13.12.1951
Neðri deild: 43. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í C-deild Alþingistíðinda. (2443)

107. mál, fasteignamat frá 1942 o. fl.

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Ég hef ekki fyrr tekið þátt í umr. um þetta mál. Ekki stafar það af því, að mér finnist málið ekki þurfa athugunar við, heldur af því. að það fór í aðra n. en ég á sæti í.

Það er verið að tala um, að það sé réttlætismál að hækka mat á fasteignum, fasteignamatið sé nú allt of lágt og miklu lægra en mat á öðrum eignum. Þetta er ekki aðalatriðið í þessu máli, heldur það, hvaða afleiðingar hækkun mats á fasteignum mundi hafa. Með þessu frv. er ekki verið að koma á neinni leiðréttingu, heldur verið að leggja á nýja skatta. Þegar þetta frv. var flutt á síðasta þingi, þá var það meiningin að hækka tekjur ríkisins, en málið dagaði þá uppi. Nú er málið flutt á ný, og eru í frv. mörg ákvæði, sem eru beinlínis furðuleg, t. d. það, að kærufrestur yfir mati er aðeins 4 vikur, sem er ákaflega bagalegt, þegar um mat er að ræða, sem á að gilda í tíu ár. Fjögurra vikna kærufresturinn nær ekki nokkurri átt. Það er allt of mikill ruglingur í öllum okkar skattamálum til þess að svo stuttur frestur fái staðizt.

Nú er frv. flutt með þeirri breytingu, að nú á það að veita bæjar- og sveitarfélögum auknar tekjur. Þetta minnir mig á skrípamynd af banhungruðum hundi, sem var að naga á sér skottið. Þeir, sem flytja þetta frv., virðast þekkja lítið inn á málefni bæjar- og sveitarfélaga, ef þeir halda, að þetta sé einhver úrlausn á fjárhagsörðugleikum þeirra. Ég veit það að minnsta kosti, að á Siglufirði er þetta engin lausn, enda gera menn þar bara grín að þessu frv. Tekjur bæjarfélaga af fasteignum eru nú 1% af matsverði húsa, 2% af matsverði lóða og ½% af matsverði túnbletta, þ. e. a. s., bæjarfélögunum er heimilt að innheimta þennan skatt, og sum þeirra hafa notað sér heimildina til fulls. Ég er sannfærður um, að það yrði bjarnargreiði við bæjarstjórnina á Siglufirði að gefa henni þessa ávísun. Það er svo mikil fásinna, að engum í bæjarstjórn Siglufjarðar dettur í hug að treysta nokkuð á það.

Þessi breyt. á frv. frá því í fyrra er gerð í fljótfærni. af því að fjmrh. hefur séð að hann gæti ekki komið málinu í gegn nema gera þessa breyt. á því. Hann hefur séð, að vegna þess að nú lítur út fyrir að verði um 100 millj. kr. tekjuafgangur hjá ríkissjóði, þá þýddi ekki að sýna hv. alþm. frv. í sama formi og í fyrra, og lét hann því gera þessa breyt. á því. — Ég vil undirstrika það með hv. þm. A-Húnv., að það er engin lausn á fjárhagsörðugleikum bæjarfélaganna að gefa þeim ávísanir á ekki neitt. Það er einnig rétt hjá hv. þm. A-Húnv., að bæjarfélögin hafa óbundnar hendur um álagningu útsvara, og með útsvörunum eru bæjarfélögin raunverulega búin að leggja á þennan skatt, sem um getur í frv., því að vandamálið er það, að fólkið geti borgað. Þetta vandamál hefur aukizt síðan söluskatturinn var lagður á, því að innheimta hans er svo óhófleg, að fyrirtækjum, sem ekki geta staðið í skilum, er lokað, og þetta eru flest fyrirtæki, sem hafa verið hæstu útsvarsgreiðendur. Bæjarsjóðurinn verður að víkja fyrir hinni óhóflegu innheimtu á söluskattinum; þetta er reynslan á Siglufirði. og ég býst við, að önnur bæjarfélög hafi svipaða sögu að segja. Það verður að gæta þess, að menn séu ekki gerðir gjaldþrota. Þessi heimild ríkisstj. að loka fyrirtækjum, sem ekki standa í skilum með söluskattinn, er óhæfa. Vandamál bæjarfélaganna er innheimtan, en ekki útsvarsálagningin; það verða að vera einhverjir, sem geta borgað. En það er eins og hæstv. fjmrh. geri sér ekki ljóst, hvað ástandið er alvarlegt. Ef nú á að fara að 10- eða 15-falda mat á fasteignum, eins og fram kemur í grg. við frv., þá er ég sannfærður um, að fjöldi manna, sem hafa verið að koma sér upp smáhúsum, mun hreinlega missa þau, þegar öll gjöld, sem miðuð eru við fasteignamat, hækka svona gífurlega. Öll þessi gjöld hvíla samkv. l. nr. 66/1921 og 67/1945 með lögveði á húsunum, en það gengur fyrir samningsveði. Erfiðleikarnir að fá Lán út á fasteignir munu því enn aukast, því að séð er, að það mun mörgum reynast ofvaxið að borga þessi hækkuðu gjöld. og þeir aðilar, sem lánað hafa, verða að reikna með því, að það geti lent á þeim að borga þennan skatt. Þetta eykur því enn á erfiðleikana að fá lán, erfiðleika, sem eru orðnir svo miklir, að nálgast hrun. Eftir kenningum þeirra, sem að frv. standa. á að plokka húsin af eigendum þeirra. Það sjá allir, að það er fásinna að tala um þetta sem lausn á fjárhagsörðugleikum bæjar- og sveitarfélaga.

