10.12.1951
Neðri deild: 39. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í C-deild Alþingistíðinda. (2497)

102. mál, skipun læknishéraða

Frsm. (Helgi Jónasson):

Ég skal ekki deila við hv. 2. þm. N-M. um þetta, en það má við því búast, að Alþ. fallist á þá skoðun, að þessa tilraun verði að gera, þó að ég persónulega væri á móti því, og ætla ég að sitja hjá við þessa atkvgr. Hv. þm. sagði, að þetta væri eindreginn vilji alls þess fólks, sem þarna býr, og býst ég við, að Alþ. vilji verða við þessum óskum, eins og það hefur gert áður í svipuðum tilfellum. En ég sný ekki aftur með það, að ég gæti búizt við því, að ekki liðu mörg ár, áður en maður heyrði frá þessu fólki, þar sem það færi fram á, að þessu yrði breytt aftur. — Hv. þm. vildi halda því fram, að ef ekki fengist læknir nema í annað héraðið, mætti alltaf fá aðstoðarlækni á sama hátt og nú. En það yrði bara ekki eins auðvelt og nú, því að nú er í l., að sjá eigi þessu fólki fyrir aðstoðarlækni, en ef þarna yrði um að ræða tvö sjálfstæð læknishéruð, þá hvíldi náttúrlega engin skylda á ríkisvaldinu um að skaffa því aðstoðarlækni.