05.11.1951
Neðri deild: 22. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í C-deild Alþingistíðinda. (2692)

86. mál, sýsluvegasjóðir

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Í lögum frá árinu 1933 eru ákvæði um sýsluvegasjóði, og samkvæmt þeim l. og breyt., sem á þeim hafa verið gerðar árið 1947, er ákveðið gjald til sýsluvegasjóða, sem jafnað er niður í hverju héraði, þar sem slíkir sjóðir eru, og síðan leggur ríkissjóður fram fé á móti framlagi úr sjóðunum eftir vissum reglum, sem ákveðið er um í lögunum. Í þessu frv. sem hér liggur fyrir, er lagt til, að ríkissjóður greiði framvegis fé á móti aukaframlögum úr hinum einstöku héruðum til sýsluvegasjóða umfram hámarksniðurjöfnun vegaskatts. Þetta var framkvæmt svo um skeið, en fyrir nokkru var þessu hætt, og ríkið greiðir ekki nema lögákveðin framlög. Hins vegar er lagt til, að á þetta aukaframlag sé sett ákveðið hámark, að ríkissjóður þurfi ekki að leggja sem aukaframlag meir en 50% árlega af því gjaldi, sem jafnað er niður í viðkomandi héraði. Þá er það einnig sett sem skilyrði fyrir greiðslu ríkissjóðs á aukaframlagi, að upphæðin, sem á að leggja á móti, verði ákveðin með fyrirvara, en tilkynnt vegamálaráðuneytinu áður en ríkisstj. hefur lokið við að semja fjárlagafrv. fyrir það ár, sem framlagið á að greiðast úr ríkissjóði. Er þetta ákvæði sett til þess, að hægt sé að setja aukaframlögin inn á fjárlagafrv. stjórnarinnar hverju sinni.

Eins og ég gat um, voru gerðar breyt. á 1. um samþykktir um sýsluvegasjóði árið 1947. Þá voru gerðar breyt. á 1. varðandi aukaframlag til sýsluvegasjóða, en í þessu frv. hef ég tekið upp ákvæði laganna frá 1947 óbreytt, þannig að þau lög falla úr gildi um leið og þetta frv. nær samþykki, ef að lögum verður. Þetta er gert til hægðarauka, svo að ekki séu mörg lög í gildi samtímis um sýsluvegasjóði. Ég vænti þess, að hv. þm. sé þetta ljóst, er þeir lesa frv.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara um málið fleiri orðum, en geri það að till. minni, að málinu verði vísað til hv. samgmn. og 2. umr. að þessari umr. lokinni. Ég leyfi mér svo að vænta þess, að mál þetta fái greiða afgreiðslu og þær breyt., sem frv. felur í sér, fái góðar undirtektir.