22.10.1951
Efri deild: 18. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í C-deild Alþingistíðinda. (2343)

70. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Gísli Jónsson):

Eins og hv. þdm. er kunnugt, hefur svo að segja á hverju þingi verið borin fram brtt. við skattalöggjöfina. Út af þessu hefur verið borin fram áskorun til ríkisstj. að láta fara fram gagngerða athugun á skattalöggjöfinni, án þess þó að slík áskorun hafi borið nokkurn jákvæðan árangur enn sem komið er. Á þessu þingi, sem nú stendur yfir, hafa einnig verið borin fram tvö frv. um breyt. á skattalöggjöfinni fyrir utan það frv., sem hér um ræðir á þskj. 96, þar sem lagt er til, að skattalöggjöfin verði afnumin.

Þetta sýnir allt, hversu óviðeigandi er að hafa skattalögin eins og þau eru og hversu nauðsynlegt er annaðhvort að afnema l. eða að fá á þeim gagngerðar breyt., því að sjálfsögðu væru þm. ekki að bera fram slíkar breyt. árlega, ef ekki væri knýjandi þörf fyrir breyt. Á síðasta þingi var eitt slíkt frv. borið fram af hv. 8. þm. Reykv., þingmál nr. 38, og þegar það var til athugunar í fjhn. þessarar d., bar ég fram brtt. við það, þess efnis að afnema að fullu og öllu l. um tekju- og eignarskatt og láta þau falla úr gildi í árslok yfirstandandi árs. Ég gerði þá allýtarlega grein fyrir málinu í löngu nál. og færði fram mörg og ýtarleg rök fyrir því, að þessa löggjöf bæri að fella niður. Þegar málið var til umr. í þessari d., þótti það vera svo viðurhlutamikið, að e. t. v. væri ekki þinglegt að ræða það sem brtt., en hefði verið heppilegra að bera það fram sem sérstakt frv. Þó að forseti féllist ekki á þann skilning, fór svo, að tillagan var felld. Kann þetta form málsins að hafa haft einhver áhrif á atkvgr. Mér þótti því rétt að bera málið nú fram á ný í frv.-formi, eins og það er á þskj. 96. Einkum og sér í lagi hef ég gert þetta vegna þess, að síðan í fyrra hef ég átt tal við fjölmarga menn í landinu af öllum stéttum, sem töldu, að um svo merkilegt mál væri að ræða, að engan veginn væri sómi fyrir þingið að afgr. það á þann hátt, sem gert var. Það hefði átt að fá betri og meiri athugun á síðasta þingi.

Ég get að mjög miklu leyti látið nægja að vísa til nál., sem gefið var út í fyrra á þskj. 318 og dags. er 9. des. s. l. Í því eru dregin fram sterk rök fyrir því, að eðlilegt og sjálfsagt sé að afnema l. Samt vil ég fara nokkrum orðum um frv. við þessa 1. umr. Skal ég þá draga fram meginástæður fyrir því, að rétt sé að afnema þessi l. Í fyrsta lagi: Engin l. eru brotin á svipaðan hátt og þessi l., og líklegt er, að á flestum öðrum lagabrotum sé tekið fastari tökum. Mönnum er ljóst nú orðið, að ákaflega stór hópur manna í landinu annaðhvort sniðgengur l. eða brýtur þau til þess að komast undan ákvæðum þeirra og það án þess að beitt sé viðurlögum þeirra. Liggur í þessu nokkurs konar viðurkenning frá ríkisvaldinu um það, að lagafyrirmælin séu ekki eðlileg og þess vegna sjái það í gegnum fingur. Kom þessi afstaða langskýrast fram í lagasetningunni um eignakönnun, þar sem ákveðið var, að fella skyldi niður sektir fyrir brot á þessum l., ef menn vildu telja framvegis rétt fram. Þetta er svo mikið siðferðisatriði, að af þeim sökum ætti að afnema l., þó að ekki kæmi annað til greina. Ef haldið verður áfram á þessari braut, verður það algerlega óþolandi. Verður þá næsta krafa, að svo sé búið um hnúta, að hver maður, sem brýtur þessi l., sæti þeim viðurlögum, sem l. ákveða, og engum sé sleppt við hegningu. En sú stefna hefur ekki verið tekin upp, eins og þegar hefur verið bent á.

