18.01.1952
Efri deild: 64. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í C-deild Alþingistíðinda. (2356)

70. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Í þessari síðustu ræðu sinni sagði hv. frsm. meiri hl. allt annað gegn þessu máli en hann hefur verið vanur. En hvaða rök kom hann með gegn frv. og áliti minni hlutans?

Ég vil fyrst svara hv. 1. þm. Eyf. Hann sagði, að samvinnufélögin væru ekki skattfrjáls. Ég hef ekki haldið því fram, en þau búa við mildara skattafyrirkomulag en önnur fyrirtæki í landinu. Það hefði aldrei verið hægt að halda þjóðinni uppi gegnum tvær styrjaldir, ef framleiðslan hefði ekki verið gefin skattfrjáls. Ég get nefnt mörg önnur dæmi, og það eru þess vegna engin rök, að hér sé um skemmtilega fjarstæðu að ræða. Það kom greinilega fram hjá hv. 1. þm. Eyf., að hann teldi vera sorglega fjarstæðu að heimta skatt af samvinnufélögunum. Hann taldi sjálfsagt, að þau fengju áfram að búa við skattfríðindi. Skattur samvinnufélaganna er takmarkaður við 8%, meðan skattar annarra eru 22%. Hann taldi þetta vera nauðsynlegt fyrir félögin. Það þýðir ekki fyrir hann að halda því fram, að samvinnufélögin búi við sömu skattalög og aðrir í landinu. Ég harmaði það ekki, að samvinnufélögin fengu þessi skattfríðindi, á meðan þau þurftu á þeim að halda. Ég veit vel, að þessi félög hafa skattfríðindi, og ég vil fella þau úr gildi. Meginástæðan til, að ég vil koma þessari breyt. á, er, að ríkissjóður verður að taka á sig mikla byrði vegna þessara skattfríðinda. — Og svo er það skemmtileg fjarstæða að ræða þetta.

Kjarninn er, að það getur enginn eða vill taka af áhuga undir þessi ákvæði skattalaganna. Það hafa komið margar raddir frá skattgreiðendum um að milda skattalögin. Hv. 1. þm. Eyf. sagði, að það væri fjarstæða, að ekki þyrfti að hækka tolla og skatta, ef lögin væru afnumin. Það er ekki fjarstæða, því að velta og framleiðsla í landinu mundu strax aukast um hundruð þúsunda króna, og strax kæmu fram milljónir í söluskatti, án þess að skatturinn væri hækkaður, og meira í öðrum tollum, vegna þess að tollur yrði greiddur af því fé, sem þá væri í veltunni. Veltan mundi margfaldast, og kæmi mikið í ríkissjóð án þess að hækka skatta og tolla. Það er alveg ljóst, að það er hrein fjarstæða, að það þyrfti að hækka tolla, þó að skattalögin væru afnumin. Ég get vakið athygli á því, að ríkið hefur lágar tekjur af þessu. Það hefur haft 36 millj. kr., en hefur nú um 40 millj. Og það þarf að kosta embættismenn til að leggja þetta á, og kostar það ríkissjóð um 8 millj. kr. Það er ekki hægt að minnka þennan skatt og gefa eftir af honum. Það er því engin fjarstæða að ætla að afnema þessi l. Ég hygg, að það sé meiri fjarstæða hjá hv. 1. þm. Eyf., að þegar ég verð farinn af þingi, verði enginn til að taka þetta upp. Lífið sjálft kennir mönnum að fara inn á aðrar leiðir en að halda skattalögunum áfram eins og þau eru á Íslandi, ef það á að vera hægt að búa við þau. — Það er því sorgleg fjarstæða að afnema ekki sem fyrst þessi lög.