15.11.1951
Neðri deild: 28. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í C-deild Alþingistíðinda. (2415)

107. mál, fasteignamat frá 1942 o. fl.

Jón Pálmason:

Herra forseti. Það er kunnugt mál, að þegar fasteignamat er ákveðið, þá er það fyrst og fremst skattagrundvöllur. Það er ekki aðeins skattagrundvöllur fyrir fasteignaskatti. heldur einnig eignarskatti, vegagjöldum o. fl. o. fl. Ég tek undir það með hæstv. fjmrh., að breyta þurfi fasteignamatinu, og ég tel ákaflega auðvelt að breyta því án mikillar fyrirhafnar, eins og ég hef bent á áður. En það er einnig annað, sem ég vildi vekja athygli á, og það er, að ég álít, að í þessu frv. séu allmiklar mótsagnir og það sé í mótsögn við frv. það, sem kom fram í fyrra, því að í 4. gr., sem er aðalákvörðunargrundvöllur mats héraðsnefnda, segir svo: „Til grundvallar endurskoðun fasteignamatsins skulu héraðsnefndir leggja fasteignamat það, sem nú er í gildi, en því til viðbótar“ o. s. frv. M. ö. o., það á að grundvalla þessa endurskoðun á hinu gildandi fasteignamati. Það tel ég hægt að gera á einfaldan hátt og þurfi enga dýra nefnd og engar héraðsnefndir, ef það er gert á þann hátt, sem ég hef lagt til. Ég tel, að þetta sé hægt vegna þess, að það eru allar skýrslur fyrir hendi um nýjar jarðræktarframkvæmdir og undirmat á öllum nýjum húseignum, og hafi verið vanrækt að gera þessar skýrslur, ber fjmrh. að sjá um, að sú vanræksla haldi eigi áfram.

Ég tel þess vegna að sú aðferð, sem fara ætti eftir samkvæmt þessu frv., sé óhæf. Annaðhvort verði þetta reiknað sem dæmi, Alþ. ákveði þá. hversu mikið hækka skuli fasteignamatið, og auk þess verði tekið tillit til þeirra skýrslna, sem fyrir liggja um breytingar þær, er orðið hafa, ellegar verði látið að öðrum kosti fara fram nýtt fasteignamat með þeim frjálsu möguleikum að taka til greina allar breytingar, sem orðið hafa síðan síðasta fasteignamat fór fram. En ég tel, að mestu breytingar, sem orðið hafa, séu þær, að margar jarðir hafa farið í eyði. Það má ekki hækka matið á þeim jörðum, það er nægilega hátt eins og er, og annað hitt, að oft er ekki hægt að innheimta gjöld lengur af þeim jörðum. Aðra hvora þessa aðferð tel ég að verði að hafa, — hækka matið af Alþ., sem er tiltölulega ódýrt og einfalt, eða láta fara fram hreinlega nýtt fasteignamat. Héraðsnefndir hefðu þá alveg frjálsar hendur, án tillits til gamla fasteignamatsins, að gera nýtt mat, sem þó vitanlega yrði eins og öll önnur verk gallað. Ég tel, að annaðhvort verði að hafa þann hátt á, að Alþ. hækki matið og það starf verði unnið af nokkrum röskum mönnum, sem fá allar nauðsynlegar skýrslur, ellegar verði að breyta l. og stytta tímann milli fasteignamata. Og þá gefur það að skilja, að það verður ekki framkvæmt á einu ári.