27.11.1951
Efri deild: 35. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í C-deild Alþingistíðinda. (2366)

118. mál, eftirlit með opinberum sjóðum

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Þetta mál var tekið út af dagskrá í gær, þar sem það urðu mistök við prentun nál. og efni þess ruglaðist svo hrapallega, að það var lítt skiljanlegt. Var þetta þskj. því prentað upp, en enn hafa orðið mistök í prentun þess, þar sem síðasta málsgr. a-liðs 1. gr. féll nú úr, en úr þessu má bæta, og er nú verið að prenta þetta þskj. upp á ný.

N. var sammála um að leggja til, að frv. yrði samþ., og telur á því mikla nauðsyn. Það er augljóst mál, að þeir fjöldamörgu sjóðir, sem stofnaðir hafa verið á ýmsum tímum, hafa nú með rás tímans orðið óhæfir til þess að fullnægja þeim kröfum og gegna því starfi, sem þeim var ætlað í upphafi, nema skipulagsskrá þeirra verði breytt. Margar voru þessar skipulagsskrár staðfestar af konungi, og þarf forsetasamþykki til að dæma um, hvort leyfa skuli að breyta þeim eða ekki. Hefur svo farið, að ýmis ákvæði skipulagsskránna eru orðin úrelt og óhagkvæm, þar sem allar aðstæður hafa óumflýjanlega breytzt með tímanum. Þarf því að breyta þeim, þar sem ekki er þörf fyrir, að sjóðirnir gegni nú sama hlutverki og þeim var ætlað að starfa að. En það, sem hefur fallið niður í prentun, er 3. málsgr. 1. gr. þessa frv., sem á að koma síðast undir a-lið í brtt. Þar á að standa eins og í frv.: „Gæta skal þess, þegar breyting er heimiluð í skipulagsskrá, að farið sé svo nærri óskum stofnenda hennar sem hinar breyttu aðstæður leyfa“. Þetta datt okkur ekki í hug að fella niður. En nú er verið að prenta till. aftur með þessari málsgr., en hún verður ekki komin, þegar gengið verður til atkvæða. Ber ég því fram skriflega brtt. til þess að bæta þessu í gr.

Breyting sú, sem n. gerir, er fyrst og fremst sú, að í stað þess að í 1. gr. frv. stendur, að dómsmrn. fjalli um þau málefni, er um ræðir í þessari gr., þá er því sleppt úr 1. gr. í brtt. og sett aftan við síðustu gr. og öðruvísi orðað. Margar af þessum skipulagsskrám heyra undir önnur rn. Þessar gjafajarðir eru menningarlegs eðlis og heyra því undir kennslu- eða félmrn. Þeim er ætlað að styrkja ýmiss konar menn, sem þess þurfa, stundum prestsekkjur eða læknisekkjur og stundum þá, sem fátækir eru í sveitinni, og heyra þess vegna undir félmrn. Þess vegna var þessu breytt dálítið og ætlazt til þess, að allar þær brtt., sem stjórnir viðkomandi sjóða vildu gera, væru sendar því ráðuneyti, sem samkvæmt eðli sínu ber að hafa umsjón með viðkomandi sjóðum. Væru þær síðan staðfestar af dómsmrn. í umboði forseta. — Enn fremur hefur sú breyt. verið gerð á b-lið, að sú n., sem nú starfar og heitir eftirlitsn. með opinberum sjóðum og í eru tveir þm., þeir hv. 11. landsk. þm. og hv. þm. Mýr., skal gera yfirlit yfir sjóðina. Að vísu hefur þetta verið gert annað slagið, en víst ekki nú nýlega. Það er ætlunin, að b-liður verði 8. gr. Þessir eftirlitsmenn skulu yfirfara skipulagsskrárnar, sem þeim eru áður kunnar, þar sem þeir hafa haft eftirlit með þessum sjóðum. Skulu þeir gera till. og senda viðkomandi ráðuneyti um það, hvaða skipulagsskrám þurfi að breyta í þessu sambandi. Skal svo athuga í samráði við forráðamenn viðkomandi sjóða, hvort breyta þurfi skipulagsskránni eftir till. nefndarinnar. N. treystir því ekki, að stjórnir allra þessara sjóða muni gera till. um breytingar á skipulagsskránum, þó að nauðsyn bæri til þess. Ég skal nú ekki nefna neinar ákveðnar sjóðsstjórnir. Það er samt sýnilegt, að sumar sjóðsstjórnanna hafa beinan hag af því að láta ekki breyta skipulagsskrám sjóðanna, þó að aðstæðurnar hafi breytzt þannig með rás tímans, að nauðsynlegt sé að breyta þeim. Þess vegna þótti n. réttast að láta þessa eftirlitsmenn sjóðanna dæma um það, hvort þörf sé á að breyta skipulagsskrám þeirra. Þessir eftirlitsmenn eru þrír, og eru þeir kosnir af hæstv. Alþingi. Mun eiga að endurnýja kosningu þeirra á þessu þingi. Voru þessir menn fyrst kosnir 1940 eða 1941 og voru kosnir til fimm ára. Það er augljóst, að ef nu verður gerð breyting á skipulagsskránum, hefur sjálf sjóðsstjórnin beinan skaða af því, þó að ekki sé mikill. Þess vegna vildum við ekki treysta því, að þessar till. um breytingu kæmu fram frá þeim, og lögðum þess vegna þessa kvöð á eftirlitsnefnd sjóðanna. Ég veit, að þetta er allmikið starf, því að sjóðirnir eru margir. Hygg ég, að þeir sjóðir, sem hér um ræðir, séu töluvert mikið á annað hundrað eða jafnvel fleiri. Það er því töluvert verk, sem lagt er á eftirlitsmenn sjóðanna, að láta þá fara yfir þetta og gera till. En ég tel samt, að þetta sé nauðsyn. Sé ég ekki ástæðu til að ræða meira um þetta, því að það liggur ákaflega ljóst fyrir:

Þar sem þskj. er ekki komið úr prentun, vil ég leggja fram skriflega brtt. þess efnis, að á eftir 2. málsgr. í a-lið brtt. bætist ný málsgr., svo hljóðandi: „Gæta skal þess, þegar breyting er heimiluð á skipulagsskrá, að farið sé svo nærri óskum stofnenda hennar sem hinar breyttu aðstæður leyfa.“

Að lokum vil ég svo segja það, að ég vona, að þessi lög verði til þess, að augu manna opnist fyrir því, að það er alveg óumflýjanlegt, að selja verður ýmsar fasteignir þessara sjóða. Hef ég áður látið þá skoðun mína í ljós í þessari hv. d. og skal ekki ræða frekar um það nú, en það er augljóst mál, að þess er brýn þörf. Get ég fært að því mörg rök, ef á því þarf að halda. En það mun koma í ljós, þegar farið er að breyta skipulagsskrám þessara sjóða, að þetta er óhjákvæmilegt. Þá mun finnast sú lausn, sem ekki hefur fundizt, hvort heimilt sé að selja gjafajarðir, sem standa að þessum sjóðum og sumar eru orðnar til hreinustu vandræða. Skal ég ekki tala meira um það. Læt ég hæstv. forseta um það, hvort hann ber upp til atkv. nál. á þskj. 265 eins og það nú er, þar sem leiðréttingin er ekki komin úr prentun, eða mína skrifl. brtt.