14.12.1951
Neðri deild: 44. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í C-deild Alþingistíðinda. (2449)

107. mál, fasteignamat frá 1942 o. fl.

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef áður rætt nokkuð þær brtt., sem hér liggja fyrir, fyrst brtt. frá hv. 2. þm. Skagf. og tveimur öðrum þm. á þskj. 355, sem lá hér fyrir við 2. umr., en var tekin aftur til 3. umr. Síðan hafa hinir sömu þm. flutt brtt. við till. á þskj. 425. Um till. þessa er það að segja, að ég tel, að hægt sé að fallast á hana með brtt. á þskj. 425. Þó er þar einn liður í 1. mgr., sem ágreiningur er um, og vildi ég lesa hann, með leyfi hæstv. forseta: „Þessi hækkun má þó hvergi vera meiri en svo, að heildarmatsverð fasteignar fjórfaldist“. Vildi ég fara fram á það við hæstv. forseta. að þessi liður verði borinn upp sérstaklega við atkvgr. Mér skilst, að það muni vera auðvelt að koma þessu þannig fyrir, en það er síðasti málsl. í 1. till. á þskj. 355, og vildi ég biðja hæstv. forseta að haga því þannig.

Það hefur aldrei verið ákveðið í l., hvert matsverð fasteigna skuli vera. Tel ég, að Alþ. eigi ekki að taka upp þann nýja sið, heldur leggja það á herðar n. eins og verið hefur. Að öðru leyti tel ég, að hægt sé að fallast á brtt.

Hv. 2. þm. Eyf. flytur till. á þskj. 442, og tel ég rétt, að hún sé samþ.

Það eru fleiri till., sem liggja hér fyrir. Hér er till. frá hv. þm. A-Húnv. á þskj. 424 við brtt. á þskj. 355. Ég tel, að sú till. mundi versna, ef þessi breyt. yrði á henni gerð. — Sami þm. flytur brtt. á þskj. 410, og er það allveruleg breyting frá frv., og er hún þannig, að Alþ. kjósi yfirmatsnefnd. Ég vil benda á, að sú regla hefur ætíð gilt, að ráðh. skipi nefnd þessa.

Þá virðist mér síðari brtt. á þskj. 410 vera þannig, að ekki sé hægt að fallast á hana. Finnst mér hún lýsa talsverðu hugmyndaflugi hjá hv. þm. — Sé ég ekki ástæðu til að eyða í þetta fleiri orðum.

Ég vil einnig gera aths. við það, sem hv. þm. A-Húnv. sagði við 2. umr. Hann sagði, að ég hefði sagt, að mér fyndist að mætti 10-15-falda matið. Þetta er ekki rétt. Ég sagði, að söluverð fasteigna væri nú á sumum stöðum 10–15 sinnum hærra en fasteignamatið. Hins vegar sagði ég ekki, hvað nýja matið ætti að vera, og vil ég, að það sé í höndum fasteignamatsnefndanna að ákveða það. Sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða meir um þetta.

Það er búið að ræða mál þessi nokkuð hér, og ég hef gert grein fyrir afstöðu minni. Í þessum málum ríkir hið mesta siðleysi, og má ekki við svo búið standa lengur. Þetta hefur m. a. þau áhrif, að ósamræmi verður mikið í sköttum og skattgreiðslum. Það er alls ekki rétt, sem hv. þm. Siglf. sagði áðan, að þetta hefði engin áhrif á skattana. — Sé ég ekki ástæðu til að svara hv. þm. A-Húnv. og Siglf. frekar, og læt því útrætt um mál þetta.