24.01.1952
Neðri deild: 70. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1398 í B-deild Alþingistíðinda. (2329)

109. mál, skipun prestakalla

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja umr. um þetta mál mikið. Það er gott að vera sáttfús og tilhliðrunarsamur, en mér fannst það sæta furðu, þegar hv. form. menntmn. gaf þá yfirlýsingu, að samþykkt þessara brtt. mundi geta kostað það, að málið næði ekki fram að ganga nú. Ég held, að þeirra hluta vegna þurfi ekki að óttast það, að slíkar breyt. yrðu til þess, að málið stöðvaðist nú.

Ég vil svo segja það út af því, sem hæstv. kirkjumrh. sagði, að mér finnst, að hann þurfi ekkert að undrast það, þótt ég gerði fyrir mitt hérað tilkall til þess, að svipaður grundvöllur verði látinn ráða þar og annars staðar um mannfjölda og prestaköll. Málið er bæði flutt og byggt upp hér á Alþ., og með tilliti til þeirrar skipunar er ekki nema eðlilegt, að ég haldi mig við mitt hérað. Og mér finnst, að um tölu sóknarbarna eigi ekki að gilda aðrar reglur þar en annars staðar. Milliþn. sú, sem undirbjó málið, segir hér í sinni greinargerð, að fólkið á Selfossi sé nú komið á annað þúsund, kauptúnið sé í örum vexti og mikill áhugi ríki þar á því, að það verði sérstakt prestakall. (Landbrh.: Hvað er langt þaðan upp að Hraungerði?) Ég ætla, að það sé eitthvað um 15 km. En að sjálfsögðu geta vegalengdirnar einar út af fyrir sig ekki ráðið úrslitum í þessu efni. — Ég ætla svo ekki að fjölyrða um þetta mál frekar, en ég vænti þess, að hv. alþm. láti réttlætið eitt ráða afstöðu sinni í þessum efnum.