15.01.1952
Efri deild: 59. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í C-deild Alþingistíðinda. (2557)

131. mál, prófesorsembætti í læknadeild Háskóla Íslands

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég verð að segja, að mér finnst gegna furðu, að hæstv. menntmrh. fullyrðir, að rn. sé ekki meðmælt því, að þetta embætti sé stofnað. Ég held, að það liggi ómótmælanlega skjallegar sannanir fyrir því, að hæstv. heilbrmrh. sé þessu meðmæltur. Ég tek hanzkann á lofti og segi, að hér sé um að ræða embættisskipun, sem varðar heilbrigðismál. Ég met meira það, sem heilbrmrh. leggur til, en það, sem menntmrh. leggur til, með allri virðingu fyrir hæstv. menntmrh. Það virðist hafa komið greinilega fram, að heilbrmrh. mæli með þessu og landlæknir er þessu samþ. Það liggur hvergi fyrir í þessu, hvað háskólinn metur mest, en það liggur fyrir, að læknadeildin mælir með þessu. Þegar talað er um að stofna þetta embætti, vil ég benda á, að hæstv. heilbrmrh. og landlæknir hafa fyrir augum, að yfirlæknir röntgendeildar landsspítalans verði gerður að prófessor og þar af leiðandi leggist á hann meiri kennsluskylda. Stjórn Krabbameinsfélagsins segir, að kostnaðurinn við þetta verði aldrei meiri en 10 þús. kr. fyrir ríkissjóð. Það má ekki skoða þetta þannig, að hér sé verið að bæta við nýjum embættismanni, því að honum er til að dreifa í háskólanum. Það, sem hér liggur fyrir, er að gera kennslu í röntgenfræðum og geislalækningum og varnir gegn krabbameini öflugri en þær eru og gefa þeim manni, sem er efstur á baugi í þessum málum, sama titil og aðstöðu og öðrum yfirlæknum við landsspítalann. Þetta vex hæstv. menntmrh. svo í augum, að hann fær eftirþanka um, að hér sé verið að stofna nýtt embætti. Þessi sami maður ber svo fram frv. um að stofna 8–10 Akademíuembætti. Með allri virðingu fyrir hæstv. ríkisstj. og hæstv. ráðh. virðist mér líta út eins og hæstv. ráðh. hafi tekið í sig að vera á móti því, að þetta prófessorsembætti í röntgenfræðum verði stofnað. Svo segir hann án skýringar, að það sé í athugun að auka kennslu í þessum efnum. Það getur verið, en væri ekki eðlilegra að fara beinar brautir í þessum efnum? Eins og lyflækniskennslan er í höndum prófessors í handlækningum væri eðlilegt, að kennsla í röntgen- og geislalækningum væri í höndum þess manns, sem fremstur er í þeim efnum.

Það hefur hlaupið einhver mótþrói í hæstv. ráðh. við, að honum er sýnt fram á nauðsyn þessa máls. Það er undarlegt og ætti að verka öfugt. Hér hefur bætzt við Alfreð Gíslason læknir, sem mælir með þessu og það stranglega. En þetta verður allt að hjómi í augum hæstv. menntmrh., sem þykist vita allt betur í þessu efni en heilbrmrh., landlæknir, stjórn Krabbameinsfélagsins og jafnvel háskólinn sjálfur.

Ég sé, að klukkan er orðin 4, og vill því forseti sjálfsagt slíta fundi. — En ég endurtek það, sem ég hef sagt, að ég fel þessa till. menntmn. til athugunar, ef hún vildi gera svo vel að athuga þetta milli umr. Vænti ég þess, að hún virði ekki minn málflutning í þessu máli, heldur þann málstað, sem hér er barizt fyrir, svo mikils, að hún sjái sér fært að mæla með till.