13.12.1951
Neðri deild: 43. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í C-deild Alþingistíðinda. (2654)

53. mál, framlag til veðdeildar Landsbanka Íslands

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég held, að ég hafi gert grein fyrir þessu í dag, sem hv. þm. V-Húnv. gat um, en það lágu þrjú mál fyrir landbn., og voru þau öll send til Búnaðarbankans til umsagnar. Var þeim öllum svarað, en frv. hv. þm. Borgf. var það eina, sem varð ekki ágreiningur um í n., enda er það vitað mál, að veðdeild bankans er févana. En aftur á móti komu fram önnur frv. um sama efni. Voru þau frv. samhljóða að meginmáli, en fjáröflunarleiðir skildu þau að. Í n. var rætt um þau mál, en um þau gat ekki orðið samkomulag. Hins vegar náðist samkomulag um frv. hv. þm. Borgf., með nokkrum breyt., og skyldi afgr. það sérstaklega. Þótt annað frv. sé um svipað efni, þá aðskilur þau þó það, að með frv. hv. þm. Borgf. á þskj. 77 er gert ráð fyrir framlagi til veðdeildar Búnaðarbankans, sem m. a. sé varið til útlána vegna jarðakaupa og bústofnunar, en í hinu, að 4 millj. kr. yrðu veittar til lána út á búfé og vélar hjá frumbýlingum.

Ég ætla ekki að fara frekar út í þetta nú, en landbn. taldi ekki æskilegt, að þessum tveimur frv. yrði blandað saman.