22.10.1951
Efri deild: 18. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í C-deild Alþingistíðinda. (2344)

70. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hv. þm. Barð. flutti þetta mál inn í þingið í fyrra í brtt.-formi við annað mál, að lagður skyldi niður tekju- og eignarskattur og tekjuskattsviðauki með tekjuáætlun upp á um 35 millj. kr., eins og þá var. Nú hefur hv. þm. Barð. tekið þráðinn upp að nýju og flytur nú þessa hugmynd sína í frv.-formi, og er það þinglega séð náttúrlega miklu nær af honum að gera það í því formi. Hins vegar býst ég við, að sá ágreiningur, sem var um efnislegu hlið málsins í fyrra, blasi eins við mönnum nú og að þeir, sem þá voru andvígir því efnislega, að þessi lagabreyt. væri gerð, að fella tekju- og eignarskattslögin með öllu niður, séu því enn þá andvígir. Þannig er það með mig og minn flokk, að hann mun vera andvígur því, að slíkt spor verði stigið á löggjafarsviðinu að hætta með öllu að innheimta í ríkissjóð beina skatta, hætta við að innheimta tekju- og eignarskatt.

Það mun vera fátítt í veröldinni, ef það er nokkurs staðar þekkt nema hér, að langmestur hluti tekna ríkissjóðs sé innheimtur með óbeinum sköttum. Hér eru þó um 40 millj. kr. innheimtar með beinum sköttum, en yfir 200 millj. kr. með óbeinum sköttum.

Ég er þeirrar skoðunar, að það sé eðlilegt og sanngjarnt, að allverulegur hluti af ríkistekjunum sé innheimtur með stighækkandi beinum sköttum, sem leggist létt á lágar tekjur og litlar eignir, en fari stighækkandi eftir því, sem tekjurnar hækka og eignirnar aukast. Að þessu leyti tel ég að engir tekjustofnar ríkisins séu eins réttlátir og skattarnir, sem hér er lagt til að verði afnumdir. Ég hefði því talið það spor í réttlætisátt, að fram hefði komið till. um hækkun á tekju- og eignarskatti og þó sérstaklega till. um að fyrirbyggja hin mjög umtöluðu skattsvik, sem eiga sér stað í þjóðfélaginu.

Ég er ekki sammála hv. flm. um það, að eignarkönnunarl., sem voru í raun og veru fyrirgefning á skattsvikunum á mörgum undanförnum árum, hafi verið fyrst og fremst viðurkenning ríkisvaldsins á því, að þessir skattar væru ranglátir, sem þarna átti að innheimta í raun og veru samkvæmt gömlu l. vegna skattsvika á löngu tímabili áður. Ég er ekki sammála hv. flm. um, að niðurfelling á þessari innheimtu hafi verið viðurkenning af ríkisins hendi á því, að tekju- og eignarskattsl. væru ranglát. Ég hygg, að þegar átti að framkvæma það að innheimta svona upphæðir í einu lagi, þá hafi mönnum sýnzt þetta lítt gerlegt og að það hafi ekki verið annað, sem meðferð þess máls sýndi þá. Hins vegar sýndi sig annað. Hv. þm. talaði um, að undir núverandi skattafyrirkomulagi ynnu menn fyrir ríkissjóð og bæjarsjóði, en ekki fyrir sjálfa sig, það væri þjóðfélagsins þjónusta, sem menn ynnu að verulega miklu leyti vegna skattinnheimtunnar, eins og hún er nú. En eignakönnunarl. og framkvæmd þeirra sýndi, að þeir höfðu unnið meira fyrir sjálfa sig og atvinnulífið í landinu en þeir höfðu viljað vera láta áður. Þeir höfðu eignazt meira en þeir höfðu gefið upp.

Hv. þm. Barð. sagði, að fyrstu rök sín fyrir að fella niður þessa löggjöf væru, að engin lög séu eins brotin og þessi. Þá virðist önnur lækning liggja nær, sú að leggja meiri áherzlu á að fyrirbyggja, að lögin séu brotin, því að það er vitanlega leiðin til þess, að þau nái tilgangi sínum.

Hv. flm. málsins talaði um, að embættismenn ríkisins, sem ekki gætu komið við að skjóta undan skatti af sínum tekjum í framtölum, yrðu fyrir rangindum vegna framkvæmdar þessara laga, þar sem þeir yrðu að borga skattinn til fulls af sínum tekjum, en aðrir margir hverjir slyppu við það og gæti haldizt uppi að fremja skattsvik. Ég held, að embættismenn verði þarna í raun og veru ekki fyrir rangindum. Þeir borga keisaranum það, sem keisarans er, þ. e. skatta samkvæmt ákvæðum laga. En þeir eiga bara heimtingu á því, að það sé látið eitt yfir alla ganga um framkvæmd laganna. En þar þarf annaðhvort umbætur á löggjafarsviðinn eða framkvæmdarsviðinu eða báðum þeim sviðum, og það ætti að verða til þess, að létt yrði skattabyrðinni að einhverju leyti af embættismönnum ríkisins. Það er því fyrst og fremst það, sem ber að heimta í þessu máli, ekki afnám löggjafarinnar, heldur strangara eftirlit með, að l. sé framfylgt og skattsvik eigi sér ekki stað.

