11.01.1952
Neðri deild: 56. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í C-deild Alþingistíðinda. (2458)

107. mál, fasteignamat frá 1942 o. fl.

Áki Jakobsson:

Hæstv. fjmrh. var ekki við, þegar ég mælti fyrir dagskrártill. minni. En eins og ég benti á, fyrst þegar málið kom fram, var það upphaflega hugsað sem tekjuöflun fyrir ríkissjóð, þó að það hafi síðar breytzt, því að nú á þetta að vera björgun fyrir bæjar- og sveitarfélögin. Ég benti á það áður, að þarna hefði ekki verið leitað ráða hjá bæjarfélögunum. Bæjarstjórar voru hér á fundi í haust, en þetta kom ekkert fram þar. Síðan hef ég dálítið athugað viðhorfið og átt tal við ýmsa þessa menn, og ber þeim saman um, að þetta sé engin lausn á fjárhagsvandamáli bæjarfélaganna. Þess vegna er þetta tiltæki hæstv. ráðh., að flytja þetta mál sem tekjuöflunarmál fyrir bæjarfélögin án þess að hafa um það samráð við þau, gersamlega út í loftið; það er enginn að biðja hann um slíka starfsemi. — Bæjarstjórnafundurinn hér gerði ákveðnar samþykktir, sem þessi ráðh. lagði slíkt ofurkapp á að kveða niður, að hann hótaði að segja af sér ráðherraembætti, ef á nokkurn hátt yrði tekið tillit til þeirra till., sem hér um eitt skeið var búið að samþ. í þessari d., þannig að það er næstum furðuleg framkoma hjá honum að koma með þetta mál á þennan hátt, án þess að hafa samráð við bæjarfélögin, og hefur enga þýðingu; það nægir ekki til þess að hjálpa bæjarfélögunum fjárhagslega.

Nú, það, sem hæstv. ráðh. sagði, að þetta hækkaði ekkert gjöldin, er eins og hver önnur fjarstæða. Það veit hver einasti maður, að þessi fasti gjaldstofn verður alltaf til þess að hækka gjöldin, og hjá flestum bæjarfélögum er þannig ástatt, að þar er engu hægt við að bæta. Ég skal að vísu viðurkenna, að útsvarsupphæðin kynni að lækka eitthvað við það, að fasteignaskatturinn hækkaði, en ég er viss um, að samanlögð upphæð fasteignaskatts og útsvara verður hærri en áður. Ég vil benda hæstv. ráðh. á það, að mjög mörg bæjarfélög eru þannig á vegi stödd, að þetta kemur þeim ekki að neinu haldi. Það hefur ekki staðið á því, að hægt væri að leggja þetta á. Bæjarfélögin hafa ekki verið neitt bundin við fasteignamatið. þegar þau leggja gjöld sín á. Þau hefðu eins getað reiknað það þannig, að miða við þrefalda eða fjórfalda upphæðina. Það er ekkert í fasteignalögunum, sem bannar þeim að útbúa sína skala yfir þetta sjálf. Bæjarfélögin geta tekið tillit til eigna manna í fasteignum við álagningu sinna gjalda, ef þau vilja, og þurfa ekki á slíkri aðstoð að halda frá hæstv. fjmrh. Það vantar ekki fleiri lagaheimildir til þess, að leggja megi gjöld á almenning. Erfiðleikarnir hafa verið í því fólgnir, að fólkið hefur ekki getað borgað gjöld sín til bæjarfélaganna, og það hefur gengið svo langt undanfarið, síðan hæstv. ráðh. fékk heimild til þess að innsigla fyrirtæki manna, að bæjarfélögin hafa orðið að víkja með að innkalla gjöld í bæjarsjóðinn vegna þess offors. sem hæstv. ráðh. hefur komið á með innköllun gjalda í ríkissjóð; á ég þar við innheimtu söluskattsins. Bæjarfélögin hafa tekið þá afstöðu að bíða með að innkalla sínar álögur, því að það er ekki líklegt, að menn geti frekar borgað sín útgjöld, ef fyrirtæki þeirra eru innsigluð og atvinnurekstur þeirra stöðvaður. Þannig hefur söluskatturinn verið innheimtur. (Fjmrh.: Vill þá hv. þm., að söluskatturinn verði ekki innheimtur?) Ég vil að minnsta kosti, að menn hafi nokkurn tíma til þess að greiða hann. Hæstv. ráðh. veit, að söluskatturinn er skattur, sem gefur tugi milljóna og er innheimtur af fólkinu, og hann veit, að skattur þessi kemur mjög óréttlátlega niður. Því er það, að ég er á móti þessum skatti og hef alltaf verið það. Það er enginn skattur, sem kemur eins ranglátlega niður á almenningi og söluskatturinn, það verður líka að vera hóf í allri innheimtu hans. Einu sinni voru menn settir í fangelsi, ef menn voru skuldugir, það þótti sjálfsagt að láta mann ekki ganga lausan, ef hann borgaði ekki skuldir sínar. Fjármálaráðherrar þeirra ára hefðu sjálfsagt risið upp hneykslaðir yfir þessu ástandi. En ég hélt, að við værum komnir það langt, að við mætum persónufrelsi manna meira en þetta og við létum fjármálalega hagsmuni víkja fyrir persónufrelsi manna. Þarna hefur hæstv. ráðh. fengið vald til þess að innsigla fyrirtæki manna, ef þeir borga ekki ákveðinn skatt. Fjhn.-maður hefur upplýst, að um það hafi verið talað að beita mjög varlega þessari heimild, en reynslan hefur verið sú, að engin önnur aðferð hefur verið reynd. Það hefur ekki einu sinni verið reynt að taka lögtök, heldur bara sendur innsiglunarmaður til þess að innsigla fyrirtækin. Þessu ákvæði hefur verið beitt af slíku tillitsleysi, að einstætt má telja, og hefur það orðið til þess, að mörg bæjarfélög hafa þegar lent í vandræðum með innheimtu útsvara hjá þeim mönnum, sem fram að þessu höfðu verið bezt færir um að borga þau. Það kemur því úr hörðustu átt, ef hæstv. ráðh. ætlar núna að breiða sig svona út yfir bæjarfélögin. Hann ætti bara að bíða eftir því, sem bæjarfélögin hafa að segja í þessu máli. Hann hlýtur að sjá, að það er lítið gagn í því fyrir bæjarfélögin að reyta íbúðirnar ofan af þeim bæjarbúum, sem ekki eru menn til þess að borga gjöld sín. Það lendir á bæjarfélaginu að bjarga fólkinu og hjálpa því til að lifa. Hæstv. ráðh. hefur getað innheimt þetta fyrir ríkissjóðinn, en það er þýðingarlaust fyrir hann að halda, að lausn vandamálsins fyrir bæjarfélögin fáist með því að gefa þeim heimild til aukinna álaga á fólkið. Það, sem gera þarf, er að auka atvinnu fólksins, svo sem komið hefur fram á mörgum bæjarstjórnarfundum víðs vegar um land.