Samkv. 1. nr. 66/1921 má leggja á hús 1.5‰ og samkv. l. nr. 67/1945 má leggja 1% á hús. 2% á lóðir og 0.5% á erfðafestulönd, tún, garða o. s. frv. Ef við tökum hús, sem er metið á 20 þús. kr., en það eru t. d. gömlu húsin í miðbænum í Reykjavík, sem eru hæst metin, miðað við söluverð, – ef við tökum eitt slíkt hús sem dæmi, þá er fasteignaskattur af því nú 230 kr., en ef hann er 15-faldaður, verður hann 3500 kr. Auk þess mundu þá öll gjöld, sem miðuð eru við fasteignamat, einnig 15-faldast, en það eru t. d. vatnsskattur, heimtaugargjald og gott ef ekki einnig holræsagjald og gatnagjald. Það er því fjöldi gjalda, sem mundu stórhækka, ef þetta frv. yrði að lögum, og það yrði fjöldi manns, sem hefði enga möguleika að inna þessi gjöld af hendi. Það er óforsvaranlegt af ráðherra að hafa ekki látið rannsaka, hvaða áhrif þetta hefði til hækkunar, a. m. k. hér í Reykjavík.

Ég er því sannfærður um, að þetta frv. gengur í ranga átt. Hitt er svo annað mál, að þeir, sem eiga miklar fasteignir, borgi meira en aðrir, vegna þess að þeir hafa mikinn arð af fasteignum sínum. En jafnvel þó að með þessu frv. yrði hægt að skattleggja nokkra auðmenn, þá veit ég, að fyrir hvern slíkan gullkálf mundi hundruðum fátæklinga verða greitt rothögg.

Ég er þeirrar skoðunar, að ótækt sé að íþyngja enn með sköttum því fólki, sem við erfiðastar aðstæður á að búa á þessum erfiðu tímum. Þetta fólk getur ekki bætt neinu á sig. Almenningur er nú svo þrautpíndur af alls konar sköttum og tollum, að óhugsandi er, að hann geti nokkru á sig bætt. Það er staðreynd. að það er fjöldi manns hér í Reykjavík, sem er að missa íbúðir sínar. Það væri ef til vill einhver vegur að bera þetta frv. fram, ef söluskatturinn yrði felldur niður í staðinn eða einhverjir aðrir skattar, sem svöruðu til hinna auknu útgjalda, sem hljótast mundu af hækkuðu fasteignamati.

Það virðist svo sem hæstv. fjmrh. geri sér það ekki ljóst, að meginþorri allra íbúða er eign þeirra, sem í þeim búa. Húsunum er skipt í íbúðir, sem eru eign þeirra, sem í þeim búa, því að þróunin hefur verið sú hin síðari ár, að fólk hefur frekar reynt að kaupa sér íbúðir en að búa í leiguhúsnæði, og þegar svo er komið, að þetta fólk rís ekki undir þeim gjöldum, sem á það eru lögð, hlýtur það að missa íbúðirnar. Þetta verða allir að gera sér ljóst.

Ég er á móti þessu frv. og tel það hið mesta áfall fyrir það fólk, sem hefur lagt allt sitt í það að eignast þak yfir höfuðið, ef ríkið ætlar nú að reka smiðshöggið á að gera því ókleift að halda því, m. a. með því, eins og ég hef áður sagt, að útiloka það frá því að fá lán og bæta enn við skattabyrðina, sem á því hvílir. Ég á vont með að skilja þá menn, sem láta bjóða sér að flytja annað eins frv. og þetta. Ég held, að þeir hafi ekki gert sér ljóst, hversu ástandið er alvarlegt. Nú er allt útlit fyrir það, að þegar líður á veturinn, muni skella yfir stórkostlegt atvinnuleysi, sem mun auka stórkostlega við þær erfiðu kringumstæður, sem allur almenningur á nú við að búa. Nei, bæjarstjórnirnar munu frábiðja sér þessar till., þær þurfa ekki að halda á heimild til að leggja á auknar álögur. Það, sem þær vantar, er greiðslugeta hjá almenningi. Það stendur hæstv. ríkisstj. miklu nær að láta endurskoða allt fjármálakerfið í landinu. — Ég vil því leyfa mér að flytja eftirfarandi dagskrártill.:

„Með því að frv. það, sem hér liggur fyrir, hefur allverulega hækkun á opinberum gjöldum í för með sér, ef að lögum verður, ofan á skatta- og gjaldabyrði, sem er orðin það þung, að allur þorri manna rís ekki undir henni, og með því að frv. leysir ekki fjárhagsvandamál bæjar- og sveitarfélaga, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“