14.11.1951
Sameinað þing: 14. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í C-deild Alþingistíðinda. (2397)

112. mál, öryrkjahæli

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er, eins og sagt hefur verið, sama frv. og ég flutti hér fyrir Samband íslenzkra sveitarfélaga eða stjórn þess í fyrra. Málið fékk vinsamlegar undirtektir hér í d., og var því vísað til heilbr.- og félmn., sem að mínu áliti fór réttilega með málið og leitaði umsagnar embættismanna. sem fara með vandamál þess fólks, sem hér er verið að reyna að skapa viðunandi aðstöðu. N. óskaði þess, að málið yrði einnig lagt fyrir sveitarfélögin til umsagnar, því þó að sambandið stæði að þessu máli, þá er fyrst og fremst, að í því eru ekki öll sveitarfélög, og þar að auki höfðu ekki sveitarfélögin í sambandinu sérstaklega rætt málið heima fyrir. Umsagnir sveitarfélaganna, sem fram hafa komið, skilst mér yfirleitt að hafi verið jákvæðar fyrir málið, og þannig liggur það þá aftur fyrir heilbr.- og félmn. hér, þegar þing kemur saman, að segja má, að sveitarfélögin hafi að fáum undanteknum mælt með frv. Hins vegar hefur félmn. ekki orðið sammála um að verða við þeim óskum félmrn. að flytja málið að nýju, og þess vegna kemur það nú fram með nokkrum ágreiningi af hennar hálfu. Samt virðist mér, að sá ágreiningur sé þess eðlis, að ekki sé verið að deila um það, að hér sé stungið upp á úrlausnum málefnis, sem ekki þurfi að leysa, og þó að hv. þm. Barð. hafi gert sterkorðar aths. við frv., þá er hann þó stefnunni fylgjandi, og aths., sem hann gerir, eru að sumu leyti byggðar á því, að honum virðist, að sveitarfélögin ætli með þessu frv. að létta af ríkissjóði skyldum, sem á honum hvíli. Það er oftar — að mér virðist — talað um það og að því fundið, að margir aðilar vilji koma á ríkissjóðinn öllum erfiðleikum. Nú hefur hv. þm. Barð. aftur á móti álasað sveitarfélögunum fyrir það, að þau gangi of skammt í slíku efni. Má því segja, að hér gangi klögumálin á víxl. Ég er hv. þm. Barð. sammála um það, að frá sjónarmiði sveitarfélaganna væri æskilegt, að ríkissjóður leysti þessi mál einn, en af því að hann hefur ekki gert það og af því að þetta er svo mikið vandræðamál í sveitarfélögunum, þá hafa þau nú óskað eftir því, að hann tæki þátt með sér í að leysa þau á þann hátt, sem vafalaust er erfitt fyrir sveitarfélögin að gera. Þetta er aðeins sönnun fyrir því, hvað mikið liggur á úrbótum.

