16.11.1951
Neðri deild: 29. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í C-deild Alþingistíðinda. (2487)

102. mál, skipun læknishéraða

Frsm. (Helgi Jónasson):

Herra forseti. Þetta frv. er frá ráðuneytinu og fjallar um það að skipta Blönduóslæknishéraði í tvennt og hafa einn lækni í Höfðakaupstað. Fylgir frv. grg. frá hreppsnefnd Höfðakaupstaðar og bréf frá landlækni. Er þar mælt með því, að héraðið sé stofnað. N. féllst á að flytja þetta frv., en hefur enn óbundnar hendur um fylgi við málið.

Um nauðsyn þessa máls skal ég ekki fullyrða. Þarna er að myndast nokkuð stór kaupstaður með rúma 600 íbúa við síðasta manntal. Þarna er sæmileg höfn og mikið um skipakomur. Líklega koma þar við flest skip, sem eru þar um slóðir. Töluverð snjóþyngsli eru þarna og oft erfitt að ná í lækni á Blönduósi, eftir því sem segir í grg. Það er þó ekki langur vegur, 23 km. Enn fremur er þarna töluverð útgerð, a. m. k. að sumarlagi. Miðar þetta allt að því að styrkja kröfu íbúanna í Höfðakaupstað um lækni hjá sér. Náttúrlega er alltaf álitamál, hve langt á að ganga í að smækka læknishéruðin. Fyrir nokkrum árum ríkti sú stefna hjá Alþ., að talið var heppilegra að hafa héruðin nokkuð stór og tvo lækna í hverju. Þetta var um 1940 talin góð latína. Nú virðist Alþ. hafa fallizt á annað fyrirkomulag, að hafa héruðin smærri, svo að hægra sé að ná til læknisins. Ég fyrir mitt leyti hef hallazt frekar að því, að héruðin séu stór og séu tveir læknar. Ég held það gefi betri útkomu fyrir fólkið. En það er nú orðið svo, að fólkið í læknishéruðunum hefur heldur óskað eftir því að hafa þau minni, til þess að hægra sé að ná í lækni hvað vegalengd snertir, enda virðist Alþ. á síðustu árum vera komið út á þá braut. Nægir að minna á, að Eyrarbakkahérað var fyrir skemmstu gert að þremur læknishéruðum. Var það eitt hérað fyrir tíu árum. Þetta finnst mér fullmikil skipting, en þetta hefur Alþ. gert. Þessi stefna út af fyrir sig mælir með þessu frv.

Ég vil geta þess, að síðan frv. var prentað hafa n. borizt tvö bréf viðvíkjandi þessu máli, annað frá oddvita Vindhælishrepps, sem mælir með því, að læknishérað verði stofnað. Hitt er frá héraðslækninum á Blönduósi, sem telur fyrir sitt leyti ekki þörf á því, að nýtt hérað verði stofnað, telur, að það sé í flestum tilfellum kleift að ná til læknis á Blönduósi, segir þó í sínu bréfi, að hann vilji fyrir sitt leyti mæla með því, að Höfðakaupstaður fái aðstoðarlækni, helzt meiri hluta ársins, og ef þörf er, þá svo að segja allt árið. En þá mundi kostnaður ríkisins ekki verða miklu minni en þótt stofnað yrði læknishérað, af því að launakjör eru mjög svipuð hjá aðstoðarlækni og föstum héraðslækni. Náttúrlega er kostnaður út af fyrir sig að sjá fyrir læknisbústað í hinu nýja héraði í eitt skipti fyrir öll. Um það getur í bréfi til landlæknis, að hreppsnefndin lýsi yfir, að sænskt hús sé til á staðnum, sem muni fást til kaups á hæfilegu verði. Skal ég ekki segja, hversu vel það kann að vera lagað til þeirra hluta, en hreppsnefndin heldur þessu fram. Ef svo er, þá er ekki nema gott um það að segja.

Sem sagt, þetta nýja læknishérað verður heldur fámennt, eitthvað um 750–760 manns, en að vísu eru víða í landinu héruð, sem ekki eru fólksfleiri. Það er náttúrlega undir hælinn lagt að stofna læknishérað þar, sem mjög fátt fólk er fyrir, en það má búast við, að þarna fjölgi fólki og atvinnuvegir aukist. En þó að þessi hluti sé tekinn af Blönduóshéraði, er það samt myndarlegt hérað með um 1450 manns og er því enn með fjölmennari héruðum á landinu. Ég er því fyrir mitt leyti frekar fylgjandi því að láta frv. ganga fram. En um meðnm. mína segi ég ekki neitt, þeirra afstaða kemur fram við atkvgr. Málinu þarf ekki að vísa til n., og mæli ég með því að vísa málinu til 2. umr.