Önnur ástæðan, sem virðist marka sjónarmið hv. flm., er sú, að l. kosti ríkissjóð of fjár í framkvæmd. Nú spyr ég hv. flm.: Hvaða embætti eru það, sem hann telur, að geti fallið niður, ef tekju- og eignarskattsl. eru numin úr gildi? Það eru starfandi sýslumenn og bæjarfógetar, og ekki yrðu sýslumanna- og bæjarfógetaembættin lögð niður. Ég efast um, að fækkað yrði um einn einasta starfsmann hjá þessum embættismönnum, þó að þetta frv. væri samþ., og ég spyr: Ætlast hv. þm. Barð. til, að skattstjóraembættinu og því starfsfólki, sem vinnur á skattstofunni, yrði létt af fóðrum hjá ríkissjóði? Ég býst varla við, að það yrði gert. Því að eftir sem áður yrði að safna framtölum og skýrslum, sem þetta fólk vinnur úr vegna beinnar skattinnheimtu hjá bæjarfélögunum, sem hv. þm. leggur ekki til að verði felld niður. Ég held, að það hefði átt að vera till. hv. þm. Barð. líka að hætta innheimtu á útsvörum jafnhliða. Þá yrði virkilega hægt að fækka starfsfólki í sambandi við álagningu og innheimtu beinna skatta. En ef ríkið hætti að innheimta beina skatta, en sveitar- og bæjarfélögin halda því áfram, efast ég um, að sparist neitt verulega við það fyrir ríkið. Það væri e. t. v. sanni nær að leggja til, að útsvörum hjá sveitar- og bæjarfélögum og tekju- og eignarskatti hjá ríkinu yrði steypt saman í einn tekjustofn og það innheimt í einu lagi, sennilega þá þannig, að ríkið annaðist innheimtuna með innheimtuapparati því, sem ríkið hefur nú í fullum gangi til þess að innheimta sinn hluta af sköttum, og að bæjarfélögin og sveitarfélögin fái löghelgaðan sinn hlut af þessum skatti. Það gæti verið sparnaðarráðstöfun. Það mundi hjálpa líka upp á innheimtumöguleika á tekjustofnum sveitarfélaganna. Nú er það þannig, að ríkisinnheimtan gengur fyrir. Svo koma bæjarfélögin á eftir, og þá verða stórkostleg vanhöld á útsvörunum, þar sem ríkið er búið að fara með sina innheimtu á undan. Ég tel réttara, að allt verði innheimt í einu lagi og einmitt af sýslumönnum og bæjarfógetum, til þess á þann hátt að koma í veg fyrir of mikinn kostnað við innheimtu hjá ríkinu. Það væri hagræði fyrir sveitar- og bæjarfélögin.

Hv. flm. viðurkenndi, að með því að innheimta þessa beinu skatta í ríkissjóð, 42,5 millj., væri gengið af ríkinu of nærri tekjuöflunarmöguleikum sveitarfélaganna. Það má vera. En það eru ýmsar aðrar leiðir til þess að víkja ofur lítið til baka á þeirri braut, og till. um það hafa komið fram. Það væri kannske öllu fremur ráðlegt að fella eitthvað niður af hinum geysilega þungu óbeinu sköttum, sem ríkið innheimtir nú, t. d. söluskattinum. Söluskatturinn heggur drjúgum í gjaldgetu hvers borgara á Íslandi, því að hann leggst á hvern bita og sopa, sem hver einstaklingur í þessu landi þarf að kaupa, og hverja þá flík, sem maður þarf að kaupa sér til klæðnaðar, og gerir þannig útgjöldin til þess að lifa mikiu þyngri og erfiðari en nokkur þörf er á, að því er menn telja 11–12% dýrari en væri, ef söluskatturinn væri lagður niður. Ég held, að niðurfelling á innheimtu þessara skatta mundi tryggja miklu meira, að sveitarfélögin kæmu ekki að tómum kofunum hjá gjaldendum, vegna þess að afnám söluskattsins mundi lækka dýrtíðina verulega og gera það að verkum, að menn yrðu betri skattborgarar, bæði fyrir sveitarfélögin og ríkissjóð.

Ég þarf ekki að fara miklu fleiri orðum um þetta. Ég er sem sé andvígur því, að sú leið sé farin að hætta að innheimta beina stighækkandi skatta af eignum og tekjum, og tel ég, að það væri öllu fremur sanngjarnt að hækka þá skatta og sérstaklega að bæta eftirlit með því, að innheimta þeirra væri í heiðri höfð. En ég álít, að ef það eigi að létta sköttum af þrautpíndum skattborgurum, þá eigi að taka þá úr hópi hinna óbeinu skatta, og bendi ég þá sérstaklega á söluskattinn.