Hv. þm. Barð. benti á, að það væri mikið ósamræmi í því, að sveitarfélögin, sem gengju um þessar mundir „hungurgöngu“ til ríkissjóðs til að biðja um aðstoð, bjóðist til að bæta á sig böggum. Við það er fyrst og fremst það að athuga, að það eru nú bæjarfélögin, sem hann sjálfsagt á við í þessum efnum, og því ekki öll sveitarfélög. En þannig eru líka málavextir, að í raun og veru er alls ekki um „hungurgöngu“ að ræða, eins og hv. þm. virðist vilja útleggja, þótt bæjarfélögin hafi á nýlega afstöðnum fundi hér í Reykjavík leyft sér að biðja um það, að löggjafarsamkoman ætli þeim ákveðna tekjustofna til þess að standa undir sínum skyldum. því að þannig hefur það verið í raun og veru á undanförnum árum, að ríkissjóður hefur meir og meir gengið inn á tekjuöflunarsvið sveitarfélaga og þau hafa meir og meir misst sinn réttmæta afla til ríkisins. Þeirra aðaltekjustofn hefur verið útsvarsálagningin. En það er beinn skattur, sem vitanlega er óvinsæll eins og aðrir beinir skattar, enda hefur ríkið meir og meir forðazt að nota þá. Hins vegar hefur þessi óvinsæli tekjustofn þótt fullgóður handa sveitarfélögunum. Það hefur verið erfiðara og erfiðara að komast af með hann, og það, sem þau biðja um, er í rauninni ekki annað en það, að þau fái hlutdeild í þeim aðferðum, sem ríkissjóður notar, og geti létt á útsvarsálagningunni. Þetta er ekki í sjálfu sér rétt að kalla „hungurgöngu“, þvert á móti ósanngirni að nota það orðbragð. Svo er annað, sem mér virðist vera mishugsað hjá hv. þm. Barð. Hann segir, að jafnhliða því sem sveitarfélögin kvarti, vilji þau leggja á sig nýjar byrðar, þungar byrðar. En það er ekki um nýjar byrðar að ræða hér. Þessar byrðar hvíla á sveitarfélögunum, þau standa svo sem undir vandræðafólkinu. En þau vilja nú fá aðstöðu til að geta framfært á þolanlegri hátt. Þau vilja létta byrðar sínar með því að koma upp hæli fyrir það. Hv. þm. Barð. bendir á það. að stærstu bæjarfélögin vilji ekki vera með að þessu leyti, þau vilji leysa málið á annan hátt með sínum sérstöku hælum. En fyrir hvað hafa þau hæli? Þau hafa sérstök hæli vegna þess, að þau geta það, af því að þau hafa bolmagn til þess, en smærri sveitarfélögin geta það ekki, það er í raun og veru nákvæmlega hið sama, sem smáu sveitarfélögin vilja gera, og Reykjavíkurbær hefur gert í þessu máli. Þau vilja með samlögum koma upp hæll til þess að geta haft þar sitt vandræðafólk, sem hvert þeirra einstakt hefur ekki getað, þótt Reykjavík gæti það. Satt að segja þykir mér heldur slæmt fyrir málið, að Reykjavík hefur ekki fengizt til enn sem komið er að ganga inn á að vera í samlögum við hin sveitarfélögin um að leysa málið á þann hátt, sem hún hefur í rauninni gert og talið hagfellt fyrir sig. — Annars sé ég ekki ástæðu til að setja upp kappræður við hv. þm. Barð. um málið, því að í rauninni erum við sammála, þó að hann leiti raka fyrir sinni skoðun á dálítið veikan og áttavilltan hátt, eins og ég hef bent á.

Mín reynsla í sveitarstjórnarmálum er sú, að það séu 4 flokkar vandræðafólks, sem eru erfiðastir í meðferð. Þar er fyrst að telja fólk, sem er brjálað. Vegna þess, hvað örðugt er fyrir heimili og sveitarfélög að annast slíkt fólk, þá hefur oft og tíðum orðið ótrúlegur kostnaður í sambandi við það. Kleppur hefur alls ekki annað því að taka á móti þessu fólki, og ég hef sjálfur reynt, að það hefur ekki verið til neins að snúa sér til hans með fólk, sem hefur brjálazt skyndilega. Aðrir hafa af veikum mætti orðið einhvern veginn að annast það — þrátt fyrir ógurlegan tilkostnað — langtímum saman, áður en fengizt hefur pláss á Kleppi. Mér er sagt, að í fyrra hafi það komið fyrir, að mann, sem brjálaðist, hafi orðið að geyma í 14 daga. og varð kostnaðurinn 1000 kr. á dag eða 14000 kr. alls. Þetta er aðeins sýnishorn af því, hvað kostnaðarsamt er fyrir sveitarfélögin að standa straum af svona vandræðafólki heima fyrir, og þetta er alls ekki ný byrði, sem sveitarfélögin óska eftir að leggja á sig. Þau óska þvert á móti eftir að létta af sér slíkum byrðum sem þessum, og það er meira en peningaspursmálið í sambandi við þetta fólk, sem telst til erfiðleika. Það er orðið ákaflega örðugt í fámenninu að fá stað til þess að geta haft þetta brjálaða fólk á og menn til að gæta þess. Venjuleg heimili geta ekki tekið þetta að sér. Sveitarfélög hafa orðið að leggja á menn ótrúlegustu þegnskaparkvaðir í þessum efnum. Bændur verða að fara heiman frá sér frá verkum sínum til að taka á sig til skiptis gæzlu slíkra sjúklinga. Ég tel þennan flokk vandræðafólks allra erfiðastan, og sérstaklega tel ég erfiðleika í sambandi við þá, sem tapa sér snögglega, og ég vil óska þess, að hv. félmn., sem tekur aftur við þessu máli, athugi rækilega, ef hún sér sér ekki fært að mæla með byggingu hælis, hvort ekki er hægt að gera Klepp að skyldu að taka samstundis við fólki, sem svona veikist. Ég hygg, að eins og Kleppur er nú orðinn stór, þá sé ekki óbærileg kvöð fyrir hann að vera við þessu búinn, því að mér skilst, að svona tilfelli séu ekki mörg árlega, 4–6 á ári venjulega, hefur mér verið sagt.

