05.11.1951
Neðri deild: 22. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í C-deild Alþingistíðinda. (2688)

85. mál, almannatryggingar

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Á almannatryggingalögunum, sem samþykkt voru 1946, hefur komið í ljós einn galli. Menn hafa veitt því athygli, að þörf er nýs bótaflokks, ef lögin eiga að koma að fullu gagni, og á ég þar við mæðralaun.

Greiddur er barnalífeyrir með börnum. Einstæð móðir með eitt barn fær greiddan barnalífeyri, svo að hún á að geta komizt af með hann ásamt þeim tekjum, sem hún kann að geta aflað sér. Eigi nú móðirin hins vegar tvö, þrjú eða fjögur börn, hlýtur það að binda starfsgetu hennar, og þá hrekkur lífeyririnn ekki til. Hér er nauðsyn að hlaupa undir bagga til að létta þessum einstæðingsmæðrum lífsbaráttuna með greiðslu sérstakra launa, og það er lagt til í þessu frv. Það er óhætt að fullyrða, að mestur hluti af þeim mæðrum, sem svona stendur á fyrir, er ekkjur eða fráskildar konur, því að flest óskilgetin börn eru einbirni sinna mæðra.

Þetta er ekki í fyrsta sinn, sem þetta mál kemur fram hér á Alþingi. 1948 var skipuð milliþinganefnd til að athuga almannatryggingalögin. Sú nefnd gerði svipaðar till., en þær náðu ekki fram að ganga. Síðan hefur málið tvívegis verið borið fram, en ekki náð samþykki. Till. er eins og áður, nema töluupphæðirnar eru breyttar til samræmis við þær vísitölubreytingar, sem síðan hafa orðið.

Óhætt er að fullyrða, að mikill áhugi er fyrir máli þessu meðal ýmissa samtaka kvenna. Nánari skýringar tel ég að séu óþarfar, en óska eftir því, að málinu sé að lokinni þessari umr. vísað til hv. félmn. og 2. umr.