29.10.1951
Neðri deild: 19. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í B-deild Alþingistíðinda. (243)

2. mál, gengisskráning, launabreytingar, stóreignarskattur, framleiðslugj. o. fl.

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Það er út af því, sem hv. þm. A-Húnv. sagði, að eftir að þessi brbl. hefðu verið samþ., væri ekki hugsanlegt að stöðva þá dýrtíð, sem í landinu væri, og það væri í ósamræmi við stefnu þeirra laga, sem undirbúin voru af minnihlutastjórn Sjálfstfl.

Í þessu sambandi vil ég taka það fram, sem hv. þm. verður að muna eftir, að í þessum l. um gengisskráningu o.fl. var ekki skrásett kaup. Það var látið laust og óbundið, og var ætlazt til, að svo yrði að vera. Svo hlýtur honum að vera kunnugt um þær almennu kauphækkanir, sem urðu í júní í sumar. Þegar það var orðið, varð stjórnin að gera sér ljóst, hvort hún vildi veita opinberum starfsmönnum sömu uppbót. Niðurstaðan varð sú, að ekki var talið fært að neita þeim um sömu hækkun. Þetta verður hv. þm. að gera sér ljóst, áður en hann fer að tala um þetta mál.

Hv. þm. talaði um það eins og þessi brbl. væru að fara inn á nýja braut. Það má minna hann á það, að þau eru ekki annað en framhald af og í samræmi við þær niðurstöður, sem urðu af samningum launþega og atvinnurekenda í sumar. Í sambandi við þetta frv. er ekki verið að taka neina ákvörðun um það, hvort rétt sé að láta kaupgjald hreyfast í samræmi við vísitöluna, heldur er hér aðeins um það að ræða, hvort rétt sé að veita opinberum starfsmönnum launahækkun til samræmis við aðrar stéttir þjóðfélagsins, sem þegar hafa fengið launahækkanir með samningum. Það er þetta, sem hv. þm. A-Húnv. verður að gera upp við síg, en hitt er misskilningur, að hér sé ríkisstj. og Alþ. að marka stefnu í kaupgjaldsmálum, því að hún hefur þegar verið mörkuð með samningum milli atvinnurekenda og verkamanna, og það eina, sem Alþ. kveður á um með afgreiðslu þessa frv., er það; hvort opinberir starfsmenn eigi að vera settir hjá með verðlagsuppbót á laun sín eða ekki. Ég vil taka það fram, að kostnaður vegna þessarar uppbótargreiðslu er nokkuð mikill, og hefur talizt svo til, að hann muni nema um 10–11 millj. króna til starfsmanna ríkisins, en 7 milljónirnar, sem hv. þm. A-Húnv. taldi einnig með í hækkuninni á árslaunum starfsmanna ríkisins, eru af öðrum toga spunnar. Þær eru kaupgjald til lausamanna o.fl., og mundi sú hækkun hafa átt sér stað að mestu leyti, þótt þessi l. hefðu ekki verið sett. Með þessum l. er því ekki verið að setja neina vísitöluskrúfu í gang, heldur er hér aðeins verið að skammta opinberum starfsmönnum sömu uppbót á sín laun og verkamenn hafa náð með samningum. Starfsmenn ríkisins drógust aftur úr hvað þetta snertir, og ríkisstj. þótti ekki viðunandi að synja þeim um verðlagsuppbót á sín laun, þegar aðrir launþegar fengu hana. Með þessu er þó ekki sagt, að það sé alltaf sjálfsagt, að kaupgjald opinberra starfsmanna hreyfist í samræmi við kaup annarra launþega, en í þessu tilfelli fannst stjórninni rétt að hafa það svo. Um þetta geta að sjálfsögðu verið skiptar skoðanir, og þetta er atriði, sem menn verða að gera upp við sig á hverjum tíma.