14.12.1951
Neðri deild: 44. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í C-deild Alþingistíðinda. (2703)

90. mál, Búnaðarbanki Íslands

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. landbn. fyrir það, að hún hefur afgr. málið á þann veg, sem hún hefur gert. Reyndar hefði ég kosið, — og við flm. þess, — að það hefði komið nokkru fyrr, en ef góður vilji er til að greiða fyrir afgreiðslu málsins, þá má það vel takast. Það kom fram í umr. í gær um mál skylt þessu, hver orsök er til þess, að n. gat ekki afgr. málið fyrr, og því er ekki þörf að gera það frekar að umtalsefni.

Rétt í þessu vorum við að afgr. við 2. umr. annað mál náskylt þessu, þ. e. að auka fé veðdeildar Búnaðarbanka Íslands, sem nota skal til jarðakaupa og annars þess konar við búskap. og munar að sjálfsögðu um þá upphæð, og er vel farið, að sú ákvörðun hefur verið tekin. En þótt greitt sé fyrir því með þessu máli, að menn geti fest sér jarðnæði, þegar þess er kostur að fá jarðir, þá er það engan veginn nægileg lausn á því, að býlum geti fjölgað á landinu, eins og vonir standa til, og alveg er það víst, að margir bændur, sem eru við búskap og koma til með að hefja búskap, geta ekki keypt það jarðnæði, sem þeir eiga kost á, ekki eingöngu fyrir skort á fjármunum, heldur og vegna þess, að þeir eiga þess ekki neinn kost.

Fyrir ekki löngu var nær helmingur jarða í sjálfsábúð í þessu landi. Hvað því líður nú, get ég ekki borið um, en allur fjöldinn er áreiðanlega í sjálfsábúð enn og kemur til með að vera það áfram, svo þó að greitt sé fyrir því, að menn geti fengið fjármuni til að kaupa jarðir, þá er engan veginn leyst úr þessu máli eins og þarf. Og þó að svo takist til, að þeir, sem eiga kost á jarðnæði, geti keypt þær, þá þurfa mennirnir meira, þeir þurfa áhöld, og um það fjallar fyrst og fremst þetta frv. Ég álít, ef skortur verður eins og hingað til á því, að menn geti aflað sér fjármuna til þess að kaupa tæki og bústofn, að þá verði þeir miklu færri, sem geta hafizt handa um að hefja búskap. Ekkert fé hefur fengizt lánað með veði í búfé, og hefur því verið borið við, að það væri ekki nógu tryggt, ekki eins öruggt og veð í fasteignum. Ég tel það undir flestum kringumstæðum ekki vera á nokkurn hátt lakara en hvað annað, ef bændur verða ekki fyrir neinum sérstökum óhöppum. Á hverju byggist það, að jörð sé í nokkru verði? Það byggist ekki á því, að land sé til, heldur á því, að það sé nytjað. Og hvað þarf til þess? Eru það ekki tæki og búfénaður, enda eru dæmi til þess, að jarðir hafa ekki reynzt tryggt veð? Það telst að vísu til undantekninga. En reynslan hefur einnig staðfest, að veð í skepnum er tryggt. Viðvíkjandi ugg manna um það, að þótt veð í búfé verði viðurkennt, þá muni það ekki verða til mikils gagns, þá vil ég fullyrða það, að stór bót mun verða að því. Eina ráðið til að auka landbúnaðinn er að veita þeim mönnum fjárhagslega aðstoð, sem vilja hefja búskap. Ég vona því, að Alþingi afgreiði þetta mál.

Ég get tekið undir það með hv. 5. landsk., að eðlilegt hefði verið, að þessi frv. hefðu verið flutt sem eitt mál, en það, sem við vorum að greiða atkvæði um í gær, var aðeins einn þáttur af þeirri starfsemi, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, og á því og þessu frv. er aðeins eðlis- en ekki efnismunur.

En þótt þetta komi fram í svona búningi, þá ætti það ekki að vera málinu til ógagns. Ég vona því, að hv. alþm. láti málefnið ráða afstöðu sinni.