07.01.1952
Neðri deild: 54. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í C-deild Alþingistíðinda. (2672)

65. mál, sjúkrahús

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Út af fyrirspurn hv. þm. Borgf. skal það tekið fram, að heilbr.- og félmn. þessarar deildar ræddi þetta frv. á fundi fljótlega eftir að henni var sent það. Á þessum fundi var samþykkt að senda frv. til landlæknis til umsagnar.

Nú hefur enn ekki borizt umsögn hans, en hins vegar hefur verið haft samband við hann og hann minntur á málið. Hann kveðst hafa skrifað framkvæmdastjórnum sjúkrahúsa víða um land til þess að glöggva sig á, hvaða óskir þær hafa fram að færa í sambandi við þetta mál, og hann hefur lofað nefndinni því, að jafnskjótt og álit þeirra liggi fyrir, skuli hann láta hana hafa sína umsögn um málið.

Það mun verða ýtt á eftir þessu máli hjá landlækni, og mun nefndin ekki draga að afgr. það, eftir að umsögn landlæknis liggur fyrir.