16.10.1951
Neðri deild: 13. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í C-deild Alþingistíðinda. (2632)

26. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það virðist svo af greinargerð þessa frv., að það sé fram komið í þeim tilgangi fyrst og fremst að létta skattabyrðinni af verkamönnum og öðrum þeim, sem lágar tekjur hafa. Í grg. er talað um Dagsbrúnarverkamann og gerður þar ýmiss konar útreikningur á því, hver munur sé á skattabyrði hans nú og fyrir nokkrum árum. Síðar í grg. er svo talað um það, að brýna nauðsyn beri til að gera ráðstafanir til þess að létta láglaunamönnum lífsbaráttuna. Þetta sjónarmið kom einnig fram í ræðu hv. 3. landsk., þar sem hann ræddi mjög um þær stéttir þjóðfélagsins, sem skatturinn kæmi illa niður á. Hann birti og nokkrar tölur, sem skyldu sýna, hver áhrif þessa frv. yrðu á skattálagninguna, ef það næði fram að ganga. Ég hef líka reynt að glöggva mig á því með dæmum og komizt að þeirri niðurstöðu, að verkamaður í Reykjavík, kvæntur, með 2 börn á framfæri sínu, sem hafði á s. l. ári 25 þús. kr. tekjur - og má þá ætla, að nettótekjur hans hafi numið um 24 þús. kr. — hefur orðið að greiða í tekjuskatt á þessu ári 319 kr., en mundi hafa orðið að greiða 18–19 kr., ef ákvæði þessa frv. hefðu verið í gildi. Hann hefði sem sagt grætt á breytingunni 300 kr. Ég hef líka athugað, hver útkoman hefði orðið, ef sami verkamaður hefði haft um 30 þús. kr. nettótekjur, og mér reiknast til, að ágóði hans hefði orðið 495 krónur, ef frv. hefði gilt sem lög. Nú er því ekki að neita, að verkamenn og aðra láglaunaða menn mundi muna dálítið um þessa upphæð, en ég vil þó vekja athygli á því, að þetta er ekki stór upphæð borið saman við ýmis önnur gjöld, sem þessir menn verð.a að greiða. Má þar t. d. minna á, að nú verður verkamaður að greiða til trygginganna og sjúkrasamlagsins samtals 800–900 kr. á ári, og þessi skattur er tiltölulega nýtilkominn. Ég hef nýlega við umræðu um annað frv. sýnt fram á, að beinu skattarnir til ríkisins hvíla ekki þyngra á láglaunamönnum en ýmis önnur útgjöld.

Í þskj., sem fram kom í gær frá fjórum hv. þingmönnum, er þess getið, að Glámufjallgarðurinn hafi tvær hliðar og snúi aðeins önnur þeirra niður að Arnarfirði. Ég held, að það sé svipað með þetta frv., það hafi tvær hliðar, og eins og allar ár frá Glámufjallgarði falla ekki til Arnarfjarðar eins mundi allur ágóði, sem menn hefðu af samþykkt þessa frv., ekki falla til láglaunastéttanna. Glámufjallgarður skilar nokkru af vatni sínu í Skötufjörð, og eins mundi frv. þetta skila allríflegum ágóða til prófessora, forstjóra, heildsala og annarra manna, er meiri tekjur hafa en almenningur. Mér reiknast svo til, að hagnaður slíkra manna af þessu frv. yrði margfaldur á við hagnað þeirra verkamanna, sem hv. 3. landsk. virtist bera fyrir brjósti. Um réttmæti þess að létta þessum hátekjumönnum lífsbaráttuna skal ég ekki dæma, en mér finnst, að ákvæði frv. séu í ósamræmi við grg. þess og ræðu hv. 3. landsk. Ég vil leggja áherzlu á, að það eru óbeinu skattarnir, sem eru þyngri en áður, en þeir beinu tiltölulega lægri. Þetta frv. miðar að því að létta beinu skattana á tekjuhæstu mönnunum, og geti ríkissjóður ekki misst af tekjum sínum, yrði enn að hækka óbeinu skattana til að vega upp á móti þeim tekjumissi, sem mundi verða við gildistöku þessa frv.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að ræða þetta frv. frekar við 1. umr., þar sem málið á eftir að koma fyrir nefnd til frekari athugunar. Ég vildi aðeins vekja athygli á þeim atriðum, sem ég hef drepið á hér.