19.01.1952
Efri deild: 65. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í C-deild Alþingistíðinda. (2507)

102. mál, skipun læknishéraða

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Þegar ég sé þessa rökst. dagskrá, finnst mér vera ástæða til að spyrja, hver hafi orðið niðurstaða þeirrar n., sem skipuð var fyrir 6 árum til þess að athuga þetta mál. Eins og þeir þm. muna, sem voru hér á þingi 1944, var þetta þá eitt af heitustu deilumálum þingsins, þ. e. breyt. á læknaskipuninni, og þá komu hér fram mjög andstæðar stefnur. Annars vegar voru menn, sem vildu fjölga læknum og gera læknishéruðin smærri, en hins vegar voru menn, sem héldu því fram, að vegna bættra samgangna ættu læknar að vera færri, en í stað þess ætti að koma upp sjúkrahúsum í helztu héruðunum og þar ættu að vera tveir læknar, þá væru sjúkrahúsin aldrei læknislaus og þá gætu þeir eins vel þjónað héruðunum, þó að þau væru allt að helmingi stærri en áður hafði verið, er samgöngur voru slæmar. — Þingið var ekki sammála um þetta, og eins og gengur blönduðust inn í þetta ýmis persónuleg sjónarmið hjá ýmsum mönnum, sem leiddi til þess, að sama þingið samþ. hvort tveggja, þ. e. að láta sums staðar vera tvo lækna, en fjölga þeim sums staðar og gera læknishéruðin smærri. Í þessum umr. kom fram þáltill. frá hy. 4. þm. Reykv. (HG), sem ég man ekki númerið á þá, þar sem ákveðið var að kjósa n. til að athuga, hvað heppilegast væri að gera til frambúðar, — hvort hníga ætti að þeirri breyt. að hafa læknishéruðin nokkuð stór og hafa sjúkrahús í þeim og tvo lækna í hverju héraði eða hafa þau fleiri og hafa sjúkrahús í Reykjavík og á Akureyri. Síðan hefur Alþ. tvístigið í þessu máli, búið til sjúkrahús hingað og þangað, þar sem er aðeins einn læknir, sem getur ekkert hreyft sig frá sjúkrahúsinu. Það hefur Alþ. gert, og um leið hefur það á öðrum stöðum klofið héruð, sem engin ástæða var til að kljúfa, ef halda ætti þeirri stefnu að hafa héruðin stór.

Ég hef sem sagt aldrei fengið að heyra neitt frá þessari n. Og nú þegar þetta átakamál kemur í þingið í sömu mynd og áður, þar sem talað er um að kljúfa Blönduóshérað þannig, að aðeins verði um það bil 30 km á milli læknanna, eða tæpur þriðjungur af þeirri leið, sem læknirinn á Egilsstöðum þarf að fara til þess að vitja sinna. sjúklinga, — þá væri gott að fá að heyra eitthvað frá þessari nefnd. N., sem á um þetta að fjalla, hefur ekki fengið neinar leiðbeiningar frá þessari mþn., sem skipuð var til þess að athuga, hvað gera ætti í málinu. En sýnilega hefur hún ekki treyst sér til að taka ákvörðun um það, og skal ég ekki lá henni það, því að nú á ríkisstj. að gera það. En ég vil sem sagt heyra um árangurinn af starfi þessarar mþn., sem er nú búin að starfa í 6 ár.