Önnur ástæðan er sú, að þessi l. eru sterkar hömlur á lífrænum atvinnurekstri í landinu og draga stórkostlega úr framleiðsluafköstum. Það hefur sýnt sig, að fjölmargir menn, sem reka atvinnu, hafa staðið í því árum saman að vinna fyrir 4 aðila: Í fyrsta lagi ríkissjóð, sem tekur meginhlutann af þeim arði, sem fæst. Í öðru lagi fyrir bæjarsjóð. Í þriðja lagi fyrir bankana með því að bera þunga byrði í vöxtum. Þá hafa þeir og unnið fyrir það fólk, sem hjá þeim er, en sjálfir hafa þeir áhættuna og sama sem engan arð, þegar öllum þessum greiðslukröfum er fullnægt. Afleiðingin hefur aftur orðið sú, að fleiri og fleiri einstaklingar hafa hætt við atvinnurekstur og bærinn eða hið opinbera hefur neyðzt til að taka á sig þennan atvinnurekstur til þess að halda uppi atvinnulífi í Landinu.

Þá hefur einnig sýnt sig, að tekjuhæstu menn í framleiðslunni, svo sem menn á togurum, hafa ekki viljað vinna fullt vinnuár, vegna þess að þá vinna þeir að langmestu leyti fyrir ríkissjóð. Er það kannske mannlegt að vilja ekki eyða svo og svo miklu af sínum tíma á hafinu til að slíta sér út fyrir næstum eintóma ríkissjóðsskatta. Þetta hefur gengið svo langt, að skipstjóra á togara, sem hefur háar tekjur eða um 300 þús. kr., þykir hagkvæmara að vinna ekki nema einn þriðja úr árinu og hafa hægt hinn tímann. Þarf þá í raun og veru þrjá menn í staðinn fyrir einn í það sæti.

Nú er svo komið, að gerðar hafa verið ýmsar breyt. á tekjuskattsstiganum. Sumpart hafa verið reiknaðar um lágtekjurnar til þess að fylgja ekki skattstiganum. Auk þess er hætt að reikna tekjurnar um á vissu stigi, sem er ranglátt. Það hefði átt að gera það jafnt um allan tekjustigann. Er þetta því í framkvæmd ranglátara heldur en áður var. Þar að auki hefur verið reynt að fá breytt persónufrádrættinum, og þingmál nr. 26 er um það, þar er gerð till. um hækkaðan persónufrádrátt. Það er fyrir þessa röskun á skattstiganum, að þetta er borið fram. Þá er lagt fram frv. um, að hjón skuli telja fram hvort í sínu lagi, sem er gert til þess, að skatturinn verði lægri. M. ö. o., allar þessar till. eru í þá átt að létta skattabyrðina, að vísu ekki í heild, heldur fyrir einstaka aðila. Háværar kröfur hafa komið til ríkisstj. um að láta endurskoða skattalögin, bæði sökum þess, að vegna breyt. á verðgildi peninganna verkar skattstiginn öðruvísi, og af því, að þótt hefur ástæða til að hækka persónufrádráttinn.

Enn ein ástæðan fyrir að nema skattal. úr gildi er sú, að lögin kosta ríkissjóð of fjár í innheimtu og eftirliti. Ég sýndi fram á með rökum í nál. í fyrra, að kostnaður við álagningu og innheimtu skattsins og eftirlit mundi hafa verið á 7. milljón. Og ég geri ráð fyrir, að árið 1951 verði þessi kostnaður hækkaður eins og allur annar kostnaður í sambandi við opinberan rekstur. Það, að enn þá skuli vera haldið þeirri reglu að reikna út skattgreiðslurnar í mörgum pörtum, — í tekju- og eignarskatti, tekjuskattsviðauka og stríðsgróðaskatti og hvað það nú heitir allt, auk tekju- og eignarskattsins venjulega, í stað þess að hafa þetta í einni upphæð, — veldur mikilli tímaeyðslu, sem verður af þessum ástæðum. Kostar það ríkissjóð mikið fé að hafa þetta kerfi í þessu efni.

