér vakir, þegar ég vil ekki gera Staðarhraun að kennsluprestakalli. Einnig er það mjög óheppileg ráðstöfun, þar sem þetta prestssetur er úti á enda sýslunnar, og þess vegna hefur enginn prestur sýslunnar óhægari aðstæður til að vera þarna kennari jafnframt því, sem hann þjónar í sinni sókn. Búið er að leggja grunninn að barnaskólanum, og má vænta þess, að honum verði fullkomlega lokið og hann geti tekið til starfa haustið 1953. Ég hef því ákveðið að leyfa mér að bera fram skriflega brtt. um, að Staðarhraun falli burt úr 6. gr. — Um þá andlegu strauma, sem hæstv. kirkjumrh. talaði um, skal ég segja það, að það er reyndar satt, að þarna er kvennaskóli rétt við hliðina, og gæti prestinum þótt það þægilegra og skemmtilegra, einkum ef hann er ungur og ógiftur. — Mér þykir þetta svo klúðurslegt, að þótt það verði samþ. óbreytt, held ég, að það nái aldrei fram að ganga. Er svo með fleiri af þessum ákvæðum um kennslupresta.

Eitt annað vildi ég benda á, sem snýr að skólamálunum. Það getur verið illt og leiðinlegt fyrir sýsluna, þegar hún er búin að koma sér upp góðum barnaskóla og vill fá til hans góða kennara, að þá fær skólanefndin engu um ráðið, hvers konar maður er ráðinn. Og ef ákveðinn kennari er kominn að skólanum, verður skólinn að sitja uppi með hann, hvort sem hann er fær um að kenna eða ekki.

Ég ætla ekki að þreyta hv. þdm. með því að orðlengja þetta, þeir skilja allir, hvað hér er á ferðinni. Leyfi ég mér hér með að afhenda hæstv. forseta þessa skriflegu brtt.