19.01.1952
Efri deild: 65. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í C-deild Alþingistíðinda. (2505)

102. mál, skipun læknishéraða

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta var borið fram af heilbr.- og félmn. Nd. og var fyrst einungis um að skipta Blönduóshéraði í tvö héruð, Blönduóshérað með læknissetri á Blönduósi og Höfðahérað með læknissetri í Höfðakaupstað. En í meðferð málsins í Nd. var því breytt þannig, að inn í frv. voru sett fyrirmæli um að skipta Egilsstaðahéraði í tvö héruð, þ. e. Egilsstaðahérað vestra og eystra með læknissetri að Egilsstöðum fyrir bæði héruðin.

N. hefur rætt þetta mál allýtarlega á mörgum fundum og bæði við landlækni og hv. þm., sem borið höfðu fram brtt. í Nd., þ. e. haft samráð við þá, og hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að enn þá séu ýmsir agnúar á því að samþ. frv. eins og það liggur fyrir. Var landlæknir þeirrar skoðunar, að mjög margir agnúar væru á því að skipta Egilsstaðahéraði á þann hátt, sem lagt er til í frv. Alveg sérstaklega benti hann á, að allar líkur væru til þess, að byggja þyrfti þarna nýjan læknisbústað, þar sem þessi, sem nú er fyrir, er þannig útbúinn, að þar er íbúð fyrir héraðslækni, en önnur minni fyrir aðstoðarlækni. Gætu af því hlotizt ýmsir árekstrar, ef tveir héraðslæknar byggju í því húsi, eftir að búið er að skipta héraðinu, og væru á því ýmsir annmarkar að skipta héraðinu eins og gert er ráð fyrir og hafa einn læknisbústað. Taldi landlæknir, að læknisþjónustunni í þessu héraði væri miklu betur borgið með því að hafa þar aðallækni, eins og nú er, með aðstoðarlækni. Á þetta væri ekki komin full reynsla, en hann áliti, að þetta mundi vera heppilegra fyrir héraðið.

Hv. flm. brtt. hafa ekki getað fallizt á þetta og hafa fært fram allmikil rök fyrir sínu máli, en n. lítur samt sem áður svo á, að heppilegra sé, að mál þetta verði betur undirbúið en enn hefur verið gert, og vill því ekki fallast á að mæla með því, að frv. verði samþ.

Ég vil skýra frá því, að það hefur verið meginskoðun í n., að óhjákvæmilegt væri að byggja nýjan læknisbústað á Egilsstöðum, og tel ég það fyrir mitt leyti enga frágangssök út af fyrir sig. Það er að vísu nokkur kostnaður fyrir ríkissjóð og héraðsbúa, sem þeir ganga að með opnum augum. Ef svo skyldi fara. væri sjálfsagt að endurgreiða þeim þann hluta, sem þeir hafa lagt í bústaðinn á Egilsstöðum, og tel ég að þetta verði endirinn á þessu máli, að byggður verði nýr læknisbústaður. — En það, sem ég tel miklu meiri ókost nú, er það, að þegar búið er að skipta héraðinu austur frá, eins og gert er ráð fyrir í frv., þá er það raunverulega fyrst hart, ef bæði héruðin fá ekki lækni og árangurinn verður lítill annar en sá, að sá læknir, sem situr á Egilsstöðum að jafnaði, hafi 1½ laun, af því að læknir fáist ekki og læknisþjónustan þar af leiðandi lakari en í dag. Þetta verður því að athuga miklu nánar en gert hefur verið. — Sama má kannske segja í sambandi við Blönduóshérað, þar sem verið er að setja upp stórt sjúkrahús, og þarf að athuga betur en gert hefur verið, hvort ekki sé betra að hafa tvo lækna í Blönduóshéraði, þar sem þeir gætu báðir annað hinu væntanlega sjúkrahúsi og héraðinu öllu, en skipta ekki út Höfðakaupstað sem læknishéraði.

Eins og áður er sagt, telur n. því málið ekki nægilega undirbúið til þess, að hægt sé að mæla með afgreiðslu þess eins og það nú liggur fyrir. Hún telur því rétt, að málinu verði vísað frá eða afgr. með svo hljóðandi rökst. dagskrá, með leyfi hæstv. forseta:

„Í trausti þess, að ríkisstjórnin láti athuga fyrir samkomudag næsta reglulegs Alþingis, á hvern hátt bezt verði séð fyrir læknisþjónustu í Blönduóshéraði og Egilsstaðahéraði, og leggi fram frv. um það, ef nauðsyn þykir, fyrir næsta þing, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Ég held, að það sé raunverulega það minnsta, sem hægt er að krefjast í sambandi við slíkt mál og hér er um að ræða, að fullt samkomulag sé við héraðsbúa, bæði þá, sem búa í því nýja héraði, og eins við þá lækna, sem gegna héruðunum, og að síðustu við heilbrigðisyfirvöldin, áður en tekin er ákvörðun um að skipta héraðinu, nema alveg brýna nauðsyn beri til. Og það er með tilliti til þess, að n. leggur til, að málið verði afgr. eins og þegar hefur verið lýst.