22.01.1952
Neðri deild: 68. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í C-deild Alþingistíðinda. (2517)

10. mál, atvinnuleysistryggingar

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Þetta frv. er borið fram á fyrstu dögum þingsins. Ég get verið þakklátur báðum frsm. minni hl., þótt deilt sé um fyrirkomulag. En það, sem ég vildi taka fram, er, að það virðist ekki vera vilji eða skilningur hjá meiri hl. Alþ. um, að þetta sé neitt nauðsynjamál, og útkoman á till. meiri hl. n. hlýtur alveg að markast af þeirri hugmynd og þeirri stefnu, þar sem þeir komast að þeirri niðurstöðu að vísa þessu máli til ríkisstj. eftir allar þær göngur, sem atvinnuleysingjarnir eru búnir að gera til hennar, eftir allt það vandræðaástand, sem enginn neitar að sé bæði hér í Reykjavík og víða í öðrum kaupstöðum. Eftir þessari till. verður að líta svo á að meiri hl. Alþ. álíti ekki atvinnuleysið þjóðfélagsmein.

Árið 1932 lenti ég í því að verða dæmdur af dómstólunum fyrir það að vera með óspektir á bæjarstjórnarfundi, þegar atvinnuleysið gekk svo langt, að hungrið var farið að sverfa að. Ég man eftir því, að ég var fyrir rétti hjá virðulegum embættismanni hér í Reykjavík og hann sagði við mig: „Ekkert skil ég í yður, Sigurður, með 6 börn að fara að berjast og kannske verða drepinn“. En hann hugsaði ekki um það, að þegar svo er komið, að fólkið sveltur heima, þá vill maður fara og berjast, jafnvel þótt það kosti limlestingar eða jafnvel lífið. Þessu virðist Alþ. sljótt fyrir, og ég hugsa, að það sé svo um marga eins og þennan mann, að ef þeir eru sæmilega brauðfæddir, þá gera þeir sér ekki grein fyrir hugsunum annarra, sem hafa ekkert til að lifa af. Nú má nærri geta, hvernig ástandið er í Reykjavík hjá mönnum, sem hafa kannske ekki haft vinnu í 1–2 mánuði, þó að þeir fái þó vinnu í 1–2 daga. En hvað fá þeir þá útborgað, ef þeir fá 1–2 daga? Þeir fá annaðhvort skattreikning frá tollstjóra eða útsvarsreikning frá bæjarstjórninni, það er það, sem þeir eiga að fæða börnin á.

Mér finnst þessu máli tekið með alvöruleysi hér á hæstv. Alþ., þrátt fyrir það að fjöldi verkalýðsfélaga hafi skorað á Alþ. samþ. það. Eftir því, sem hv. frsm. meiri hl. sagði, þá hefur verið leitað umsagnar þriggja aðila: „Alþýðusambandsins, sem svaraði jákvætt, Tryggingastofnunarinnar og atvinnurekendafélagsins, sem segir, að þetta sé ekki hægt vegna þess, hvernig atvinnuvegirnir beri sig. Þetta er út af fyrir sig ekki neitt nýtt. Atvinnurekendur hafa aldrei sagt, að þeir gætu borgað fólkinu kaup. Í hvert skipti sem barizt hefur verið fyrir hagsmunamálum fólksins, þá hafa þeir sagt: Atvinnuvegirnir þola þetta ekki. — Það er ákaflega einkennilegt fyrirbrigði í einu þjóðfélagi, að þegar menn sjá sér hag í því að láta mennina vinna og fá arð af því, þá eru þeir látnir vinna, en ef þeir hafa ekki arð af því, þá láta þeir þá hætta. Þessir menn eru búnir að byggja upp allt, sem liggur eftir verkamenn hér í bæ, húsin og öll þægindin, og svo þegar það er búið, þá er bara sagt: Nú hættið þið, það er engin vinna til, — og þeir geta ekki séð fyrir mat handa börnunum eða öðrum. Það sagði ungur verkamaður á fundi í Dagsbrún, að þegar hann var að alast upp á atvinnuleysistímunum 1930–40, þá hefðu matgjafirnar í skólunum bjargað hans heimili frá spítala, og hann óskaði ekki þeirri kynslóð, sem nú er að alast upp, að komast í þá aðstöðu að fá ekki að vinna fyrir sínu brauði. Ég er viss um, að dýpsta þrá þessara manna er að geta unnið fyrir sér og sínum, og þeir, sem leggja fram alla orku sína til að viðhalda þessu þjóðfélagi, þeir eiga heimtingu á. að þeir þurfi ekki að svelta sjálfa sig og börn sín þegar ráðamönnum þjóðfélagsins þóknast að hætta að reka þjóðfélagið og koma á atvinnuleysi. Þessir menn eiga heimtingu á, að eitthvað sé lagt til hliðar, til þess að þeir geti dregið fram lífið, með því að hafa atvinnuleysistryggingar, og ég er sannfærður um, að það rétta í því er, að verkalýðsfélögin hafi með þetta að gera.

Ég er óánægður með afgreiðslu meiri hl. á þessu máli og tel, að Alþ. hafi tekið það mjög lausum tökum, miðað við það, hver vá er fyrir dyrum hjá verkamönnum hér í Reykjavík og víða annars staðar á landinu.