21.01.1952
Neðri deild: 65. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í C-deild Alþingistíðinda. (2378)

118. mál, eftirlit með opinberum sjóðum

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Þetta frv. er fram komið frá hv. Ed. Efni þess er það að veita dómsmrn. heimild til þess að gera breyt. á skipulagsskrám sjóða, ef óskir koma fram um það frá forráðamönnum sjóða eða stofnana eða till. koma fram um það frá eftirlitsmönnum opinberra sjóða. Fjhn. hefur haft þetta frv. til athugunar, og skilar hún áliti á þskj. 604. Nefndarmenn voru allir á einu máli um það, að rétt væri að fara varlega í þessum efnum og að yfirleitt ætti ekki að gera breyt. á þeim skipulagsskrám, sem stofnunum eða sjóðum hafa verið settar, nema að vel yfirveguðu máli og brýna nauðsyn beri til. Í frv. er gert ráð fyrir, að eftirlitsmenn opinberra sjóða skuli gera á þessu ári skrá yfir alla þá sjóði, er þeir telja eðlilegt að breyta skipulagsskrá fyrir.

Fjhn. lítur svo á, að eðlilegast sé, að þessar skrár eða upplýsingar liggi fyrir, áður en Alþ. tekur ákvarðanir um málið, og væri þá hægt að setja l. um breyt. á skipulagsskrám ákveðinna sjóða, ef ástæða þætti til, og sé þetta réttari aðferð en veita svo rúma heimild sem gert er ráð fyrir í frv. Ef þessi skrá um sjóðina verður gerð, ætti hún að geta legið fyrir næsta þingi, og er sýnilegt, að engu er spillt, þótt frestað sé að taka ákvörðun um breyt. á skipulagsskránum til næsta þings. Nefndin gerir það því að till. sinni, að frv. verði afgreitt með þeirri rökstuddu dagskrá, sem prentuð er á þskj. 604. Ég sé ekki ástæðu til að lesa hana hér upp, þar sem ég vænti þess, að hv. þm. hafi þskj. fyrir framan sig.