04.10.1951
Neðri deild: 3. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í C-deild Alþingistíðinda. (2523)

4. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Viðskmrh. (Björn (Ólafsson):

Herra forseti. Þau l., sem nú eru í gildi um fuglaveiðar og fuglafriðun, eru mjög ófullkomin, og hefur þess vegna verið hafizt handa um það að semja fullkomnari l., sem þá gætu verið í samræmi við alþjóðasamþykktir um þessi mál. Ísland hefur verið aðili að alþjóðasamtökum um fuglafriðun. og árið 1948 skipaði þáverandi menntmrh. nefnd. sem skyldi koma fram fyrir landsins hönd gagnvart sambandinu um þessi mál. Þetta sama ár endurskoðaði svo þessi n. lög um friðun fugla og eggja. N. þessi hefur nú lokið störfum, og árangurinn af störfum hennar er frv. það, sem hér liggur fyrir.

Alþjóðasamþykktir um friðun fugla voru fyrst settar árið 1902, en þær samþykktir eru nú fyrir löngu úreltar. Þegar alþjóðafuglaverndarsambandið var stofnað, árið 1922, voru þessar samþykktir endurskoðaðar, og nú hafa ríkisstj. verið send tilmæli um aðild Íslands að alþjóðasamþykktinni, og með tilliti til aðildar Íslands að þessum samþykktum er þetta frv. samið.

Ég ætla ekki að fara út í einstök atriði frv. Ég er málinu ekki nægilega kunnugur, og frv. þetta er umfangsmikið. Mér finnst líklegt, að þau atriði, sem einkum kunna að valda ágreiningi, séu, hvaða fuglar skuli friðaðir og hversu lengi á ári hverju, hverjir skuli alfriðaðir og hverjir ekki. Þetta eru atriði, sem að mörgu leyti geta verið álitamál, og mun svo hafa verið, er nefndin samdi þetta frv.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta mál, en óska þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og menntmn. að þessari umr. lokinni.