14.11.1951
Sameinað þing: 14. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í C-deild Alþingistíðinda. (2400)

112. mál, öryrkjahæli

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Mér þykir miður, að hvorki hæstv. forsrh.hæstv. fjmrh. hafa séð sér fært að vera viðstaddir þessar umr. — Ég hygg, að ég segi rétt frá, að meiri hl. n. telji sig engan veginn bundinn við að samþykkja frv. óbreytt. En hann telur æskilegt, að brtt. komi við það. Einn nm., hv. þm. Barð., er andvígur frv. og álítur, að ef það nái fram að ganga, tefji það fyrir annarri og betri lausn á málinu. Að þessu er vikið í grg. með frv., en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðuneytið telur hins vegar, að eigi að bíða þess, að t. d. Kleppur verði stækkaður svo, að hann geti tekið við öllum, sem sveitarfélögin þurfa að sjá fyrir hælisvist vegna þeirrar örorku, sem frumvarpið fjallar um, eða ríkið reisi nýtt hæli fyrir þá annars staðar á landinu, muni þær framkvæmdir dragast enn um langt árabil. Ráðuneytið er þeirrar skoðunar, að rétt sé, að ríkissjóður leggi fram nokkra fjárhæð þegar í upphafi til stofnkostnaðar, eins og ráðgert er í frv., og að Tryggingastofnun ríkisins verji fé ellistyrktarsjóðanna fyrst og fremst til að styrkja byggingu deildar fyrir elliær gamalmenni, sem einna fyrst yrði að koma upp, þegar hafin er bygging hælis þessa“.

Önnur ástæðan er sú, að hann telur, að bíða eigi þess, að ríkið taki þetta að sér.

Ástæðan fyrir því, að þetta frv. er flutt og sveitarfélögin vilja taka á sig þær byrðar, sem því eru samfara, er sú, hversu dráttur hefur orðið á, að svona hæli yrði reist. Og sveitarfélögin vilja taka þetta á sig vegna þess, að þau gera sér vonir um, að með því verði ódýrara fyrir þau að sjá öllu þessu fólki fyrir dvalarstað. Það, sem skiptir meginmáli í sambandi við öryrkjahælið, er, hvers má vænta af fjárveitingarvaldinu, hvaða fé er veitt til þessara framkvæmda. Sé aftur á móti ekki á það bent, að líkur séu til framkvæmda af hálfu ríkisins, hvað á þá að gera?

Nú er af sumum rætt, að það sé óeðlilegt, að sveitarfélögin reki spítala og hæli. Ég er ósammála þessu. Ég veit ekki betur en þar sem þessi mál eru lengst komin, þá sé þetta algengt. Aftur á móti er ég alveg sammála því, sem kom fram í n., að í litlu þjóðfélagi sem okkar væri æskilegt, að nokkur verkaskipting færi fram. Landlæknir telur það æskilegt, að ríkið reki sjúkrahús eins og t. d. Klepp og hæli fyrir berklasjúklinga, en sveitarfélög almenn sjúkrahús. Ég er þessu sammála, og það, sem ég tel aðalagnúann á þessu hæli, eins og frv. gerir ráð fyrir, er, að þar verði bæði brjálaðir menn, fávitar og öryrkjar. Ég held, að það sé mjög óheppilegt að hafa sama hæli fyrir þá, sem eru andlega veikir, og þá, sem eru líkamlega gallaðir. Það yrði vitanlega á valdi heilbrigðisstjórnarinnar að ákveða, hvaða tegundir öryrkja ættu að fá þar víst.

Hv. þm. Barð. sagði áðan, að með þessu frv. væri ríkisstj. að kaupa sig undan skyldu, sem á henni hvílir, en eins og ég sagði áðan, tel ég verkaskiptingu á þessu sviði mjög æskilega. Það er ástæða til vegna Klepps að taka undir það, sem hæstv. dómsmrh. sagði hér áðan. Aðalmarkmið hans á að vera að taka þá, sem von hafa um bata, en það ætti ekki að útiloka, að jafnan sé hægt að halda þar nokkrum rúmum lausum fyrir menn, sem verða skyndilega brjálaðir, því að það er ekki hægt að segja um, hvort hægt er að lækna þá, fyrr en þeir hafa verið undir læknisrannsókn. Ég held, að það sé rétt, að með því að hafa 5–10 rúm laus á Kleppi mætti létta mestu erfiðleikunum af í þessu efni. Ef ekki er hægt að hafa þessi rúm laus, þá er tiltölulega auðvelt að byggja þar viðbót og setja ákvæði um að halda þar lausum rúmum fyrir menn, sem verða skyndilega brjálaðir.

Ég vil að lokum geta þess í sambandi við það, sem sagt hefur verið um Tryggingastofnunina, að ég tel það mjög misráðið að fela henni að reisa og reka slíkt hæli. Til eru önnur verkefni, sem standa henni nær, svo sem að vinna að því að koma upp hælum fyrir menn, sem hafa misst hluta af starfsorku sinni, til þess að hægt sé að nýta þá orku, sem þeir eiga eftir, sjálfum þeim og þjóðfélaginu til gagns.