23.10.1951
Neðri deild: 17. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í C-deild Alþingistíðinda. (2591)

8. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdóm

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Heiðruðu hlustendur. Hv. 2. þm.-Rang. las hér upp tölur áðan um vöxt dýrtíðarinnar. En af hverju tók hv. þm. bara tölur frá desember 1950? Var hann að reyna að forðast að minnast á heimsmetið? Ég held, að það sé óþarfi fyrir hv. þm. að vera svona feiminn, öll þjóðin veit, að núv. ríkisstj. á heimsmet í dýrtíð 1950 og það hefur verið auglýst út um allan heim með skýrslu Sameinuðu þjóðanna.

Hv. þm. talaði um sementsverksmiðju og var að gefa fólkinu góðar vonir um það fyrirtæki, en hann gleymdi að geta þess, að þegar Eysteinn var að biðja um peninga í verksmiðjuna í Ameríku, þá var honum sagt með fínum orðum að snáfa heim og sýna sig ekki aftur í 2 ár, og hver veit, hvað þá verður?

Eitt helzta flotholt núverandi stjórnarflokka er að halda því fram, að núverandi ófremdarástand sé betra en ástandið hjá fyrrv. stj. Alþfl. Munið þið ekki biðraðirnar, munið þið ekki svarta markaðinn og klíkuskapinn í úthlutun innflutningsleyfa, skömmtunarfarganið o. s. frv.? Þetta er lágt lotið af núverandi stjórnarflokkum. Voru þetta ekki allt verk þeirra sjálfra líka? En nú þykir þeim gott að benda á þetta til að draga huga manna frá óstjórn þeirra nú.

Hæstv. viðskmrh. talaði ekki aftur, eins og ég hafði búizt við. En ég lofaði því að lesa upp þá gr. í l. um fjárhagsráð, sem ég álít að hann hafi þverbrotið með bátagjaldeyrisleyfunum, en fjárhagsráð lætur nú gefa út gjaldeyrisleyfi, og þessi leyfi eru seld að tilhlutun fjárhagsráðs með 25–60% álagi. Fjárhagsráð hefur hins vegar eftir fjárhagsráðsl. heimild til 2% álagningar á gjaldeyrisleyfi. Fjárhagsráð lætur þess vegna taka 25–60% í leyfisleysi. En gr., sem fjallar um það, hvernig fjárhagsráð skuli úthluta leyfum, hljóðar svo (það er í 12. gr.):

„Sé úthlutun leyfanna við það miðuð. að verzlunarkostnaður og gjaldeyriseyðsla verði sem minnst. Reynt verði, eftir því sem frekast er unnt, að láta þá sitja fyrir innflutningsleyfum, sem bezt og hagkvæmust innkaup gera og sýna fram á, að þeir selji vörur sínar ódýrast í landinu. Skal þetta gilda jafnt um kaupmannaverzlanir og samvinnuverzlanir og miðað við það, að neytendur geti haft viðskipti sín þar, sem þeir telja sér hagkvæmast að verzla.“

Svo hljóðar þessi lagabókstafur, og hvert einasta atriði hans hefur verið þverbrotið af hæstv. ríkisstj. En hér er einstakt tækifæri fyrir ríkisstj. til að lýsa yfir á Alþ., við hvað í l. bátagjaldeyririnn styðst. Það er ekki nóg að auglýsa í Lögbirtingablaðinu skilorðsbundinn frílista, sem í rauninni er ekkert annað en skilyrðislaus einokunarlisti.

Ég verð að segja það, að hæstv. fjmrh. er einhver sá kaldasti — svo að maður noti orð úr Reykjavíkurmálinu — maður, sem ég hef þekkt í því að staðhæfa staðleysur. Hann sagði t. d. hér í d. í dag, að það væri nóg vinna á Íslandi. Ég beini því hér með til allra þeirra, sem nú þjást undir atvinnuleysinu, að snúa sér til þessa hæstv. ráðh. og láta hann standa við orð sín. Undrar nú nokkurn, þó að maður eins og þessi hæstv. ráðh., sem staðhæfir annað eins og það, að ekkert atvinnuleysi sé til á Íslandi, hafi brjóstheilindi til að staðhæfa, að lögleysur séu löglegar og einokun sé frjáls verzlun?

En sagan um meðferð ríkisstj. á bátaútvegsgjaldeyrinum var ekki nema hálfsögð hjá mér áðan. Eftir var sú hliðin, sem að útflutningnum snýr. Með hinu löglausa okri á bátaútvegsgjaldeyrinum er ríkisstj. að verðlauna það að selja freðfiskinn sem ódýrast úr landinu. Ríkisstj. beinlínis lætur selja freðfiskinn til Englands fyrir 30% undir framleiðslukostnaði og hindrar eftir mætti, að hann sé seldur á fullu framleiðsluverði og yfir það til annarra landa á meginlandinu. En ríkisstj. virðist ekkert hafa við það að athuga, að hennar ensku viðskiptavinir selji síðan okkar freðfisk á verði, sem samsvarar framleiðsluverði, til meginlandsins. Og þannig er hinn enski einokunarhringur, sem kaupir allan freðfiskinn til Englands, gerður að millilið til að græða á sölu íslenzka freðfisksins til Mið-Evrópu. En íslenzkir neytendur eru síðan látnir borga 60% aukaálagningu og okurgróða ofan á hana á vissum vörutegundum til þess að bæta bátaútvegsmönnum upp tjónið á viðskiptunum við brezka einokunarhringinn. En þjóðfélagið í heild tapar milljónum króna í erlendum gjaldeyri við þessar ráðstafanir ríkisstj. í þágu erlends einokunarhrings. Svona eru ráðstafanir ríkisstj., hvert sem litið er.

