06.11.1951
Neðri deild: 23. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í B-deild Alþingistíðinda. (255)

2. mál, gengisskráning, launabreytingar, stóreignarskattur, framleiðslugj. o. fl.

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Mig undraði stórlega þessi ræða hv. 3. landsk. Hann fagnar því, að einn af mikilsvirtustu þm. Alþ. skuli hafa borið fram hér till. um lækkun á launum opinberra starfsmanna. Það undrar mig stórlega, að hann skuli fagna þessu. Hver er það, sem fagnar? Er það ekki sá, sem segist bera hag launþeganna fyrir brjósti? Ég get ekki skilið, að þessi barátta forseta Sþ. sé fagnaðarefni fyrir hann. (GÞG: Það er hreinskilnin, sem ég fagna.) Hins vegar getur þetta verið fagnaðarefni fyrir þann, sem vill nota sér það til pólitísks framdráttar fyrir sig og sinn flokk.

Það er misskilningur hjá hv. þm. A-Húnv., að þessi stétt sé betur sett en aðrar stéttir. Þetta eru flest menn, sem hafa kostað sig til langs náms, en hafa samt ekki betri kjör en aðrar stéttir. Annars undrar mig stórum þessi ummæli hv. 3. landsk. þm. Ég get naumast skilið þau, en hans innri mann hef ég að vísu ekki skoðað. Ég viðurkenni það fúslega, að það er mikil hætta á ferðum, en ég get ekki fallizt á, að níðzt sé á þessari einu stétt, vegna þess að hún búi við svo æskileg kjör. Ég vil ekki, að þessi árás á opinbera starfsmenn, sem fram kom í till. forseta Sþ., lendi á fjmrh. Ég stóð hér upp til þess að vísa sök af höndum okkar ráðh. Sjálfstfl., við stöndum allir einhuga um að samþykkja frv. stj., og til þess að láta í ljós undrun mína yfir hinum ágæta pólitíska andstæðingi mínum