15.11.1951
Neðri deild: 28. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í C-deild Alþingistíðinda. (2412)

107. mál, fasteignamat frá 1942 o. fl.

Jón Pálmason:

Herra forseti. Eins og fram var tekið af frsm. fjhn., var þetta mál til umr. á síðasta Alþ. Við þær umr., er þá fóru fram hér í d., tók ég fram, að ég teldi óþarft að hafa svo mikla vafninga við framkvæmd þessa máls sem gert er náð fyrir í frv., því að eins og kunnugt er, þá á fasteignamat að fara fram á 25 ára fresti. Og ég tel, að þar sem allar skýrslur og reikningar til að byggja þetta verk á eru til, sé óþarft að kosta til þessa verks dýru skrifstofubákni ásamt öllu, er því tilheyrir. Það eru til skýrslur um þetta hjá Búnaðarfélagi Íslands og öllum búnaðarfélögum, og er skylt lögum samkvæmt að láta fara fram millimat, þegar ástæða gefst til, og er það vanræksla skattanefnda, sem bera ábyrgð á því, ef svo hefur ekki verið gert. Þess vegna tel ég, að það, sem gera þurfi, sé ákaflega einfalt, en það er, að þingið ákveði hækkun fasteignamatsins með lögum. Þetta væri hægt að gera án mikils kostnaðar og fyrirhafnar, en með þessu frv. er stefnt út í að viðhafa mikinn kostnað, að því er virðist að ástæðulausu.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum í þetta sinn, en ég mun flytja brtt. við þetta frv., eftir því sem mér þykir við þurfa, eins og ég gerði á síðasta þingi.