13.12.1951
Neðri deild: 43. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í C-deild Alþingistíðinda. (2655)

53. mál, framlag til veðdeildar Landsbanka Íslands

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Hv. þm. Dal. hefur tekið af mér ómakið að svara fsp. hv. þm. V-Húnv. Hins vegar vil ég leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér úr bréfi, sem n. barst frá Búnaðarbankanum. Þetta bréf hljóðar svo:

„Sem svar við bréfi hinnar hv. n. frá 24. f. m.. en þar er óskað umsagnar um frv. flutt af Pétri Ottesen, sem er aðeins tvær greinar, skal það sagt, að hér er um að ræða mjög aðkallandi nauðsyn, þ. e. að bæta úr lánsfjárskorti veðdeildar bankans. Er í þessu frv. í stuttu máli bent á leið til úrbóta í þessu máli.

Mælir stjórn bankans eindregið með samþykkt þessa frv., en teldi mjög æskilegt, að inn í 1. gr. frv. væri bætt til frekari framtíðarlausnar málsins ákvæði um, að til viðbótar 5 millj. kr. framlagi nú þegar komi ein millj. kr. árlega á næstu 5 árum (1952–1956 að báðum meðtöldum), og yrði þá framlag þetta samtals 10 millj. kr. að þessum tíma liðnum. Væri þá á tiltölulega viðunandi hátt leyst úr hinni brýnu fjárþörf þessarar lánadeildar landbúnaðarins í náinni framtíð.“

Ég vildi benda á þessa umsögn til áherzlu því, að þetta mál nái fram að ganga. Form. landbn. hefur og bent á nauðsyn þess, að frv. þessu verði hraðað.