16.10.1951
Neðri deild: 13. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í C-deild Alþingistíðinda. (2647)

53. mál, framlag til veðdeildar Landsbanka Íslands

Flm. (Pétur Ottesen):

Eins og kunnugt er, er Búnaðarbankinn aðallánastofnun landbúnaðarins, og það eru einkum þrjár deildir bankans, sem hafa með höndum að lána bændum fé til nokkuð langs tíma. Þetta er byggingarsjóður, ræktunarsjóður og veðdeild. Byggingarsjóður og ræktunarsjóður, og þó einkum og sérstaklega byggingarsjóður, hafa fengið á síðustu árum nokkurt fé til eignar og verið þannig styrktir til þess að inna það hlutverk af hendi, sem þeim er falið, en verkefni byggingarsjóðs í þágu landbúnaðarins er fyrst og fremst að lána fé til íbúðarhúsabygginga og ræktunarsjóðs að lána til húsbygginga og svo til ræktunarframkvæmda. Starfsemi þessara tveggja sjóða er að heita má einskorðuð við þessar þarfir landbúnaðarins. Veðdeildin aftur á móti átti að sinna ýmsum öðrum verkefnum, sem bændur þurfa að fá lán til, og þar á meðal er það að lána mönnum eða styðja menn til að kaupa ábýli sín og einnig til bústofnskaupa. En nú er svo ástatt um veðdeildina, að hún hefur ekki fengið neitt nýtt fé til starfsemi sinnar, hvorki eigið fé né að henni hafi verið skapaðir lántökumöguleikar. Að því er þessa deild snertir er því kyrrstaða í lánveitingum. Veðdeildin býr að fyrstu gerð, að til hennar var lagt fé það, sem eftir var í viðlagasjóðnum gamla. Og veðdeildin er þannig á vegi stödd nú, að hún ræður aðeins yfir tæpum tveimur milljónum króna, sem vitanlega allt er í útlánum. Árlegar tekjur veðdeildarinnar eru um 120 þús. kr., en hún skuldar nú um 600 þús. kr. sparisjóðsdeild Búnaðarbankans. Af þessu má sjá, hversu veðdeildinni er það gersamlega um megn að sinna að nokkru sem um munar þeim þörfum, sem bændur hafa fyrir lán úr þessari deild til ýmissa annarra framkvæmda en húsbygginga og ræktunarmála.

Nú er það svo, eins og minnzt er á í grg. fyrir þessu frv., að þau gleðitíðindi hafa gerzt á síðustu árum, að hugir manna stefna nú meir að því að stofna til búskapar í sveitum en var. Um alllangt tímabil hefur straumurinn legið mjög þungur frá sveitum til kaupstaða. Þetta hefur mönnum verið mjög mikið áhyggjuefni, sem eðlilegt er, af því að í kaupstöðunum eru engan veginn fyrir hendi svo trygg afkomuskilyrði, að fullt öryggi megi telja. En til þess að þetta nýja viðhorf hjá borgurunum geti notið sín, er óhjákvæmilegt, að fyrir hendi sé stuðningur af hálfu hins opinbera, bæði til þess að menn eignist aðgang að lánum með viðunandi kjörum til þess að auka bústofn og einnig til þess að geta tryggt sér býli. Þetta skortir hvort tveggja. En þetta er m. a. hlutverk veðdeildarinnar, eða var hugsað sem hlutverk hennar, þegar henni var komið á fót. Ég hef því í þessu frv. lagt það til, að veðdeildinni verði lagðar til 5 millj. kr. af tekjuafgangi ríkissjóðs árið 1951. Það eru allar horfur á því, að allverulegur afgangur verði í ríkisbúskapnum í ár, hverju ber mjög að fagna. Og ég lít á þá nauðsyn, sem hér er fyrir hendi, að það væri mjög hyggileg ráðstöfun að verja þó ekki væri stærri upphæð en þetta af tekjuafgangi ársins til þess að sinna þessu mikilvæga verkefni að styðja menn til þess að koma á fót nýjum búskap í landinu.

Mér þykir ekki ástæða til að fara fleiri orðum um þetta á þessu stigi málsins en ég nú hef gert og í grg. frv. felst. Ég vænti þess, að málið fái góðar undirtektir í hv. d. og að menn geti orðið sammála um þá nauðsyn, sem hér er fyrir hendi. Það verður vitanlega að viðurkennast, að sú upphæð, sem ég fer fram á, er mjög naumt skorin. Væri náttúrlega ákaflega gott, ef menn sæju sér fært að ganga nokkru lengra í því efni en ég hef nú gert á frumstigi þessa máls í þessu frv. mínu. — Ég vildi svo leggja til, að málinu verði vísað til hv. landbn. Mér skilst, að þar eigi það heima. Á sínum tíma, þegar hér lágu fyrir breyt. á l. um ræktunarsjóð og byggingarsjóð, voru þau mál í landbn. Í samræmi við það geri ég mína till.