12.10.1951
Neðri deild: 11. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í C-deild Alþingistíðinda. (2610)

15. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ræða hv. þm. V-Húnv. laut aðallega að tvennu. Annars vegar beindi hann til mín nokkrum fyrirspurnum viðvíkjandi frv., hins vegar ræddi hann innihald þessa máls með nokkrum orðum. Ég skal fyrst víkja að fyrirspurnunum og reyna að svara þeim.

Fyrsta spurning hv. þm. var á þessa leið: Hvernig á að tryggja það, að reglur þær, sem settar eru fram í frv., nái einnig til álagningar útsvara? — Það ætti öllum að vera ljóst, sem lesa frv., að það tekur aðeins til álagningar tekjuskatts, og það er því engin trygging fyrir því, að reglur þess mundu einnig gilda um útsvarsálagningu. Hitt er vitað, að það er háttur flestra bæjar- og sveitarfélaga að beita í megindráttum sams konar reglum við álagningu útsvara og beitt er við skattálagningu ríkisins, svo að þess mætti vænta, að útsvarsálagning breyttist í samræmi við þetta frv., ef það næði fram að ganga. Svo sem kunnugt er, eru engin lagaákvæði um álagningu útsvara, önnur en þau, að útsvör skuli lögð á eftir efnum og ástæðum. Þessum reglum er oft beitt mjög ranglega, svo að það er full ástæða til þess að athuga, hvort ekki beri að koma útsvarsálagningu í fastari skorður. Komi nú í ljós, að samþykkt slíks frv. sem þessa hefði engin áhrif á niðurjöfnun útsvara, tel ég rétt að setja reglur um, að ákvæði frv. gildi einnig um útsvör, því að auðvitað er rétt, að þau gildi um hvort tveggja, annars kæmi frv. ekki að hálfu gagni.

Þá spurði hv. þm., hvort ákvæði frv. giltu aðeins, þegar annað hjóna eða bæði ynnu utan heimilis. Þannig hefði hv. þm. ekki þurft að spyrja Auðvitað taka þau einnig til þess, er bæði hjónin vinna innan heimilis, og leiðir það af 1. gr. frv. — Ég þykist vita, að hv. þm. hefur haft bændur í huga, er hann spurði, en til þeirra á frv. að sjálfsögðu að taka.

Meiningin með ákvæðinu, sem hv. þm. spyr um í þriðja lagi og virðist langa til þess að misskilja, er sú að koma í veg fyrir tekjudreifingu á þann hátt, að annað hjóna ráðist til starfa við fyrirtæki, sem hitt á eða er meðeigandi að. Það er auðséð, að misbeita mætti mjög ákvæðunum um sérsköttun hjóna, ef slíkt væri hægt. Þó er þetta mál ekki auðvelt viðfangs. Þetta er framkvæmdaratriði, sem auðvitað væri sjálfsagt að athuga nánar. — Þetta var út af þeim fsp., sem hv. þm. beindi til mín.

Það, sem þessi hv. þm. sagði um málið almennt, virtist mér staðfesta algerlega, að hér er um sanngjarnt mál að ræða. Ég vil fara fáeinum orðum um dæmi hans um tvo ríkisstarfsmenn, sem eru hjón og bæði vinna hjá ríkisfyrirtækjum fyrir sjálfstæðum launum. Hann sagði, að það heimili hefði um 50 þús. kr. afgang af sínum tekjum, að frádregnum öllum gjöldum, og mun það vera rétt. Svo tók hann dæmi um tvö önnur heimili, sem hvort um sig hefði sömu tekjur og hvort hjónanna, sem hann fyrst nefndi, og sagði, að hvort heimili um sig hefði haft rúmlega 30 þús. kr. afgang, eða 60–65 þús. kr. sameiginlega. En gerum ráð fyrir viðvíkjandi þeim tveimur heimilum, sem hann síðar nefndi, — ég skal ekki um það segja, hvort það er maðurinn eða konan, sem vinnur úti, en segjum, að það sé maðurinn á öðru heimilinu, en konan á hinu, og nú rugla þessir tveir aðilar saman reytum sínum og giftast og stofna til sameiginlegs heimilis, þá hækka við það opinber gjöld þessa sama heimilis samkv. útreikningi þm. sjálfs um 10–15 þús. kr. (SkG: Dæmið, sem ég tók, var um tvo kvænta karlmenn.) Já, en tölurnar eiga auðvitað jafnt við um það, ef um væri að ræða mann og konu, sem síðar rugluðu saman reytum sínum. Ríkisvaldið fagnaði þeirri ráðstöfun með því að hækka skatta þeirra um 10–15 þús. kr. samkvæmt dæmi hv. þm. sjálfs. sem hann var — ég vil segja svo óheppinn að rekja hér þetta nákvæmlega. Það er mjög undarleg tilfinning fyrir því, hvernig eigi að leggja á skatta, ef honum finnst þetta eðlilegt. — Nei, það er ómótmælanlegt, að skattar hvíla tiltölulega miklu þyngra á aðilum, sem báðir afla sér sérstæðra peningatekna, miklu þyngra á hjónum, sem afla sér bæði peningatekna, en ef þau væru ekki hjón. Að láta það, hvort þessir tveir einstaklingar eru giftir eða ekki giftir, ráða svona gífurlega miklu um það, hvaða opinber gjöld eru greidd, er í hæsta máta óeðlilegt. Það er staðreynd, sem ég nefndi áðan, að skattar og útsvör hækka frá 45–55% vegna samsköttunarreglunnar.