Hv. þm. Hafnf. kvartaði undan ádeilu minni á Alþfl. Alþfl. á vissulega bágt í því lýðskrumi, sem hann nú beitir. Alþfl. er samábyrgur um Marshallsamninginn og það alræði harðsvíraðs peningavalds, sem þar með hefur verið leitt yfir Íslendinga og kemur m. a. fram í bæði gengislækkuninni og bátaútvegsgjaldeyrinum, sem hvort tveggja er framkvæmt með sérstökum samningum við voldugar peningastofnanir í Ameríku. Alþfl. sleppir engu tækifæri til að lýsa samábyrgð sinni á Marshallfjötrunum. En hann vill fá að hamast í sárindin, sem þjóðin hlýtur af þeim fjötrum, og hann afneitar af öllu hjarta aðeins einu: samstarfi verkalýðsins og allrar alþýðu gegn íhaldi og Framsókn til að velta dýrtíðinni af sér. Er mögulegt að taka baráttu slíks flokks gegn íhaldi og Framsókn alvarlega, þegar hann samtímis lýsir því yfir, að með engum öðrum flokkum en íhaldi og Framsókn vilji hann vinna gegn dýrtíð, gegn kaupráni, gegn atvinnuleysi? Alþfl. verður að fyrirgefa, þó að við sósíalistar heimtum það af honum, að hann sýni sinn baráttuvilja gegn íhaldi og Framsókn ekki aðeins í orði, heldur líka í verki. Honum má vera það ljóst, að það er því óhjákvæmilegra, að alþýðan standi saman, þegar að völdum situr sú ófyrirleitnasta lögbrota- og fjárglæfraklíka, sem nokkurn tíma hefur arðrænt þessa þjóð, og eru þá einokunarherrar á borð við hörmangarana ekki undanskildir. Hins vegar er nú — þakkað veri því, að atvinnulíf vort er nú fjölskrúðugra og tækni afkastameiri — af meiru að taka hjá almenningi, svo að þessi einokunarklíka hefur enn ekki komið þjóðinni niður á hungurstigið, nema í nokkrum þorpum á landinu, þar sem við liggur, að fólk svelti, þó að hæstv. viðskmrh. þykist ekkert um það vita. Eigi að stöðva þessa óheillavænlegu þróun, veitir ekki af, að allir, sem eru henni andvígir, taki höndum saman þrátt fyrir misjafnar skoðanir á misjöfnum málum.

Hv. þm. V-Húnv. talaði um samvinnuverzlunina og ráðleggur Íslendingum að einbeita sér á hana, eins og þeir forfeður vorir gömlu, er hófu samvinnuhreyfinguna. En má ég minna Skúla á, að eitt af því, sem samvinnumenn þá byrjuðu á, var að flytja út sauði sína og kaupa í staðinn vörur frá Englandi? Hvernig er frelsið til að selja og kaupa þannig nú? Það er bannað að flytja út, nema með leyfi stjórnarvalda í Reykjavík. Það er bannað að flytja inn, nema með leyfi stjórnar- og bankavalda í Reykjavík. Það er alger einokun nokkurra fjármáladrottna og skriffinna í Reykjavík á útflutningi og innflutningi. Þessa einokun verður að brjóta, ef þróun samvinnuhreyfingarinnar á að vera möguleg. Og hvers vegna heldur ríkisstj. Framsóknar áfram þessari einokun og hindrar þannig frjálsa þróun samvinnuhreyfingarinnar? Það væri sannarlega fróðlegt fyrir landsfólkið að heyra, hvers vegna ríkisstjórn Framsóknar viðheldur þessari einokun á innflutningi og útflutningi. Ég spyr hv. þm. V-Húnv. að því einu sinni enn og skora á hann að svara.

Í baráttu alþýðunnar við dýrtíðina getur þetta frv. aldrei orðið nema lítill liður, þó að vel tækist til með framkvæmd þess. En það horfir vissulega ekki vænlega að koma fram nokkrum endurbótum á þessu máli né nokkrum öðrum góðum málum á Alþ. yfirleitt. Samsæri íhalds og Framsóknar gegn fólkinu í landinu er það sterkt á Alþ., að öll góð mál eru drepin og hinum slæmu síðan komið fram með brbl. milli þinga. Og það vil ég segja við ykkur í alvöru, hv. hlustendur, að það dugir lítið að bölva ríkisstj. eins og henni nú er bölvað á hverju götuhorni í Reykjavík og fara svo og kjósa íhald og Framsókn við næstu kosningar. Slíkt væri að kjósa þann vönd, sem maður er hýddur með. Höfuðbarátta alþýðunnar á næstunni hlýtur að verða fyrir bættum kaupkjörum, og sú pólitíska barátta alþýðunnar mun miða að því að koma frá ríkisstj. kaupkúgunarinnar, atvinnuleysisins og dýrtíðarinnar og fá í staðinn stj., er létti henni lífsbaráttuna eftir föngum. — Góða nótt.