17.01.1952
Efri deild: 60. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í C-deild Alþingistíðinda. (2568)

131. mál, prófesorsembætti í læknadeild Háskóla Íslands

Jóhann Jósefsson:

Ég skal, herra forseti, gæta þess að hafa aths. stutta, en mér þykir einkennilegt, að tveir ráðherrar skuli ganga gersamlega fram hjá þeim rökum, sem fram eru talin frá hálfu svo ábyrgra aðila sem hér er um að ræða, og þeirra á meðal eru heilbrmrh. og landlæknir, sem ég er búinn að benda á, að eru þessu meðmæltir, enda liggur bréf fyrir frá ráðh. Ég þarf varla að minna enn á bréf frá stjórn Krabbameinsfélagsins. Hæstv. ráðh. sagðist hafa verið til viðtals um það að auka kennslu í geislalækningafræði og greiningu sjúkdóma samkvæmt þeirri fræðigrein, en að hafa prófessor til þess starfs, um það virðist hann ekki hafa verið til viðtals. Það las ég úr orðum hans. Við skulum hugsa okkur, að þegar stofna átti prófessorsembætti í lyflækningum og handlækningum hér við háskólann, þá hefði þessi hæstv. ráðh. setið í sama stóli og haft sömu svör. Það er ekki víst, að allir hefðu sætt sig við það. Það er einkennilegt að vilja auka kennslu í þessum efnum, sem hér um ræðir, en vilja ekki nota hæfustu kraftana, sem þetta fátæka land hefur yfir að ráða, heldur halda slíkum mönnum niðri, sem mest hafa lagt sig eftir þessari þekkingu og eru hæfastir til að kenna.

Ein er sú umsögn, sem ég hef ekki vitnað til, sem er frá rektor háskólans, dags. 28. sept. 1951. Hún snertir læknadeildina. Bréfið er til menntmrh., og þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég hef, hæstv. ráðherra, sent læknadeild bréf yðar, dags. 15. þ. m., um stofnun prófessorsembættis í röntgenfræðum. Hefur deildin af því tilefni gert svofellda ályktun, er ég leyfi mér að senda yður samkvæmt ósk deildarinnar:

Með því að læknadeild hafði þegar tekið afstöðu til og mælt með stofnun prófessorsembættis í röntgenfræðum, sbr. bréf menntamálaráðuneytisins til háskólaráðs, dags. 28. marz 1951, og bréf háskólarektors til ráðuneytisins, dags. 7. maí 1951, leit hún svo á, að bréf menntamálaráðherra til rektors, dags. 12. júlí 1951, varðaði ekki stofnun umrædds embættis sérstaklega, þannig að fyrir lægi að gera ályktun um það að nýju.

Vill deildin því nú til áréttingar, að gefnu tilefni, taka það fram, að hún telur ekki æskilegt né heldur eðlilegt, eins og málið horfir við, að frestað sé að stofna prófessorsembætti í röntgenfræðum.“

Bréfið er svo undirskrifað af rektor, Alexander Jóhannessyni. (Viðskmrh.: Vill ekki þingmaðurinn lesa upp fyrra bréfið?) Ég hef ekki vitnað til þessa bréfs, en álit rétt, að það komi fram, því ef það sýnir nokkuð, þá sýnir það einkennilegan skoðanaþroska hjá hæstv. menntmrh. í þessu sérstaka máli.

Ég get því miður ekki svarað spurningu þeirri. sem hv. þm. N-M. lagði fyrir mig. En ef hann kynnir sér bréf Krabbameinsfélagsins, dags. 28. des. 1951, þá sér hann, hvað það félag álitur að fært sé að kenna læknum.