Hv. þm. V-Húnv. minntist á, að það væri ekki há upphæð, sem láglaunamenn, t. d. verkamenn, spöruðu, þó að þessi ákvæði næðu fram að ganga. Það er rétt. Sem betur fer hvílir tekjuskattur til ríkisins ekki mjög þungt á láglaunamönnum, þó að hann hvíli miklu þyngra á þeim nú en hann gerði fyrir 20–30 árum, og því ekki von, að hægt sé að spara mikla fjárhæð, en hlutfallslega er sparnaðurinn mikill.

Hv. þm. nefndi dæmi um það, að þetta frv. mundi hafa miklu meiri þýðingu til hagsbóta fyrir heildsala en verkamenn. Það eru e. t. v. til heildsalar, sem mundu fá meiri lækkun á skatti sínum en verkamenn yfirleitt, en það má auðvitað ekki verða til þess, að verkamenn fái ekki sanngjarna leiðréttingu mála sinna. En til þess að koma í veg fyrir, að slíkar reglur verði til þess að lækka skatt hátekjumanna óeðlilega, er einmitt sett reglan um 18 þús. kr. hámark, sem konunni skuli reiknað af tekjum mannsins.

Ég get tekið undir það með hv. þm. V-Húnv., að það er margt. sem þyrfti að gera í skattamálum annað en þetta, og þá fyrst og fremst að lækka óbeinu skattana stórkostlega frá því, sem nú er. Þeir hvíla á launamönnum með svo miklu meiri þunga en þeir gerðu fyrir 20–30 árum, að það er alveg óviðunandi. Við Alþfl.-menn höfum augun opin fyrir þessu og höfum lagt fram till. til þess að ráða bót á þessu, og munu þær koma til umræðu áður en langt um líður, og þætti mér þá mjög gott að geta vænzt stuðnings hv. þm. V-Húnv. við það mál. Hvort hann sprettur þá jafnfljótt upp og hann gerir, þegar hann andmælir lækkun á beinum sköttum, veit ég ekki. Úr því verður reynslan að skera. Þau sjónarmið, sem komu fram hjá honum gegn frv., voru furðulega íhaldssöm, og ég harma það, hve oft það hendir hann á síðustu árum að halda slíkum sjónarmiðum á loft. Það, sem hér um ræðir, er tvennt: Annars vegar að bæta úr því mikla misrétti, sem nú á sér stað og felst í óeðlilegri samsköttun hjóna, þar sem reglan er í raun og veru þannig, að annar og hærri skattstigi er látinn gilda um þær tekjur, sem konan aflar sér utan heimilis, en þær tekjur, sem eiginmaðurinn aflar sér. Þetta er rétt, þrátt fyrir þær aths., sem hv. þm. gerði í ræðu sinni. Það er útúrsnúningur að halda því fram, að þetta sé sameiginlegt mál hjónanna beggja og geti því ekki talizt ranglátt fyrir annan aðilann. Það er staðreynd, að ef gift kona aflar sér sjálfstæðra tekna utan heimilis og ræður sér ráðskonu, vaxa skattarnir miklu meira en ef hún væri ógift. Þetta hlýtur að teljast mjög óeðlilegt, og úr þessu verður að bæta.

Hitt atriðið er það, að allt of lítill munur er gerður á sköttun gifts fólks annars vegar og ógifts hins vegar. Mig undrar, að hv. þm. skuli telja ástæðu til að andmæla því, að það er óverjandi, að ekki skuli vera nema 570 kr. munur á tekjuskatti og útsvari einstaklinga annars vegar og hjóna hins vegar af 30 þús. kr. tekjum. Þau skattal. eru ranglát, svo að óverjandi er, og þeim þarf að breyta, og eitt spor í þá átt væri meðal annars samþykkt þessa frv.