19.01.1952
Neðri deild: 63. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í C-deild Alþingistíðinda. (2625)

22. mál, Akademía Íslands

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Um áramótin 1907–08 hélt Guðmundur heitinn Björnson landlæknir erindi í Stúdentafélagi Reykjavíkur um nauðsyn þess að vernda móðurmálið gegn spillingu, er stafaði af notkun erlendra orða og alls konar bögumæla, og stuðla að vexti þess með myndun nýyrða. Hugsaði hann sér, að 12 eða 18 manna nefnd yrði falið þetta hlutverk. Er þetta því að líkindum fyrsta hugmyndin um íslenzka akademíu. Þessi fyrirlestur Guðmundar Björnsonar var prentaður í Skírni árið 1908, og í honum er þessi klausa:

„Farið, og talið við verzlunarmenn; þeir hafa dönsk orð í annarri hvorri setningu, sem þeim hrýtur af vörum. Sama er að segja um sjómenn og iðnaðarmenn; allir eru þeir dönskuskotnir. En verstir eru þó menntamennirnir; þeir gera sér að vísu flestir eitthvert far um að rita málið stórlýtalaust, en þeir tala það manna verst; tal þeirra er mest mengað dönskum orðum og setningum.“

Þetta sagði Guðmundur Björnson árið 1907, en síðan hefur þetta sem betur fer breytzt allmikið til hins betra fyrir atbeina ýmissa góðra manna.

Þetta mál var síðar tekið upp í Stúdentafélaginu, og skipaði það nefnd í málinu, og lagði hún til, að skipað yrði félag til verndar tungunni. Nefndarmenn lögðu til, að verkefni félagsins yrði m. a.: „að koma til leiðar, að gerð sé orðabók yfir nútíðarmálið; að gera allt sem unnt er til þess að hreinsa talmálið og varna því, að útlend orð og málleysur sé tekið inn í málið.“

Nefnd þessi var skipuð þjóðkunnum mönnum, en í henni voru: Guðmundur Björnson, Bjarni Jónsson frá Vogi, Benedikt Sveinsson alþm., dr. Jón Þorkelsson og Þorsteinn Erlingsson skáld. Þessir menn sömdu síðan till. í sex liðum, m. a. um það, sem ég gat um áðan, að gefin yrði út orðabók yfir málið, og einnig lögðu þeir til, að reynt yrði að afla sem flestra kennslubóka á móðurmálinu. Þessir nefndarmenn, sem hver á sinn hátt hafa átt ríkan þátt í því að hreinsa og vernda málið, gerðu þannig till., sem ganga í líka átt og frv. það, sem hér er til umr., en því miður voru þá menn í Stúdentafélaginu, sem gerðu ekkert úr þessum tillögum nefndarinnar, svæfðu þær, eins og það er kallað í dag.

Mér finnst það einhvern veginn liggja í loftinu nú hér á hv. Alþ., að ætlunin sé að láta þetta frv. hljóta sömu örlög og tillögur nefndar Stúdentafélags Reykjavíkur, sem sé að svæfa það. Ég tel þetta mjög illa farið.

Ýmsir menn hafa lagt fram stóran skerf til myndunar nýyrða yfir hluti eða hugtök, sem áður voru ekki til í íslenzku. Má þar sérstaklega geta um ýmis nýyrði í tækni- og viðskiptamáli. Mér er þetta sérstaklega kunnugt í sambandi við viðskiptamál, og verð ég að segja, að þegar ég lít til baka yfir farinn veg, hefur mikil breyting til hins betra orðið í þessu. Sama er að segja um tækniorð. Verkfræðingafélagið hefur haft forgöngu í því að íslenzka ýmis tækniorð og hefur með þessari starfsemi sinni forðað málinu frá því, að tekin yrðu inn í það ýmis erlend orð. En þetta hefur verið gert alveg skipulagslaust, og það, sem fyrir mér vakir með þessu frv., er, að þessi bráðnauðsynlega starfsemi verði nú rekin á skipulegan hátt.

Þess ber einnig að geta, að einstakir menn hafa unnið mikið gagn við verndun móðurmálsins, og má þar sérstaklega geta Guðmundar heitins Finnbogasonar, sem lagði þar fram stóran skerf með sinni alkunnu smekkvísi.

