20.11.1951
Efri deild: 31. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í C-deild Alþingistíðinda. (2360)

118. mál, eftirlit með opinberum sjóðum

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þetta frv. er lagt fram af fjmrh., en er undirbúið í dómsmrn. Svo er mál með vexti, að breyttir þjóðhættir hafa haft það í för með sér, að ýmis ákvæði í skipulagsskrám ýmissa opinberra sjóða fá ekki lengur staðizt, og hefur verið óvissa um, hvort heimilt væri að breyta skipulagsskrám þeirra í samræmi við breytta þjóðhætti. Það er ljóst, að sjóðirnir eyðast, ef ekki verður leidd í lög breyting á þessu, og er þetta frv. um það. En ætlunin er sú, að eins lítil breyting verði gerð í hvert skipti og hægt er að komast af með, miðað við breyttar aðstæður. Ég skal aðeins geta þess, að beint tilefni til þessarar breytingar er sjóður einn í Eyjafjarðarsýslu, sem er skyldaður til að eiga jörð eina. Sýslumaðurinn í Eyjafjarðarsýslu taldi augljóst, að sjóðurinn mundi gufa upp og verða máttlaus, ef ekki yrði gerð breyting á þessu ákvæði. Þannig er nú komið fyrir því, sem eitt sinn var kjarni fjármálakerfisins, að það borgar sig ekki lengur að eiga fasteignir.