27.11.1951
Neðri deild: 34. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í C-deild Alþingistíðinda. (2432)

107. mál, fasteignamat frá 1942 o. fl.

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég gat ekki verið við, þegar 2. umr. hófst, og heyrði því ekki ræðu hv. þm. A-Húnv., en ég kvaddi mér hljóðs til þess að segja nokkur orð um till. hans, en mun líka segja nokkur orð um till. á þskj. 355.

Það er auðséð, að hv. þm. A-Húnv. er á móti því, að endurskoðun fari fram á fasteignamatinu, og það væri hreinlegra að fella alveg frv. en að samþ. þær till., sem hann ber fram á þskj. 328. Ég er hissa á því, að ekki skuli allir hv. þm. vera sammála um það, að endurskoða þurfi fasteignamatið. Þar sem það er mælikvarði á gjöld og greiðslur, ætti það ekki að vera deilumál, að æskilegt er, að það sé í sem beztu samræmi við raunverulegt verðmæti á hverjum tíma. Ég skil ekki, að menn skuli ekki geta sameinazt um það, þó að deila megi um aðferðina.

Það er ekki ástæða til að taka upp kappræður um þetta mál. Ég vil benda á að í gömlu l. var ákvæði um það, að fasteignamat skyldi fara fram tíunda hvert ár, af því að menn vildu láta endurskoða matið á 10 ára fresti vegna þeirra breyt., sem urðu, og af því að menn voru sammála um að byggja gjöldin á réttlátum grundvelli. Á þeim 10 árum, sem liðin eru síðan síðasta mat fór fram, hafa orðið meiri verðlagsbreyt. en nokkru sinni áður á 10 árum, svo að endurskoðun matsins er orðin knýjandi nauðsyn. Allir viðurkenna líka, að fasteignamatið er nú hrein skrípamynd og kemur ekki að neinu gagni sem mælikvarði. En auk almennra verðlagsbreytinga hefur þróun atvinnulífsins tekið meiri breytingum á síðastliðnum tíu árum en nokkru sinni áður. Sums staðar hefur hallað undan fæti um afkomumöguleika, en á öðrum stöðum hefur afkoman orðið betri og glæsilegri. Hlutföllin eru því orðin rangari en þau hafa sennilega nokkru sinni verið. Þetta hygg ég, að sé á vitund allra hv. þm. Ranglætið, sem er viðhaft, er svo augljóst, að það er undravert, að menn skuli ekki vilja ráða bót á því.

Fasteignamatið er sá grundvöllur, sem eignarskattur og fasteignaskattur byggjast á. Það er því svo, að þeir sem eiga lausafé eða verðbréf í peningum, verða að telja fram með nafnverði en þeir, sem eiga fasteignir, telja aðeins fram örlítið brot af eign sinni. Ástandið í þessum málum, eins og það er nú, er óþolandi og grefur undan öllum sómasamlegum vinnubrögðum, enda botna menn ekki í, að því skuli viðhaldið, því að það er engin glóra í þessu.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta, en vil aðeins náða d. til að fella till. hv. þm. A-Húnv. á þskj. 328.

Varðandi till. á þskj. 355, þá var verið að útbýta þeim rétt núna, og vildi ég beina því til hv. flm., að þeir tækju þær aftur til 3. umr. Þó er eitt ákvæði í þeim, sem ég vildi sérstaklega vara við. Það, sem við leitum eftir að fá, er tvennt: annars vegar rétt hlutföll í fasteignamatið og hins vegar að færa matið sem næst hinu eðlilega gangverði á fasteignum, þó að það hljóti alltaf að verða lægra. Ég vil benda hv. flm. á, að ef sett verða lög um það, að fasteignamatið verði ekki nema fjórfaldað, þá er komið í veg fyrir, að rétt hlutföll fáist í fasteignamatið, og það held ég að geti engan veginn vakað fyrir flm. að setja þannig lagaákvæði. Það hljóta að verða röng hlutföll þannig, vegna þess að víða um land verður eðlilegt og sanngjarnt mat meira en fjórfalt með núgildandi verðlagi. Get ég ekki séð annað en rétt sé, ef á annað borð á að leggja í það að endurskoða fasteignamatið, að það vaki fyrir mönnum að reyna að fá sem mest samræmi í matið. Þess vegna finnst mér ekki koma til mála að binda slík ákvæði með lögum. Ég held, að það hafi ekki komið til mála áður að binda þannig fyrir fram hendur fasteignamatsmanna með lögum. — Í þessum till. eru ýmis atriði, sem mér finnst íhugunarverð, og þess vegna vil ég stinga upp á því við hv. flm., hvort ekki mundi vera heppilegast að taka þær til baka til 3. umr.