29.10.1951
Neðri deild: 19. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í C-deild Alþingistíðinda. (2529)

29. mál, gengisskráningu, launabreytingar, stóreignaskatt, framleiðslugj. o.fl.

Frsm. (Sigurður Ágústsson):

Herra forseti. Frv. það á þskj. 31, sem hér er til meðferðar, er samhljóða brbl. frá 16. júní s. l. um breyt. á löggjöf um þetta efni frá 28. des. 1950, þar sem ákveðið er að taka 8% gjald af síldarafurðum, og skyldi það miðað við útflutningsverðmæti síldarafurða. Allmiklar umkvartanir hafa komið fram vegna þessa ákvæðis l., sérstaklega fyrir það, að framleiðslugjaldið af þeirri síld, sem fer til söltunar, er miklu hærra en á síld, sem fer til bræðslu, og var óttazt, að það misræmi mundi draga úr eðlilegri síldarsöltun. — Brbl. frá í sumar ákveða, að framleiðslugjaldið, miðað við fersksíldarverðið, skuli vera hið sama, eða 8%. Ef afli skipanna næði ekki 6000 málum að meðaltali, átti gjaldið allt að undantekinni beitusíldinni að endurgreiðast útgerðarmönnum og sjómönnum, um leið og veiðitímanum er lokið. Ef sumarafli næmi meira en 6000 málum, átti gjaldið að innheimtast og renna allt til síldardeildar hlutatryggingasjóðs bátaútvegsins. Því miður varð síldaraflinn það lélegur s. l. sumar, að hann náði ekki aflamagninu 6000 mál að meðaltali á skip. Fékk því síldardeild hlutatryggingasjóðs bátaútvegsins engar tekjur í sambandi við framleiðslugjaldið, nema það litla, sem kann að fást fyrir beitusíld. Með ákvörðuninni um að láta framleiðslugjaldið renna til síldardeildar hlutatryggingasjóðs er gerð lofsverð tilraun til þess að afla þessum sjóði tekna tvær undanfarnar vertíðir, 1950–1951, en því miður hafa þær verið það lélegar, að sjóðurinn hefur sama og engar tekjur öðlazt fyrir framleiðslugjald af síldarafurðum.

Því er ekki að neita, að þetta er mjög alvarlegt ástand. Það er nýlokið skuldaskilum fyrir bátaflotann, og má fullyrða, að síldarvertíðin fyrir Norðurlandi í sumar hefur verið það örðug, í rauninni fyrir allan fjölda síldveiðiskipanna, að það má fullyrða, að það er full þörf fyrir ný skuldaskil. Mér er ljóst, og ég veit að svo muni fleiri þm. einnig vera, að það verður eitthvað að gera til þess að tryggja áframhaldandi rekstur bátaflotans, en það kemur ekki beint við því frv., sem hér er til meðferðar. En þó vil ég láta hv: d. vita um mína skoðun í þessu efni, enda veit ég, að flestum hv. þm. er fullkomlega ljós sú mikla þörf, sem er á að tryggja, að bátaflotinn geti byrjað vetrarvertíðina með fullum afköstum. En eins og nú er í pottinn þúið hjá flestum útgerðarmönnum, þá má fullyrða, að það er tæplega hægt að gera sér vonir um, að helmingur bátaflotans geti byrjað vertíð á eðlilegum tíma eftir áramótin. — Eins og fram er tekið í nál. sjútvn. á þskj. 126, þá leggur n. einróma til, að þetta frv. verði samþ.