12.10.1951
Neðri deild: 11. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í C-deild Alþingistíðinda. (2575)

7. mál, hvíldartími háseta á íslenskum botnvörpuskipum

Flm. (Sigurður Guðnason):

Herra forseti. Það þykir kannske undarlegt, að tvö frv. skuli koma hér fram um sama efni, en ég hef flutt sams konar frv. undanfarin ár, og hefur það átt litlum skilningi að fagna í þinginu og varla fengizt rætt. Ég verð því að lýsa ánægju minni yfir þeim áhuga, sem nú kemur fram hjá hv. 8. landsk. fyrir þessu máli, og lít svo á, að það sé vottur þess, að hann vilji nú bæta fyrir það, sem hann áður lét ógert, er hann hafði meira vald en nú til þess að vinna frv. gagn.

Þetta mál á sér langa sögu, og það er eftirtektarvert, að Alþ. skuli ekki hafa fjallað um hvíldartíma annarra manna en togarasjómanna. Það sýnir bezt, hvað þrælkunin hefur gengið langt, en hún á að nokkru leyti rætur sínar að rekja til þess, að atvinnuhættirnir á sjónum eru ekki í eins föstum skorðum og í landi, og þegar hinir stórvirku togarar komu til sögunnar, var verið að meðan afli gafst. Ég vil taka það fram, að ég hygg, að tómlæti Alþ. um þetta mál hafi átt mestan þátt í vinnustöðvunum og deilum sjómanna og togaraútgerðarmanna undanfarin ár. Það er því nauðsynlegt, að Alþ. leysi þetta mál einmitt nú, þar sem samningum hefur verið sagt upp. Í því sambandi er vert að minnast þess, að síðast þegar samið var, voru vökulögin aðalágreiningsmálið, en fjöldi sjómanna telur, að fyrir þá 12 stunda hvíld á saltfisksveiðum, sem þá var samið um, hafi þeir orðið að greiða með rýrari hlut en áður. Afköstin af togurunum hafa aldrei verið meiri en í þeim Grænlandsleiðangrum, sem togararnir hafa farið í, eftir að þessir samningar voru gerðir. Skipin hafa komið með meiri afla en áður eru dæmi til, en hlutfallslega hafa sjómenn aldrei borið eins lítið úr býtum. Síðan togararnir fóru að fara í þessa löngu túra, sem taka kannske fleiri mánuði, er ekki nema eðlilegt, að sjómenn spyrji, hvaða ástæða sé til þess, að þeir hlíti ekki sömu kjörum og verkafólk í landi. Það er viðurkennt, að togarasjómennirnir eru úrval af harðgerðustu mönnum þjóðfélagsins. Dettur nokkrum í hug, að þessir menn muni sætta sig við það til lengdar að búa við lakari kjör en aðrir þegnar þjóðfélagsins? Ég er sannfærður um, að þeir láta ekki bjóða sér það, og ég tel, að þetta sé meira hagsmunamál fyrir þjóðfélagið í heild en svo, að Alþ. geti hunzað það, eins og hingað til hefur verið gert.

Nú er það viðurkennt af þeim, sem til þekkja, að vinnuafköst á skipunum verða meiri með því að menn fái að hvíla sig 6 tíma en að vinna 16 tíma. Þar fyrir utan, sem er mikið atriði í þessu máli, þá þýðir ekki að ætla unglingum í misjöfnu veðri að standa 16 tíma á dekki; það verður til þess, að margir af þessum mönnum gefast upp við þetta. En ef maðurinn veit, að hvíldin kemur eftir stuttan tíma, þá harðnar hann við það miklu fremur en ef hann veit, að hann verður að vinna svona langan tíma. Nú er það svo, að margir af duglegustu sjómönnunum eru að yfirgefa sjómannastéttina og fara í vinnu annars staðar, því að þeir sjá, að þeir verða að leggja miklu harðar að sér á sjónum en við aðra vinnu og fá ekki eins vel borgað.

Eins og ég tók fram áðan, hefur frv. um sama efni legið fyrir undanförnum þingum, en verið vísað frá með þeim rökum, að sjómönnum og atvinnurekendum beri að semja um þetta. En ég er sannfærður um það, að ef Alþ. tekur ekki rögg á sig og gengur frá þessu máli, þá vinna sjómenn sigur í þessu máli eða fá þessa hvíld. Það getur verið, að þeir verði að fórna meiru fyrir það, og þá fara þeir ef til vill að hugsa um það, hvaða ástæða sé til þess að vinna fyrir sömu eða lægri launum en í landi. Ég býst við, að sjómenn fari nú að verða langþreyttir á að láta þetta mál koma til Alþ., þegar þeir sjá, að héðan er ekki neins að vænta, ef það endurtekur sig einnig í þetta sinn. — Ég vil svo vænta þess, að þessu máli verði vísað til hv. sjútvn. að lokinni umr.