29.10.1951
Neðri deild: 19. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í B-deild Alþingistíðinda. (245)

2. mál, gengisskráning, launabreytingar, stóreignarskattur, framleiðslugj. o. fl.

Jón Pálmason:

Herra forseti. Það mætti ætla eftir ræðum þeirra hæstv. fjmrh. og hv. 3. landsk., að þeir áliti mig meira en lítinn heimskingja, því að báðir gátu þeir sér þess til, að ég mundi hafa misskilið þetta lagafrv. En því er nú ekki til að dreifa, því að um engan misskilning er að ræða af minni hálfu. Mér er það fyllilega ljóst, að þegar gengisbreytingarlögin voru sett, var kaupgjaldið ekki bundið, eins og hæstv. fjmrh. drap á. Það var ekki ætlazt til þess, að Alþ. eða ríkisstj. skæri úr um það, hvað kaupgjaldið yrði í landinu. Inn á þá braut hefur ekki verið farið síðan 1942. En þar með er ekki sagt, að Alþ. og ríkisstj. verði að fylgja eftir þeim samningum, sem atvinnurekendur og verkamenn gera um kaupgjald sín á milli, og þótt það yrði ofan á í vor í samningum milli atvinnurekenda og verkamanna, að hinir síðarnefndu skyldu fá greidda verðlagsuppbót á laun í samræmi við vísitölu, þarf það engan veginn að vera rétt, að ríkisstj. og Alþ. fari í sama farið með því að fylgja sömu reglum í kaupgreiðslum til fastlaunaðra ríkisstarfsmanna. Þess ber sérstaklega að gæta í þessu sambandi, að aðstaða verkamanna og fastlaunamanna er og hefur verið gerólík að því leyti, að áhætta fastra starfsmanna í sambandi við atvinnuna er engin. Verkamennirnir aftur á móti eru sífellt undirorpnir þeirri hættu, að þeir fái ekki vinnu nálægt því allt árið, og stundum hafa þeir hana líka ekki nema hluta úr árinu, kannske hálft árið eða svo. Hér er því um ólíka aðstöðu að ræða, og tel ég ekki rétt, að þessar launþegastéttir fylgi sömu reglum í kaupgjaldsmálum, auk þess sem samningarnir um það, að kaupgjald verkamanna fylgi áfram vísitölunni, eru mjög hæpnir, þar sem dýrtíðarskrúfan er með því látin halda áfram að verka. Ef menn hafa hugleitt það, hve mikil ógæfa hefur hlotizt af vísitölulögunum frá 1940, hljóta menn að sjá, að hér er ekki um að ræða stéttamál eða flokksmál, heldur þjóðmál, sem hefur hina mestu þýðingu fyrir fjármálakerfi okkar og allan atvinnurekstur í landinu.

Nú er það vitað, að undanfarin ár hafa sem flestir viljað komast í fastlaunaðar stöður til þess að þurfa ekki að eiga neitt á hættu með atvinnuleysi. Hins vegar er það einnig vitað, að það eru fastlaunamenn, sem oft og einatt hafa spanað verkalýðinn upp í vinnudeilur ot; notað hann þannig sem ísbrjót til að knýja fram kauphækkanir handa sjálfum sér. Þess vegna haggast ég ekki frá þeirri skoðun, að heppilegra hefði verið, elns og sakir stóðu á síðastliðnu sumri, að láta við þau ákvæði sitja að greiða opinberum starfsmönnum laun eftir 123 stiga vísitölu, og felling þessa frv. er fyrsta sporíð, sem hægt er að stíga nú til að gera tilraun, sem þýðingu hefur, til að stöðva þá dýrtíðarskrúfu, sem stöðugt er knúin í landinu og virðist eiga að halda áfram að knýja, þar til yfir lýkur.

Mig tekur ekkert sárt, þótt hv. 3. landsk. segi þessa afstöðu mína lýsa ótrúlegu afturhaldssjónarmiði, að ég vilji ekki láta fastlaunamenn fylgja sömu reglum í kaupgjaldsmálum og verkamenn. Ég er alveg hiklaus í þessu efni, því að ég veit, hvílíkur reginmunur er á aðstöðu þessara tveggja stétta, og það vildu án efa flestir verkamenn komast í fastlaunaða stöðu, enda þótt ekkert yrði af þessari kauphækkun, sem hér er verið að fara fram á. Í kaupstöðum og kauptúnum landsins hefur verið meira og minna atvinnuleysi mikinn hluta ársins, og líkur eru til, að svo verði enn, og í sveitunum er þannig ástatt, að bændur hafa verið á sífelldum flótta undan því að þurfa að kaupa hið allt of dýra vinnuafl fyrir þeirra atvinnurekstur, en lagt allt kapp á að auka vélanotkun sem allra mest og losna þannig við að þurfa að greiða híð rándýra vinnuafl, sem nú mun vera 50–100 sinnum dýrara en það var fyrir fyrra stríð. Og ef það á að halda áfram, að fastlaunamenn noti verkalýðinn sem ísbrjót sinn í kaupgjaldsmálum og Alþ. styðji þessa starfsemi þeirra, þá sé ég ekki betur en glötunin sé vís. — Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri, en ég held fast við þá skoðun mína, að það eru þessi l., sem tryggja gang dýrtíðarskrúfunnar, enda þótt atvinnurekendur og verkamenn hafi gert með sér samninga um verðlagsuppbót á kaup samkvæmt vísitölu.