Enn ein ástæðan fyrir niðurfellingu þessara laga er sú, að tekjuskattsl., eins og þau nú eru, ganga svo nærri tekjustofnum sveitar- og bæjarsjóða, að veruleg hætta stafar af. Það er komið svo, að fulltrúar frá sveitar- og bæjarfélögunum hafa séð sig knúða til þess að stofna til fundar hér í Rvík til þess að mótmæla því, að ríkissjóður gangi svo nærri þeirra tekjustofnum, að sveitarfélögin hafa næstum ekki neitt til þess að standa undir nauðsynlegum útgjöldum. Það má segja, að þetta sé að einhverju leyti kannske gert til þess að reyna að láta líta svo út, að þeir þurfi meira fé, og það sé kannske ekki rétt að taka það eins alvarlega og útlit er fyrir, að þessir fulltrúar komna hér saman. En skýrasta sönnunin fyrir því, að þetta sé ekki þannig, heldur sé hér einmitt brýn nauðsyn á ferðinni, er það, að fyrir Alþingi eða fjvn. liggur skrá yfir þær ábyrgðir, sem ríkissjóður hefur orðið að greiða fyrir sveitarfélögin, og er það hvorki meira né minna en 8 millj. kr., sem ríkissjóður beint hefur orðið að taka á sig að greiða, vegna þess að tekjustofnar sveitarfélaganna hafa brugðizt, fyrst og fremst vegna þess, hve ríkissjóður hefur gengið nærri tekjustofnum í landinu almennt, þ. e. a. s. tekið of mikið fé af skattþegnunum. Á fjárlagafrv. fyrir árið 1952 er gert ráð fyrir 7 millj. kr. til þessara gjalda. Kemur þetta til viðbótar þeim 5,5 millj. kr., sem áætlaðar voru fyrir árið 1951, svo að hér er hvorki meira né minna en um 20 millj. kr., sem komnar eru og greiða þarf úr ríkissjóði til þess að standa undir greiðslum á skuldum, sem ríkið er í ábyrgð fyrir, en sveitarsjóðirnir eiga í raun og veru að greiða. Þetta er svo alvarlegt mál, að þótt ekki væri annað en þetta, þá ætti að nema úr gildi skattalögin fyrir það eitt.

Það er eðlilegt, að ég verði spurður að því, hvað ætti að koma á móti, ef tekinn væri í burtu þessi tekjustofn, sem ætlað er að gefi 42,5 millj. kr. á næsta ári. Því er nú að svara í fyrsta lagi, að það er mín skoðun, eins og ég lýsti áður, að af þessari upphæð komi mjög mikið til baka í beinum sparnaði í sambandi við álagningu og innheimtu skattsins og eftirlit með þessu, þannig að það sé hægt að fækka mjög fólki, sem starfar við þetta hér, það færi til starfa við framleiðsluna og þarna spöruðust miklar upphæðir. Í öðru lagi er mín skoðun sú, að niðurfelling þessara laga mundi hleypa svo miklu meira lífi í atvinnuvegina, að sú aukning framleiðslunnar gæfi ríkissjóði hærri upphæð en það, sem hann tapar við niðurfellingu þessara tekjustofna, í tollum og leyfisgjöldum, miðað við, að engu væri raskað í sambandi við tollalöggjöfina. Ég byggi þetta álit mitt á því, að þegar verzlunarhöftin voru leyst í verulegum mæli á þessu ári, þá sýndi sig, að nýr vöxtur hljóp í verzlunina, sem aftur gaf ríkissjóði stórkostlegar tekjur, miðað við það, sem áður hafði verið. svo að nemur líklega um 100 millj. kr. á þessu ári, og afnám þessara laga mundi vafalaust hafa sömu verkanir. Menn mundu hugsa um að setja af stað nýjar athafnir í atvinnulífinu og finna nýja framleiðslumöguleika, eins og sýndi sig á tímabilinu 1933–35, þegar atvinnulífið var hér komið í kaldakol, því að þá var sett sú löggjöf, að ef menn byrjuðu á nýjum fyrirtækjum, skyldu þau vera skattfrjáls í 5 ár. Þá risu upp fjöldamörg fyrirtæki, vegna þess að athafnamennirnir vissu, að meðan fyrirtækin væru að koma fyrir sig fótunum, yrði þeirra ágóði skattfrjáls. Að vísu eru þetta ágizkanir hjá mér, sem ég hygg að muni þó standast, að allur þessi hluti af tekjum ríkissjóðs komi til baka. En ég hef þá trú og hef nokkuð fyrir mér í því, að þegar lagður væri saman sá hlutur, sem kæmi í ríkissjóð í auknum tollum og leyfisgjöldum, og hinn, sem sparast með minni vinnu við innheimtu og eftirlit í sambandi við skattinn, eins og þetta er nú, þá yrði mjótt á mununum fyrir ríkissjóð.

Af öllum þeim ástæðum, sem ég hef hér borið fram, tel ég, að þetta mál sé þannig, að það beri að rannsaka mjög gaumgæfilega. Ég geri ráð fyrir, að að lokinni þessari umræðu verði frv. sent til hv. fjhn. og n. sendi það til umsagnar ýmissa aðila í landinu og fái um það álit þeirra. Og ég geri ráð fyrir, að fyrst og fremst komi fram í þeim álitum það, sem styður það, sem ég flyt hér, að tekju- og eignarskattsl. verði afnumin.