19.10.1951
Efri deild: 17. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í C-deild Alþingistíðinda. (2382)

66. mál, byggingu nokkurra raforkuveitna

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Þetta litla frv., sem ég hef leyft mér að flytja á þskj. 92, er ekki nýmæli, heldur er það aðeins um það, að meira en sex ára gömul lög verði framkvæmd og verk verði unnið á næsta ári, sem Alþ. ákvað á sínum tíma, að unnið yrði 1945 eða 1946.

Með l. nr. 52 3. marz 1945, um byggingu nokkurra raforkuveitna, er heimilað að byggja allmargar rafveitur, sem ég verð að líta svo á, að Alþ. hafi þá talið eðlilegt að gengju fyrir og væri þá þegar hafizt handa um byggingu þeirra. Þessar rafveitur eru: Frá Hafnarfirði til Keflavíkur og Njarðvíkur, Grindavíkur, Gerða-, Miðnes- og Hafnahreppa og frá Sogsvirkjuninni til Selfoss, Hveragerðis, Eyrarbakka, Stokkseyrar og Þykkvabæjar í Rangárvallasýslu og frá Laxárvirkjun frá Akureyri lína til Dalvíkur og Hríseyjar. Ég hygg, að þessi l. hafi nú að mestu leyti verið framkvæmd og þessar línur séu komnar, aðrar en línan frá Akureyri til Dalvíkur með viðbótarlínu í Hrísey. Ég ætla nú ekki að ásaka neinn fyrir það, að þessi lína hefur orðið eftir, en það er ákveðið í l., að hún verði lögð. Ég hygg, að til þess liggi m. a. sú ástæða, að rafmagn var ekki það mikið, sem Laxárstöðin framleiddi, að hægt væri að bæta miklu álagi þar á, og geti það því verið afsakanlegt, þó að þessi lína væri sett hjá þrátt fyrir þessi lagaákvæði og aðrar línur séu komnar, sem síðar voru ákveðnar. En þessi ástæða, sem verið hefur til þess að draga framkvæmdir, er nú burt fallin á næsta ári, þar sem Laxárvirkjunin á þá að vera fullgerð, og væri þá vitanlega gott, að þessi lína yrði jafnframt komin og hægt að taka hana til notkunar um sama leyti og Laxárvirkjunin verður fullgerð.

Frv. þetta gengur út á það, að þessi lína verði byggð á árinu 1952, þ. e. a. s., 1. gr. frv. er um það að framlengja frestinn til ársins 1952 í stað 1946. Ég veit nú ekki, hvort nauðsynlegt er að fá slíkt lögtekið, en ég tel það þó rétt, því að héðan af er ekki hægt að framkvæma neitt á árinu 1946. Sumar þessar línur voru þó byggðar eftir 1946, svo að l. hefur ekki verið fullnægt bókstaflega.

Svo hef ég þar að auki lagt til um það, hvar taka eigi peninga til framkvæmdanna, og er það í 2. gr. frv. Ég veit nú ekki, hvort hefur verið nauðsynlegt að gera uppástungu um það, hérna er nú ekki um stóra upphæð að ræða, en ég lít svo á, að það sé ábyrgðarleysi að stinga upp á útgjöldum án þess jafnframt að benda á, hvar taka eigi fjármuni til þeirra. Mér sýnist, að vel sé hægt að gera þetta og nota til þess nokkuð af tekjuafgangi ríkissjóðs á þessu ári. Mér er þó vel ljóst, að það eru aðrar þarfir, sem þjóðfélagið þarf líka að sinna, þýðingarmiklar þarfir, sem tvímælalaust eiga að ganga fyrir þessum og ýmsu öðru, sem þm. hafa verið að stinga upp á í þessu sambandi. En þrátt fyrir það að þeim þörfum verði fullnægt, sem ég á við, veit ég, að tekjuafgangur á þessu ári verður svo mikill, að hægt er að framkvæma þetta. Að svo miklu leyti sem tekjuafgangurinn verður ekki notaður til alveg bráðnauðsynlegra þarfa, þá hugsa ég, að það sé meining allra, að hann sé notaður til þess að greiða skuldir. Ég lít svo á, að þegar gefið hefur verið slíkt fyrirheit eins og felst í l. frá 1945 um byggingu nokkurra rafveitna og þegar þess er gætt, að þau lög hafa verið framkvæmd, nema um þetta atriði, þá fer mér að finnast, að það nálgist mikið skuld, siðferðislega skuldbindingu, sem ríkið sé í um að inna þetta af hendi. Ég átti tal við raforkumálastjóra um það, hvað þetta mundi kosta, og hann sagði, að það væri áætlað um 4,5 millj. kr. Háspennulínan er komin um það bil hálfa leið, eða til Hjalteyrar, en heimtaugar hvergi komnar. Nú skal ég taka það fram, að ég tel það svo mikils vert, að háspennulínan komist til Dalvíkur og Hríseyjar, að ég tel mikið unnið, þótt heimtaugar verði ekki lagðar heim á hvern einasta bæ; þær koma síðar, þegar aðallínan er komin. Ef ekki verður nema um háspennulínu að ræða. verður fjárupphæðin lægri. (Landbrh.: Er þetta með heimtaugum á leiðinni til Dalvíkur?) Já. Og þegar tillit er tekið til þess þar að auki, að ríkið á ekki að bera allan kostnað af þessu, þá er ekki um meiri upphæð að ræða en svo, að vel er hægt að taka fjárveitingar til þessa upp á fjárlög næsta árs, og yndi ég því vel.

Ég vil svo að lokum segja þetta: Það er ákveðin von mín, að þetta loforð, sem á sínum tíma var gefið, verði nú uppfyllt og frv. afgr. sem lög. Og ég lít svo á, að hér séu staðhættir slíkir, að ef ríkið sér sér ekki fært að leggja þessa línu til Dalvíkur, þá getum við eins hætt við að hugsa um rafveitur frá raforkuverum úti um byggðir landsins. Eins og menn vita, er Dalvík stærsta þorpið út með Eyjafirði, með nærri því 1000 íbúa. Milli Akureyrar og Dalvíkur eru 3 þorp, sem til greina koma, eða reyndar 4, en í eitt þeirra er þegar komið rafmagn frá Akureyri. Á milli þessara staða er einhver þéttbýlasta sveitabyggð landsins, Kræklingahlíð og Arnarneshreppur. Það eru því ákaflega litlar líkur til, að nokkur slík rafveita geti borið sig, ef þessi getur það ekki.

Ég þarf svo ekki að orðlengja þetta frekar. Ég er að sjálfsögðu reiðubúinn til að ganga að samkomulagi, ef þessu máli þokar eitthvað áfram. Eins og ég hef tekið fram, geri ég það ekki að aðalatriði, að 2. gr. verði samþ. óbreytt, heldur er hún hér meira til ábendingar. Ég vona þó, að hv. Alþ. gangi ekki svo á sínar gerðir, þó að ýmsir nýir þm. hafi bætzt í hópinn síðan, að þessi eina byggð, sem mun vera fjölmennust af þeim, sem l. frá 1945 nefna, verði afskipt með raforku, sem þegar hefur verið ákveðin henni til handa.