Tilgangurinn með stofnun Akademíunnar er sá, að vakað verði yfir tungunni og þróun hennar af mestu andans mönnum þjóðarinnar. Það á að koma í veg fyrir það, að inn í landið flæði erlend bögumæli og orðskrípi, er ekki samrýmast eðli og byggingu málsins. Úr málinu þarf að hreinsa slík orð, sem þegar hafa náð einhverri festu. Málið þarfnast fjölda nýrra orða, sem nútíminn gerir kröfu til. En þetta verður aðeins gert á skipulagsbundinn hátt og af mönnum, sem til þess eru hæfir. Ef málsnilld og málþekking kemur þar ekki til aðstoðar, myndar almenningur sér sjálfur orðin, sem á þarf að halda. Það má segja, að tungan sé nú í þessum efnum á vegamótum. Verði hún ekki vernduð og vakað yfir þróun hennar, sýkist hún eins og búpeningurinn.

Það er virðulegt hlutverk, sem Akademíunni er ætlað. Þess vegna á hún að verða virðuleg stofnun, sem andans mönnum þjóðarinnar á að vera heiður að teljast til.

Um það hefur talsvert verið fjallað í ræðu og riti, að óviðfelldið væri, að stofnun, sem ætti að hafa á hendi vörn málsins, bæri erlent nafn. Ég bar þetta atriði undir nokkra lærðustu og smekkvísustu menn á íslenzka tungu, áður en ég setti málið fram, og voru þeir allir á einu máli um, að ekkert væri við það að athuga, að orðið „akademía“ væri tekið upp í málið og einmitt notað um slíka stofnun eins og nú tíðkast í flestum menningarmálum. Nútíðartungan felur í sér mikinn fjölda erlendra orða, sem nú eru orðin samgróin málinu. Tungan er alltaf að tileinka sér ný orð og verður að gera það, ef hún á að haldast lifandi. Með kristninni fengum við erlend orð yfir flesta kirkjulega hluti og athafnir, eins og kunnugt er, svo sem kirkja, biskup, prestur, sálmur, messa, hökull o. s. frv. Nú mundi engum koma til hugar að leita nýrra orða í stað þeirra.

Ég veit, að sumir menn hafa haft orð á því, að hér væri um tildurstofnun að ræða. En ég vil halda því fram, að þetta sé hinn mesti misskilningur. Þetta er ekki meira hégómamál en stofnun sænsku eða frönsku akademíunnar var á sinni tíð, stofnana, sem þessar þjóðir eru stoltar af, enda hafa þær unnið þeim ómetanlegt gagn og óbrotgjarna sæmd. Það eru þessar stofnanir, sem andans mönnum þeirra þykir mestur heiður að teljast til.

Ég er þakklátur frsm. minni hl. og meiri hl. menntmn. fyrir þau fallegu orð, sem þeir hafa látið í ljós um þessa hugmynd. Ég vil sérstaklega þakka minni hl. n. fyrir það, að hann vill láta samþykkja frv., en þó með þeirri breytingu, að heiðurslaun falli niður til þeirra, sem sæti eiga í Akademíunni. Ég hef orðið þess var, að fáir vilja nokkru fórna fjárhagslega til verndar móðurmálinu, og álít ég, að þetta sjónarmið hafi orðið þyngst á metunum hjá meiri hl. n. Hann hefur álitið, að hér væri verið að stofna tólf ný embætti. Meiri hl. hefur sýnilega ekki gert sér neitt far um að kynnast málinu. Ástæður hans fyrir frestun málsins eru næsta einkennilegar. Telur hann frest nauðsynlegan vegna þess, að fyrir Alþingi liggi till. um listarráð, sem hafi önnur verkefni en greinir í þessu frv., og stjórn Bandalags ísl. listamanna hafi óskað, að málinu væri frestað, og vegna þess, að meiri hl. væri ekki kunnugt um reglur þær, sem gilda um akademíur með öðrum þjóðum. Þetta eru léttvægar og barnalegar ástæður. Ef hv. meiri hl. hefði ómakað sig til að tala við mig, hefði ég getað gefið honum öll plögg og upplýsingar, sem hann skorti. Það er allt fyrir hendi. En hann taldi ekki ómaksins vert að kynnast því.

Af því að hv. meiri hl er svo ófróður í málinu, þykir mér rétt að skýra frá því með nokkrum orðum, hvert sé aðalverkefni frönsku og sænsku akademíunnar. Hlutverk þeirrar frönsku er að vinna að því að hreinsa og festa móðurmálið, athuga fegurð þess og galla hjá rithöfundum þjóðarinnar, sjá um útgáfu nýrrar orðabókar og sígildra rita þjóðarinnar. Verkefni hinnar sænsku er að vinna að hreinleik, styrk og reisn sænskrar tungu og að styrkja vísindi, skáldskap og mælskulist. Báðar þessar akademíur hafa unnið ómetanlegt starf, og frönsku akademíunni er þakkað það, að franskan er fegursta og auðugasta mál, sem nú er til.

