10.12.1951
Neðri deild: 39. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í C-deild Alþingistíðinda. (2496)

102. mál, skipun læknishéraða

Halldór Ásgrímsson:

Það eru aðeins örfá orð í sambandi við ræðu hv. 1. þm. Rang. — Hv. þm. upplýsti það, sem er vafalaust rétt og ég hef líka heyrt og gat um í ræðu minni, að landlæknir sé yfirleitt á móti skiptingu þessara héraða, sem hér um ræðir. Hv. þm. sagði líka eitthvað á þá leið, að Alþ. hefði 1944 verið á þessari skoðun, að réttara væri að hafa læknishéruðin stærri og færri. Ég var ekki hér á Alþ. þá, en ég efast stórkostlega um, að það hafi þá raunverulega verið viðtekin stefna Alþ. að fara þessa leið, heldur hafi þingið látið það eftir landlækni að gera a. m. k. þessa einu tilraun, sem hann mun hafa sótt allfast. Ég ætla, að þetta sé rétt, m. a. vegna þess, að sama Alþ. og samþ. að steypa saman tveimur læknishéruðum á Fljótsdalshéraði í eitt læknishérað, sem hér um ræðir, samþykkti, að öðru læknishéraði hér sunnanlands, Eyrarbakkahéraði, yrði skipt, og bendir það ekki til þess, að hæstv. Alþ. hafi haft einhverja sérstaka stefnu í þessum málum. Og enn má minna á, að það er ekki lengra síðan en 1951, að enn verður skipting á sömu læknishéruðum sunnanlands, þar sem Selfosshéraði var skipt í tvö héruð. Selfosshérað og Hveragerðishérað. Sem sagt, þó að landlæknir hafi haldið þessari stefnu fram, bendir þetta ekki til þess, að Alþ. hafi aðhyllzt þá skoðun. Og eins og hv. 1. þm. Rang. gat líka réttilega um, er ekki einu sinni heilbr: og félmn. þessarar d. heldur inni á þessari stefnu, þar sem hún leggur einmitt nú til, að einu héraði enn verði skipt í tvennt, þar sem hvort hinna nýju héraða yrði miklu eða nokkru mannfærra en hvort þeirra tveggja læknishéraða, sem um er að ræða á Fljótsdalshéraði, ef af skiptingu verður þar.

Ég tók svo eftir, að hv. þm. drægi mjög í efa þau ummæli mín, að það hefði verið mjög slitrótt læknisþjónusta á Fljótsdalshéraði undanfarin ár. Ég hef ekki aflað mér þeirra upplýsinga, að ég geti rakið, hvenær þessi eða hinn læknir var til staðar, en vísa til þess, sem ég las, þar sem fulltrúar héraðsins segja, að læknisþjónustan hafi verið þannig slitrótt að undanförnu, að í embættinu hafi setið nýútskrifaðir kandídatar, réttindalausir og kunnáttulitlir. Nú held ég, að þetta sé í öllum aðalatriðum rétt, en ég gat þess, að eftir að leið sumarið 1950, virtist tiltölulega betur á þessum málum haldið af landlækni. Þannig hefur verið mjög úrtökusöm læknisþjónusta á Héraði fram að þessu, og ég held að það hafi yfirleitt haldizt við til þessa dags, að þar hafi verið um að ræða kandídata nýkomna úr skóla, efnilega menn, en þeirra reynsla lítil eða engin í upphafi og vantaði þá nauðsynlegu þjálfun og æfingu, sem ég þarf ekki að segja þessum hv. þm. að þarf að vera til staðar, þegar um alvarlegar læknisaðgerðir er að ræða. Og þótt það geti verið gott að hafa unga lækna, — ég skal taka undir það, — þá eru íbúar Fljótsdalshéraðs ekki öðruvísi en aðrir menn, þannig að þeir óska ekki eftir því, að þeir séu hafðir fyrir einhver tilraunadýr, en reynslan hefur sýnt, að landlæknir hefur hugsað sér að hafa það þannig að gefa þeim fyrst æfingu innan þess læknishéraðs. En ef íbúar þessa héraðs fengju að halda einhverjum efnilegum ungum manni áfram, sem kæmi þangað, mundu þeir vafalaust taka á móti honum. Ég geri ráð fyrir því, að það sé rétt hjá hv. þm., að það sé æskilegt að fá unga, nýlærða og áhugasama menn, ekki sízt í þau héruð, sem eru jafnerfið til allrar læknisþjónustu og þetta hérað er.

Það má vel vera, að erfitt sé um það að dæma, hvort ástæða er fyrir þeim ótta hv. 1. þm. Rang., að þarna gæti myndazt óeðlilega hörð samkeppni milli tveggja lækna, sem sætu á Egilsstöðum og þjónuðu sinn hvorum hluta héraðsins, en ég er ekki svo mjög hræddur við það. Ég skal játa, að ég er því ekki mjög kunnugur. en ég hef ekki heyrt, að það hafi hlotizt af því nein vandræði, þó að læknir sitji í Hveragerði og annar á Selfossi, en það er ábyggilega ekki lengra á milli þeirra, með tilliti til aðstæðna. þar sem vegir eru fullfærir svo að segja allt árið, en tveggja lækna, sem sætu í Egilsstaðaþorpi og hefðu yfir að sækja jafnerfitt svæði og þar er um að ræða.

Varðandi það, að hv. 1. þm. Rang. kunni að reynast sannspár um það, að ekki líði mörg ár þangað til íbúar þessa héraðs komi aftur og biðji Alþ. að breyta þessu, þá er ábyggilegt, að íbúar þessa héraðs sætta sig ekki við þetta ástand lengur, og þarf þá að gefa þeim þann möguleika að reyna annað það, sem þeir hafa meiri trú á. Og jafnvel þótt svo færi, að ekki fengist læknir nema í annað þetta hérað, þá sé ég ekki annað en að sæti við það sama og nú er. Það er gert ráð fyrir, að lækniskandidatar þjóni vissan tíma, áður en þeir öðlast réttindi, og sé ég ekki annað en grípa megi áfram til þeirra, ef út af bæri á þessu svæði, alveg eins og verið hefur. En ég vona, að engin ástæða sé til að ætla, að ótti hv. þm. sé á rökum reistur, að það sé verr af stað farið en heima setið í þessu efni. Og það er eitt, sem víst er, að allir íbúar þessa læknishéraðs álíta það gagnstæða.