13.12.1951
Neðri deild: 43. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í C-deild Alþingistíðinda. (2650)

53. mál, framlag til veðdeildar Landsbanka Íslands

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Ég gerði hér síðast nokkra grein fyrir lánaþörf landbúnaðarins. — Skömmu eftir að frv. þessu var vísað til n., sendi hún það stjórn Búnaðarbankans til umsagnar. Í svari sínu mælir stjórn Búnaðarbankans mjög eindregið með því, að frv. verði samþ. Það vita allir, og er ofur eðlilegur hlutur, að þeir, sem eru að byrja að búa, þurfa að kaupa æðimargt. Frumskilyrðið er auðvitað jarðnæði, og þar við bætist margt. N. var sammála um, að knýjandi þörf er á því, að veðdeild Búnaðarbankans sé efld.

N. ákvað að bæta við 1. gr., þannig að aftan við hana bætist: „þó þannig, að í fyrirrúmi sitji jarðakaupalán til manna, sem eru að hefja búskap, og til leiguliða, sem verða jarðnæðislausir.“

N. leggur til, að á eftir 1. gr. komi ný gr., svo hljóðandi: „Ríkisstj. ábyrgist sölu á veðdeildarbréfum veðdeildar Búnaðarbanka Íslands með nafnverði að upphæð allt að 1 millj. kr. á ári í 5 ár (1953–1957).“

Ef þetta kæmist í framkvæmd, væri veðdeild bankans tryggð það há upphæð að hlaupa upp á, að ekki sé komið að lokuðum dyrum. Væri með því móti hægt að veita nokkra úrlausn.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um málið, en vil mæla með því, að þessar till. og frv. verði samþ.