Þær mótbárur, sem komið hafa fram gegn þessu máli, hafa mér ekki virzt þær, að menn vildu ekki vernda tunguna, heldur vilja þeir ekki neinu til þess kosta. Þeir vilja ekki setja slíka varnarnefnd gegn spillingu málsins, ef það hefur einhvern kostnað í för með sér. Menn hafa talað um, að hér sé verið að stofna 12 ný embætti, en samkv. X. lið 15. gr. fjárl. eru 99 embætti með svipuðum hætti. Hv. þm. hafa kannske ekki gert sér grein fyrir því, þegar sá liður er samþ. á ári hverju.

En nú skulum við athuga, hvað Alþ. leggur fram til þess að vernda allt annað milli himins og jarðar en móðurmálið, en það skiptir mörgum millj. Til heilsuverndarstöðva eru veittar 250 þús. kr., til rannsóknaráðs 150 þús. kr., til berklavarna 4.5 millj. kr., til tilraunaráðs búfjárræktar 125 þús. kr, og til fyrirhleðslu í ós Bessastaðatjarnar 125 þús. kr. En mönnum kemur ekki til hugar að verja 150 þús. kr. til þess að vernda móðurmálið fyrir ágangi og spillingu. Við leggjum í sauðfjársjúkdómavarnir 15 millj. kr., en ef einhver vill verja sem svarar 1% af því til verndar móðurmálinu, er hann talinn broslegur og aumkunarverður. Þó mundi þjóðin ekki hugsa sig um andartak, ef hún ætti að velja á milli búfénaðarins og móðurmálsins. Ef hún þyrfti að velja milli þessa, mundi hún láta hverja skjátu og falla á kné af þakklæti fyrir að mega velja þann kostinn. En hvernig stendur þá á því, að við erum svo numdir í berg matarstritsins, að við gefum ekki gaum að því að vernda þann gimstein, er við eigum dýrmætastan?

Það er gert ráð fyrir því, að sá kostnaður, sem samþykkt þessa frv. mundi hafa í för með sér, verði greiddur af því framlagi, sem ætlað er til skálda, rithöfunda og listamanna samkv. X. lið 15. gr. fjárl. Árið 1950 var þetta framlag 519 þús. og 1951 — eftir gengislækkunina — var það einnig 519 þús. kr. Nú mætti hugsa sér, að ástæðulaust hefði verið að hækka þetta framlag, en ég hækkaði það um 111 þús. kr. í því skyni eingöngu, að það fé gæti gengið til Akademíunnar, ef þetta frv. yrði samþ. Á meðan enginn vissi annað en að þessar 111 þús. kr. ættu að ganga til nokkurra tuga miðlungsmanna í skáldskap og listum, sagði enginn neitt. Ég býst við því, að ef ég hefði tilkynnt þetta um leið, hefði framlagið verið lækkað, en auk þess voru á fjárl. áætlaðar 30 þús. kr. til útgáfu íslenzkra nýyrða.

Ég vil í sambandi við þetta benda hv. þm. á, að á listanum yfir þessa úthlutun eru 99 menn og konur. Í tveimur lægstu flokkunum eru 47 menn, sem fá 154200 kr. samtals. Ég tel, að þetta sé fólk, sem litla eða enga kröfu getur gert til þess að vera styrkt opinberlega sem skáld eða listamenn. Hér er skrá yfir 99 andans menn og listamenn að mati Alþ. Formlega eru þeir viðurkenndir af þjóðinni, en fjölda þeirra hefur þjóðin aldrei heyrt nefnda á nafn. Ég geri ekki ráð fyrir því, að ég sé verr að mér en allur almenningur í þessum efnum, en þeir eru margir, sem ég þekki ekki að nafni. Það virðist svo, að hafi menn haldið fyrirlestur, ort kvæði eða tækifærisvísur, komið á leiksvið, samið eða hlaðið saman einhverri ófreskju í leikrit, þá hafi þeir möguleika til þess að fá laun frá íslenzka ríkinu. Með þessu er ekki verið að hjálpa þessum mönnum til náms eða aukinnar þroskunar, heldur er þetta misskilin viðurkenning, sem orðin er að eins konar fátækraframfæri, er menn geta hvorki lifað né dáið á og áróður og kunningsskapur ræður mestu um. Hér er því lagður mælikvarði á skáldskap og listir, sem mörgum hrýs hugur við.

Ég hef bent á þetta til þess að sýna, að ekki eru allir verðugir, sem teknir eru með á þennan útgjaldalið, og sízt verðugri en þeir, sem skipa mundu sæti í Akademíunni. Það virðist ljóst, að þetta frv. muni ekki ná fram að ganga nú, en ég vil samt gera allt til þess að því takmarki verði náð og óska því eftir því, að málið verði nú tekið út af dagskrá.