Ég vil nú fara nokkrum orðum um till. hv. 5. þm. Reykv. (JóhH). Mér finnst till. þessi nokkuð einkennileg, og það er í fyrsta skipti, sem ég hef séð slíkan rökstuðning hér á Alþ. Þar er ætlazt til, að frv. verði vísað frá, af því að fyrir Sþ. liggi nú till. til þál. um heildarendurskoðun á skattal. og þar á meðal tekjuskiptingu og verkaskiptingu ríkisins og bæjar- og sveitarfélaga. En það er ekki vitað, hvort þessi till. verður afgr. á þessu Alþ. eða hvort hún verður nokkurn tíma afgreidd, en að við eigum að fara að vísa til þessarar till. til að fresta þessu máli, finnst mér svo kjánalegt, að ég ætla að vera á móti þessari till. til rökst. dagskrár. Hv. þm. hefur e. t. v. ekki getað fengið sig til þess að greiða atkv. með frávísunartill. minni. Ég get ekki séð aðra röksemd með því að flytja þessa brtt.; hún er svo kjánaleg.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að ræða frekar um þetta, en ég vil undirstrika, að þetta mál verði endurskoðað, því að nýtt fasteignamat er á engan hátt lausn fyrir bæjar- og sveitarfélögin, eins og málið er borið fram af hæstv. ráðh., og verður til þess að auka gjöldin og gera þau miklu verri bagga á fólkinu. Ég sé ekki, hvað það er, sem dregur hæstv. fjmrh. sérstaklega til þess að þurfa endilega að telja það svo stórt atriði að fara nú að leiðrétta fasteignamatið. Hann segir, að það sé ekki höfuðatriðið að auka á gjöldin, heldur sé þetta bara leiðrétting á fasteignamatinu. En fasteignamatið er ekkert annað en gjaldstofn. Það er orðið til á þann hátt, að ríkið setur reglur um það, hvernig leggja ó gjöld á. En ef þetta er ekki gert í því skyni að hækka gjöld, þá er þessi endurskoðun fasteignamatsins gersamlega tilgangslaus. En vitanlega er ástæðan sú að láta gjöldin hækka og útvega auknar tekjur í ríkissjóð, en það var erfitt að koma með það fram fyrir Alþ. að biðja um stórauknar tekjur fyrir ríkissjóð, þegar hann skilar jafnmiklum tekjuafgangi sem hann gerði á þessu síðasta ári og þegar gjaldabyrðar á almenningi eru svo miklar. að hann er ekki fær um að standa undir þessum gjöldum. Hæstv. ráðh. veit líka, að þessi breyting á fasteignamatinu mundi hafa þau áhrif og er gerð í þeim tilgangi að hækka gjöld almennings. Það er eðlilegt að miða gjöld manna við eignir manna, en ef hækka á fasteignamatið, þá verður að slaka til á öðrum gjöldum. Ef hæstv. ráðh. vill láta afnema söluskattinn, þá er ég til viðtals um það að endurskoða fasteignamatslögin. Afleiðingin yrði sú, að bankarnir hækkuðu lán út á fasteignir og að öðru leyti yrði um að ræða allmiklar hækkanir.

Ég tel ástæðulaust að ræða um þetta frekar. því að mál þetta er ekki flutt í samnáði við bæjar- og sveitarfélögin á neinn hátt. Þau hafa ekki gefið hæstv. fjmrh. neitt umboð til þess að bera þessa till. fram fyrir þeirra hönd, og hæstv. ráðh. hefur snúizt öfugur við öllu, sem frá bæjarfélögunum hefur komið í þá átt að létta undir með þeim.