15.11.1951
Neðri deild: 28. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í C-deild Alþingistíðinda. (2414)

107. mál, fasteignamat frá 1942 o. fl.

Pétur Ottesen:

Ég held, að þetta frv. sé byggt nokkuð líkt upp og brtt., sem bornar voru fram hér í d. við frv. um sama efni í fyrra, en þá var málið lagt fram þannig, að ein nefnd, sem gert var ráð fyrir að sæti í Reykjavík, ætti að hafa þessa endurskoðun á hendi. Ég minnist þess, að ég benti m. a. á, að þetta væri óheppileg aðferð gagnvart öðrum landshlutum, að láta nefnd manna í Reykjavík eina ákveða um breytingar á fasteignamatinu. Niðurstaða þessara aths. varð sú, að bornar voru fram brtt., líkar að efni til frv. því, er hér er til umr. nú. Í þessu frv. er gert ráð fyrir, að í hverju sýslu- og bæjarfélagi verði skipaðar nefndir til að framkvæma endurskoðun og samræmingu fasteignamatsins. Síðan skal fjmrh. skipa þriggja manna yfirnefnd, er endurskoðar og samræmir mat héraðsnefnda. Ég skal taka það fram, að ég .tei rétt að farið við ákvörðun verkefnis og starfsaðferða héraðsnefnda, en hins vegar er sagt um yfirmatsnefnd, að hún skuli samræma og endurskoða mat héraðsnefnda, og virðast henni ekki vera bundnar hendur um hæð matsins. Ég vildi því spyrja hæstv. fjmrh., hvort þetta orðalag að „endurskoða og samræma“ sé ekki alveg tæmandi, — hvort þessi n. hafi nokkra heimild til að hækka matið. Það er náttúrlega hægt að samræma bæði til hækkunar og lækkunar, svoleiðis að í þessu orðalagi getur falizt bæði hækkun og lækkun. Ég vildi því sem sagt spyrjast fyrir um, hvort þessi yfirmatsnefnd hefur heimild til að gera nokkra allsherjarhækkun frá mati héraðsnefnda. Þetta er töluvert atriði í málinu. Ég álít, að héraðsnefndir hafi bezt skilyrði til að meta jarðir, hver á sínu svæði, í samræmi við búskaparháttu og samgöngur á hverjum stað. Aðstaða til búskapar er svo breytileg í hinum ýmsu sveitum landsins, að matið hlýtur af þeim orsökum að verða mismunandi. Ég vil enn fremur benda á, að sá tími, sem héraðsnefndum er ætlaður til að ljúka störfum, er nokkuð naumur, en það eru 12 vikur samkv. 7. gr. frv. Ég vildi því skjóta því til n. þeirrar, er málið hefur meðferðis, að athuga, hvort þessi tími sé ekki of stuttur, og gæti það orðið til þess, að setja yrði brbl. um framlengingu hans, þar sem þetta er svo strangt og ófrávíkjanlega að orði komizt í frv.

Þá má segja það um ákvæði 11. gr., að í því felist úrbót fyrir sveitarfélögin, þar sem skatturinn rennur til þeirra að loknu þessu fasteignamati, eftir að endurgreiddur hefur verið í ríkissjóð kostnaðurinn af matinu. Verður að telja það til bóta og er fyrsta sporið í þá átt að slaka til í þessum málum við sveitarfélögin. Það er hins vegar vitað, að fasteignaskatturinn hrekkur skammt, en með þessu er stefnt í rétta átt.

Ég held, að þær till., sem hv. þm. A-Húnv. kom með í þessu sambandi, séu ekki heppilegar, þótt málið yrði með því móti dálítið umfangsminna. Það er fullkomlega vitað, að svo miklar breytingar hafa orðið á í þessum efnum, að full nauðsyn er staðbundinnar þekkingar við lausn þessa máls, en ekki er um það að ræða, að hennar njóti með því fyrirkomulagi, sem hv. þm. A-Húnv. vildi viðhafa, og því síður, ef farið væri að eins og gert var ráð fyrir í frv. því, er borið var fram um þetta efni hér í fyrra.

Ég óska svo eftir svörum um störf yfirmatsnefndar. Ef það væri svo, að n. hefði óskorað vald til að hækka matið, þá álít ég að þurfi að reisa skorður við því í þessu frv. Ég álít, að héraðsnefndir hafi það góða sérþekkingu til að bera, að rétt sé, að starf yfirnefndar sé aðeins að samræma matið, en að hún hafi ekki vald til allsherjar lækkunar. Við verðum að gæta hófs í þessum efnum sem öðrum, því að við lifum á þeim tímum, þegar verð er hátt á öllum hlutum, og vil ég að lokum vara alvarlega við því að spenna fasteignamatið upp úr hófi fram.