Þá er annar flokkur vandræðafólks, sem verður og er ákaflega erfiður fyrir sveitarfélögin, það eru fávitarnir, en þeir eru ein tegund öryrkja. Þeir eru vissulega ákaflega dýrir í framfærslu, og þar að auki eru þeir þungbær plága og kross fyrir heimilin, sem taka þá að sér. Enn fremur eru í þeim flokki margir, sem ekki eru sagðir til sveitar, en brýn nauðsyn væri að létta af vandamönnum. Ég hugsa, að sú talning, sem gerð hefur verið á fávitum í sambandi við þetta mál, sé alls ekki tæmandi. Vandamenn annast víða þessa vesalinga. Ég hygg, að aðallega hafi í talningunni verið miðað við þá, sem sveitarfélögin sjá um. Og þegar málið á að fara aftur til heilbr.- og félmn., þá vildi ég óska þess, að n. tæki til mjög rækilegrar athugunar, hvort ekki gæti komið til mála, að Tryggingastofnun ríkisins tæki að sér að sjá um þennan flokk vandræðafólks, sem eru öryrkjar, eins og ég tók fram áðan.

Hinn þriðji flokkur vandræðafólks, sem er mjög erfiður, er hið elliæra fólk. Það eru gamalmenni, sem eru mjög fyrirhafnarsöm og heimilin stynja undir og sveitarfélögunum reynist oft ógerningur að koma fyrir á viðunandi hátt. Mér skilst, að félmrn. hafi látið sér detta í hug að gera samning við Hafnarfjarðarbæ um að taka að sér, eftir því sem húsrúm þar leyfir, þetta fólk, og vildi ég líka óska þess, að n. athugi það, hvort þar og máske á fleiri stöðum gæti verið lausn sú, er létti á sveitarfélögunum umsjá þessa fólks. Ég heyri sagt, að hæli það, sem búið er að reisa í Hafnarfirði, sé meira en fyrir þann bæ og verulegt rúm afgangs handa öðrum.

Fjórði flokkur vandræðafólks, sem er ákaflega erfiður víða, er hið skapgallaða fólk, sem engu eirir, ef svo mætti að orði komast, og truflar svo heimilislíf, að nálega enginn fæst til að hýsa það. Þessu fólki líður einnig venjulega mjög illa í sambúð við annað fólk. Á Húsavík hafa verið byggð yfir tvær slíkar manneskjur sérstök smáhýsi. Þetta er ákaflega leiðinleg niðurstaða, því þó að fólkinu líði skár með því móti að vera út af fyrir sig, þá líður því þó illa, og þyrftu að vera til heimili, sem tækju að sér að hlúa að því. Samt eru ekki eins miklir erfiðleikar með þennan flokk og hina þrjá, sem ég nefndi áður. En ég vil vekja athygli á því, að þarna er tegund manna, sem veldur miklum erfiðleikum og verið er að reyna að hugsa fyrir með till. um öryrkjahæli.

Ef nú fyndist flötur á því að koma fyrir fólki því, sem ég hef hér aðallega nefnt, þá finnst mér mikið hafa unnizt, og þá finnst mér að sveitarfélögin mættu vel láta um stund till. um sameiginlegt hæli falla niður, því að vitanlegt er það og ég viðurkenni það að sjálfsögðu, að með frv. er í mikið ráðizt fyrir sveitarfélögin, og það væri æskilegt, að þau kæmust hjá slíku. Ekki mundu sveitarfélögin hafa á móti því, að þjóðfélagið sæi fyrir þessu fólki, án þess að þau þyrftu að leggja annað fram en meðlög, sem rétt þætti að þau greiddu fyrir sína skylduómaga, sem í ríkishælum dveldu.

Ég held ég hafi ekki ástæðu til að segja fleira. En ég endurtek það, að ég vænti þess, að n. athugi vel þau atriði, sem ég hef nefnt. Ég treysti fyrir mitt leyti vel hv. þm. Barð. til þess að leggja á sig að reyna að brjóta málið til mergjar, þótt hann virtist blása á móti því í ræðu sinni hér áðan, og ég skora á hann að sýna í þessu máli, að hann sé sterkur til umbóta.