29.10.1951
Neðri deild: 19. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í B-deild Alþingistíðinda. (246)

2. mál, gengisskráning, launabreytingar, stóreignarskattur, framleiðslugj. o. fl.

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Hv. þm. A-Húnv. sagði, að ræður okkar hæstv. fjmrh. hefðu borið vott um það, að við teldum hann ákaflega heimskan. Ekki kom mér til hugar að brigzla jafnmerkum þm. og hann er um vitsmunaskort. Hins vegar vildi ég ekki að óreyndu trúa því, að hv. þm. byggi yfir svo mikilli rangsleitni í garð opinberra starfsmanna sem komið hefur í ljós. Ég vissi að vísu áður, að hann var íhaldsmaður, en að hann væri svo afturhaldssamur sem þessi afstaða hans gefur til kynna, því vildi ég ekki trúa. Samanburður á afkomu og kjörum opinberra starfsmanna og verkamanna skiptir ekki máli í sambandi við afgreiðslu þessa frv. Hér er um það eitt að ræða, hvort hlutfallið á milli kaupgjalds þessara tveggja launastétta eigi að raskast eða ekki, en svo hefði farið, ef ríkisstj. hefði ekki sett þessi bráðabirgðalög í vor. Þá hefði kaup opinberra starfsmanna lækkað um 10–15% miðað við kaup annarra stétta. Þetta er það, sem hv. þm. er að mæla með, og á því vildi ég vekja sérstaka athygli. Hann er að mæla með því, að kaup opinberra starfsmanna verði í rauninni lækkað miðað við aðrar stéttir. Auk þess vildi ég benda á, að í bráðabirgðalögunum er kveðið á um hækkun á kaupgjaldi opinberra starfsmanna, sem er ekki eins mikil hlutfallslega og hækkunin á kaupi verkamanna, heldur er aðeins um að ræða hækkun, sem er jafnhá í krónufjölda. Það verður ekki sagt, að með þessum bráðabirgðalögum sé gengið of langt í hækkunarátt, en samt treystir hv. þm. A-Húnv. sér til að andmæla lögunum. Það er vist, að opinberir starfsmenn munu taka eftir þessari kveðju hans í þeirra garð og festa sér hana í minni.