24.01.1952
Neðri deild: 70. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1397 í B-deild Alþingistíðinda. (2327)

109. mál, skipun prestakalla

Frsm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. Ed. hefur gert þær breytingar á frv., síðan það fór héðan, að hún hefur gert Staðarhraunsprest að kennslupresti, lagt Selfossprestssetur niður og fellt niður ákvæðið um umferðarpresta. Þó að ég telji, að sumar breytingarnar hafi verið til hins verra, vil ég, að það komi skýrt fram, að Ed. hefur komið langt til móts við Nd., þótt mikið hafi borið á milli. Er sannarlega vert að þakka það.

Nú er frv. þannig, að heildartala prestanna er sú sama og hún var í upphafi. Selfoss og Mjóifjörður hafa verið felldir niður og sömuleiðis ákvæði um tvo aðstoðarpresta. Þannig hafa verið felldir niður fjórir prestar, sem voru í till. milliþn., en fjögur ný prestssetur hafa verið tekin upp, þ. e. a. s. Staðarhraun, Breiðabólstaður, Tjörn og Stóri-Núpur.

Mín skoðun er sú, að eftir atvikum sé afgreiðsla málsins frá Ed. viðunandi, og legg ég til, að d. hrófli ekki við frv., en samþykki það óbreytt, enda er tvísýnt, að það nái fram að ganga, ef því verður breytt hér. Þessa till. geri ég fyrir hönd a. m. k. 4 nm. í menntmn. Nd.